Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, nóvember 30, 2003
 
"Can't walk away, no no no no, can't walk away, can't walk awwwway"

Ég hef ekki sagt frá því á þessum vetvangi áður, en ég á mér átrúnaðargoð. Það goð hefur í gegnum árin heillað landann með söng og farandbókasölu. Er samkvæmt mínum heimildum sá besti í þeim bransa, reyndar hef ég orðið vitni að söluhæfileikum hans í eigin persónu, og það oftar en einu sinni. Það var við eitt slíkt tækifæri sem (reyndar í fyrsta sinn sem ég sá hann) ég tók þennann mann formlega í guðatölu. Þá var ég ungur, saklaus drengur í sveit hjá ömmu minni vestur í Kolbeinsstaðahrepp. Ég hafði þá verið þar í nokkurn tíma (eins og barna var siður í mínu ungdæmi) við leik og störf. Einn morguninn tek ég eftir því að hún amma mín er að hamast við að þrífa eggin sem ég hafði sótt kvöldið áður. Ég spyr hvað valdi, því ég átti því ekki að venjast að sjá ömmu með uppþvottaburstan á lofti við eggjaþvott strax eftir mjaltir. Hún svarar því til að Herbert sé væntanlegur og skýrir það ei frekar. Síðar um daginn rennur bíll í hlað og út úr honum stígur glæsmenni mikið, ekki hár í loft en þeim mun stórfenglegri á velli. Mér verður starsýnt á manninn, ekki vanur því að menn séu sparibúnir í sveitum nema við ákaflega sérstök tækifæri. "Hæ kútur, er Ólöf heima?" spyr sá ókunni. Ég jánka því og þýt inn í bæ til að tilkynna um gestin. Kemur þá amma mín fram og tekur á móti gestinum með þessum orðum. "Komdu sæll og blessaður Herbert minn, hvernig hefurðu það góði?"

Herbert gestur tekur innilega undir kveðju ömmu og gengur í bæinn eins og hann eigi þar hvurn stein. Hann situr á kolli í miðju eldhúsinu, í svörtum frakka, með skalatösku í fanginu. Þau amma mín spjalla mikið saman og man ég nú lítið eftir því hvað þeim fór þar á milli, nema að með reglulegu millibili þá segir amma eitthvað á þessa leið. "Nei takk, það held ég ekki" og aðrar setningar í svipuðum dúr. Eftir að hafa drukkið eins og einn eða tvo kaffibolla þá stendur gesturinn upp og spyr hana ömmu mína hvort hún eigi nú ekki egg handa sér. Amma heldur það nú og dregur fram úr ísskápnum eggjabakka fullan af hvítum og fallegum eggjum. Ég horfi stóreigur á manninn taka við eggjunum og smella stórum kossi á kinnina á ömmu. Hann kveður hana svo með virtum og mig með klappi á kollinn, um leið og hann segir: "Sjáumst kútur." Svo stígur hann upp í bílinn og ekur á burt. Ég var ekki seinn að spyrja ömmu hvur þetta hefði nú verið. "Þetta var hann Herbert Guðmundsson Konráð minn. Hann kemur stundum við hérna hjá mér og fær egg."

Síðar hef ég orðið vitni að því hvernig Herbert sannfæri óviljuga kúnna (foreldra mína) um ágæti einhvurra bóka og í síðasta skiptið sem ég sá hann þá keypti ég sjálfur af honum tvo af geisladiskunum hans og fékk hann til þess að árita þá. Það eru fáir eins og Hebbi. Gríðarlegar þakkir til Batman.is fyrir að beina mér að heimasíðu goðsins.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






laugardagur, nóvember 29, 2003
 
"Heimurinn þjáist af heimsku og sút,
hvernig sem á það er litið.
Í loftinu liggur stybba af grút,
og löngu dofnað er bitið.
"

"Mannfólkið mestmegnis aðhefst það eitt,
maka út um allt drullu.
Allflestir hrein ekki aðhafast neitt,
sig arðræna áfram á fullu.
"

"Einsemd og armæða herja á mig,
einstakling fjölmargra ljóða.
Eingin samt nennir að ómaka sig,
þó upp á margt hafi' að bjóða.
"

Við Viðarsson Kári áttum ágæta orðræðu í bíl mínum í dag. Eitt af því sem kom inn í umræðuna var sú fullyrðing sums fólks að okkur sé ætlað (sem dýrategund) að dreifa okkar erfðavísum sem víðast. Því sé einkvæni hin argasta ónáttúra og fólk (karlmenn) ætti að ríða sem rófulausir hundar væru út um hvippinn og hvappinn og með eins mörgum og mögulegt sé. Þeir sem halda þessu fram hafa þó nokkuð til síns máls, fjölmargar dýrategundir maka sig með eins mörgum einstaklingum og þær frekast geta. En einnig eru til fjölmörg dæmi um hið gagnstæða, þar sem dýr maka sig til lífstíðar. Reyndar hafa DNA rannsóknir sýnt það að þessi dýr stunda einnig framhjáhald svo þau virðast lifa í sömu tvöfeldninni og maðurinn. Við Kári vorum sammála um það að fólk gæti vel stundað þvílíkan lifnað í sínum kynlífsmálum, ef nokkrum grundvallarreglum væri fylgt. Í fyrsta lagi að vera samkvæmur sjálfum sér, og stunda einvörðungu annan lífsstílinn. Í annan stað að almennum mannlegum siðareglum væri fylgt, s.s. að báðir aðilar væru samþykkir valinu og að það allar forsendur lægju ljósar fyrir. Svo vildi Kári bæta því við að ljóst væri að tilgangurinn væri ekki að eignast börn, því það væri þjóðfélaginu til lítilla þrifa að fjölga stórlega einstæðum mæðrum.

Ég gat vissulega samþykt þetta, en þó fannst mér þetta skjóta aðal röksemdinni undan öllu saman, þeirri að þetta gerðu fjölmörg dýr til að tryggja erfðamengi sínu framrás til næstu kynslóða. Vissulega er þetta svona víða í dýraríkinu, en einn galli er þó á gjöf Njarðar. Tilgangurinn er jú að koma næstu kynslóð á legg með sínum genum. Sem þíðir að tryggja þarf að næst kynslóð komist á legg. Til þess hefur náttúran hannað nokkrar grunnaðferðir. Í fyrsta lagi að hafa vaxtatíma unganna stuttann með það í huga að því fyrr sem ungarnir verða fullvaxta því meiri líkur eru á því að þeir komist á legg. Í annan stað að hafa fjöldan slíkan að nær ómögulegt sé að koma þeim öllum fyrir kattarnef. Þriðja aðferðin er sú að vermda unganna þangað til þeir eru komnir á legg. Þar sem fyrstu tvær aðferðirnar eru ómögulegar fyrir menn þá neyðumst við til að notast við þá þriðju, en það þýðir að sem flestir þurfa að vera á staðnum, því öryggi felst einna helst í fjölda.

Menn geta séð að best sé þá fyrir foreldrana að halda sig saman, og því er erfitt að vera að "dreifa" sér víða, því það tryggir fátt. Nú geta menn svo rökrætt um það hvort sú aðferð sem við mennirnir höfum þróað sé best, við getum náttúrulega alltaf leitað okkur fyrirmynda annarsstaðar, t.d. myndað hópa eins og apar, fílar, hvalir og mörg önnur dýr gera. Eitthvað til að hugsa um.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






föstudagur, nóvember 28, 2003
 
"Einu sinni á Ágúst kvöldi, austur í Þingvallasveit. Gerðist í dulitlu dragi, dulítið sem enginn veit."

Ég var vakinn í dag af móður minni þegar hún hringdi og vildi segja mér brandara. Mér var ekki skemmt og fannst brandarinn hreint ekki fyndinn. Ég sagði henni að hringja síðar, þegar ég væri betur vaknaður, í þeirri bjargföstu trú að ég fengi að sofa óáreittur. Jú mikil ósköp, ég fékk frið í heilan klukkutíma en var þá vakinn með ákaflega mónótónískri útgáfu af Nallanum (hringingin í símanum mínum, fram þjáðir menn í þúsund löndum o.s.frv.). Þar var móðir mín komin aftur og vildi hún nú véla mig til fundar við sig og Gísla mág minn. Í boði voru 12.000 krónur (í ávísun) frá bæjarsjóði Borgarbyggðar (laun vegna leita fyrr í haust) og hugsanlega matur. Þið ykkar þarna úti sem þekkja mig sæmilega, vita það að þetta er það tvennt sem ég fæ síst staðist, peningar og matur. Því var ósköp lítil hætta á öðru en að ég myndi skunda til funda við þau tengdamæðgin.

Örskömmu síðar er ég lagður af stað, úrillur og morkinn, niður í Kringlu, þar sem við höfðum mælt okkur mót, nánar tiltekið fyrir framan útibú Búnaðarbanka Íslands. Hittumst við þar nokkru síðar, en áður hafði ég rekist á Ragnar Finn Sigurðsson ættaðann frá Oddsstöðum í Lundareykjardal, en hann er bróðir Ólafs stórvinar míns. Nú eftir að hafa skipt ávísunni, (og látið 6000 krónur aftur í hendur móður minnar, sem greiðslu upp í skuld) þá héldum við í matsöluhlutann. Þá loks gat ég hlegið að brandaranum sem var upphafleg ástæða uppvakningar móður minnar. En hann fjallaði um máginn Gísla sem ætlaði að fljúga heim til sinna foreldra, norður á Akureyri. Til þess að komast frá íverustað sínum í Kópavogi og út á flugvöll, hafði hann samið við tengdamóður sína um að ferja sig þar á milli. Var það auðsótt mál. En þegar þau komu út á flugvöll og Gísli hyggst skrásetja sig til flugs, þá kemur babb í bátinn. Samkvæmt skrám flugfélagsins hafði Gísli flogið norður í gær, en þá átti hann pantað flug. Þetta líkaði Gísla vitaskuld ekki fyllilega þar sem hann var jú ennþá í Reykjavík. Eftir smá japl, jamm og fuður þá fékk hann bókað annað flug nú í morgunsárið. Þetta þótti mér áfalega fyndið, nú þegar eftirmiðdagsógleðin var af mér runnin, og varð ég svo kátur við að ég félst á að skutla Gísla heim, þegar mat var lokið og einnig að keyra hann í flugið.

En aftur að matnum. Eftir dulitla reikistefnu á Stjörnutorgi, þar sem fólk skiptist á að tjá hlutleysi sitt í vali á matsölustað, var stefnan sett á Serrano's, sem selur fæði að hætti Mexíkana. Þar gæddum við mágarnir okkur á ágætis rétt, sem nefnist á spönsku Burrito. Svo skildu leiðir og móðir mín hélt í áttina að kvosinni þar sem hennar beið fundur (og vonandi matur) á veitingastaðnum Lækjarbrekku. En við Gísli héldum í gagnstæða átt á leið til heimila okkar. Þegar heim var komið þá gerðist heldur lítt, ég gaufaði aðeins í EVE og hélt svo til vinnu.

Ég hafði hugsað mér að skýra frá viðbót þeirri sem ég nefndi í gær, en sökum ótrúlegra hæfileika minna, þá tókst mér ekki að afla leyfis til byrtingar fréttatilkynningar um það mál, en ég heiti því að innan 24ra klukkustunda þá verði ég kominn með nýjustu fréttir í máli þessu.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






fimmtudagur, nóvember 27, 2003
 
"Skotin fljúga skæð á víxl,
skeytin grimm á bloggi.
Dæla menn um daglegt sísl,
sem DV bæð' og Moggi.
"

"Glottir í kampinn glettinn gaur,
gefur hann dampinn góðann.
slettir í stampinn linann saur,
skefur hann glampinn sóðann.
"

"Að kasta knetti þykir sport,
aðrir leikinn dæma.
Spara vil ég spaklegt gort,
og orðu mun mig sæma.
"

Jæja þá hef ég tekið mig til og botnað fyrripart Kveikjaramannsins og má sjá afrakstur þess hér að ofan. Svo er náttúrulega ekki hægt annað en að ljóða solidið á kallinn og er það vísan hér að neðan.

"Einn ég þekki kaldann karl,
Keli sá drengur nefnist.
Yfir bloggi er sem jarl,
og ætíð fyrir hefnist.
"

Ég hef nú svo sem ekki mikið að segja í bili, en þó vil ég láta þess getið að væntanlegt er ný vefbók í hringinn minn. Ekki er þó hægt að láta það uppi ennþá hver þar er á ferðinni, né heldur get ég látið slóðina fylgja þar sem viðkomandi hripill hefur ekki enn gefið formlegt leifi á birtingu. Um leið og það leifi er fengið þá mun ég láta þess hér getið.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






miðvikudagur, nóvember 26, 2003
 
"Ennþá brennur mér í muna, meir en nokkurn skyldi gruna, að þú gafst mér undir fótinn, fyrir sunnan fríkirkjuna, fórum við á stefnumótin."

Ég hef sagt áður frá æði undarlegum handboltaleik, sem fram fór í hinum ýmsu stofum, hingað og þangað um Borgarnes, en þó aðallega í draumi mínum. Mig dreymdi annan slíkan draum aðfaranótt mánudags (sem var reyndar mánudagurinn sjálfur þar sem ég var að snúa sólarhringnum við). Þá var ég að spila handbolta með nokkrum gömlum meisturum, en ég bar ekki kennsl á nokkurn þeirra sem þar voru nema dómaraskelfinn sjálfan, Meistara Viggó Sigurðsson. En fljótlega var ég hættur að spila og farinn að dæma í staðinn. Í alla staða ákaflega undarlegur draumur. Ég veit ekki hvað þessir handboltadraumar eiga að fyrirstilla, en ég tengi þennan þeirri staðreynda að á sunnudaginn var þá fór ég á minn fyrsta handboltaleik. Þar áttust við ÍR 2 og SÁ í utandeildarkeppninni. Ekki get ég sagt að sá leikur hafi verið skemmtilegur, svona frá íþróttalegu sjónarmiði, en nóg var um spaugileg atvik og spaugilega leikmenn, sem margir hverjir voru með vaxtarlag sem hefði hentað betur í nipponska stórmennaglímu heldur en íslensk Hópslagsmál.

Ég hef lengi ætlað mér að skrifa mikinn pistil um jólaundirbúning. Ég er að hugsa um að láta loks verða af því. Þannig er mál með vexti að ég er mikið jólabarn. Hef mjög gaman að jólalögum, jólakökum og í raun flestu jóladóti (einna helst jólaskraut sem ég get lifað án), en á þessu eru mjög skýrar takmarkanir. Allar þessar langanir mínar eru bundnar við tímabilið 1. desember til 6. janúar, eða 37 daga af 365/6 sem fylla hvert venjulegt ár/hlaupár. En til eru þeir sem eru slík jólabörn að þeirra vegna mætti jóla hitt og jóla þetta vera í gangi lungann úr árinu, sbr. jólabærinn sem eitt sinn var á Akureyri og jólabúðin sem starfrækt er/var á Grundarstíg hér í Reykjavík. Mér er svo sem sama þó að fólk vilji vera í jólaskapi allt árið, svo fremi sem það er ekki að skvetta því framan í mig. Mestan part ársins þá er þetta ekki vandamál, það fer tiltölulega lítið fyrir þessum fáu sérvitringum sem treina vilja jólin yfir allt árið, en svo rennur upp október og þá fer heldur að síga undan fæti.

Mjög fljótlega upp úr mánaðarmótunum september október, þá byrja fyrstu jólaauglýsingarnar að heyrast og fyrsta jólaskrautið að sjást. Venjulega er þetta þó ekki fyrr en eftir miðjan október, og er það þá iðulega IKEA sem ríður á vaðið og hefur skreytt allt sundur og saman hjá sér, en ég man eftir því að í fyrra sá ég fyrsta jólaskrautið 5. október í heimahúsi. Eitthvað virðast menn hafa dregið úr gleðinni þetta árið, allavega varð ég ekki óþægilega mikið var við jóla eitthvað fyrr en í nóvember. En fátt finnst mér skelfilegra og ömurlegra í öllu þessu jólastússi fyrir desember, en jólalög í síbylju. Ég hélt ég yrði ekki eldri þegar ég fyrir tilviljun lenti inn á "Jólastöðinni" í október!!! Ég get nú ekki sagt annað en að ég vona að þeir menn sem fundu upp á þeirri vitleysu kafni í eigin græðgi. Samt er það nú svo merkilegt að ástæðan fyrir því að jólin eru sífelt að færast framar í dagatalinu (þ.e.a.s. undirbúningurinn) er sú að kaupmenn þora ekki öðru svo þeir missi ekki jólaverslun. En drjúgur meirihluti neitenda segist ekki þola þetta jóladót í október og nóvember, hvernig stendur á því að þetta er svona? Annað hvort eru kaupmenn búnir að missa tilfinninguna fyrir vilja kúnnans eða þá að hinn venjulegi íslendingur býr yfir umtalsverði tvöfeldni hvað þetta mál varðar. Ég viðurkenni að hjá sjálfum mér gætir dulítillar tvöfeldni í þessu máli. Því að ein er sú jólavara sem ég sé ekkert athugavert við að komi á markaðinn sem fyrst, og helst að hún væri á honum allt árið. Þetta er Malt Jólabjórinn frá Ölgerðinni. Ég fæ vatn í munninn við tilhugsunina.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






þriðjudagur, nóvember 25, 2003
 
"Haltu kjafti, snúðu skapti, peninganna ellegar ég slæ þig í rot. Upp með hendur, niður með brækur, aurinn eins og skooooot." Jæja þrekprófið gekk nú ekki alveg sem skildi. Í það minnsta gekk mér ekki alveg sem skildi. Ekkert við því að gera annað en að skekja skvapið betur og meir og koma sér í almennilegt form og það hið snarasta. Íslendingar virðast enn vera við sama heygarðshornið kvartandi og kveinandi undan öllum andskotanum, en gera svo bara sem allra minnst til að bæta ástandið. Nú síðast rak ég augun í umræðuveð hlað.is, en þar tuða byssukarlar um allt það sem þeim finnst skemmtilegast. Eitthvað virtist rjúpnaveiðibannið fara í taugarnar á þeim og hin fína Framsóknarfrú Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra. Þar er sama sagan, skít ausið í allar áttir en fátt komið með af gáfulegum athugasemdum. Alveg merkilegur andskoti.

Ég hef svo sem ekki haft mikið fyrir stafni þessa síðustu daga. Hóf næturvaktarviku á mánudagskveld og er aftur kominn á vaktina í kveld. Á sunnudagskveld þá tókum við félagarnir í spil, Riskuðum upp á gamlamóðinn. Þar vorum við meistararnir, Jóhann Skallapoppari, Rauðmennið, Valdi og Andri Bergsveinn Þorsteinsson, Ísfirska undrabarnið. Við náðum tveim spilum og sigraði ég annað með því að leggja Jóa í valinn og murka úr honum líftóruna. Því seinna lauk með stórmeistara jafntefli milli allra spilara, nema Jóa sem eins og svo oft áður hafði verið líflátinn.

Mikil gleði í alla staði. Kveikjaramaðurinn hefu sent frá sér fyrriparta og skorar á okkur Ragnar að botna. Raggi hefur þegar lokið sínum botnum, en ég hef ekki verið í vísnaskapi undanfarið og læt þeta því enn um sinn liggja á hakanum.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






 
"Svarti Pétur ruddist inn í bankann, með byssuhólk í hvorri hönd. Heimtaði með þjósti peninganna og bankastjórann hnepti í böööönd." Það er alveg grjótmögnuð staðreynd að á íslandi skuli snjóa. Það kemur íslendingum allavega alltaf jafn mikið í opna skjöldu þegar á jörðu sest snjór. Svo mikið í opna skjöldu að um leið og smá ísing birtist eða eitt, tvö snjókorn birtast, þá allt í einu fyllast allar umferðareyjar, götuaxlir og aðrir slíkir staðir (sem venjulega eru ekki hugsaðir sem bílastæði) af illa búnum bílskrjóðum sem eru í eigu ógáfulegra íslendinga. Ef menn ætla sér ekki að búa bíl sinn til vetraraksturs (sem nb. er varla hægt að tala um ætli menn sér bara að keyra í Reykjavík) þá er lágmark að menn kunni með skrjóðinn að fara. Við sem erum alin upp úti á landi virðumst kunna betur með bíla að fara þegar "veturinn" gengur "óvænt" í garð á hverju ári. Þetta er ekki sagt sem venjulegt sveitamannagrobb (sem ég á nóg til af) heldur eru þetta niðurstöður nokkura ára rannsókna af minni hálfu.

Ég læt þetta gott heita í bili, má ekkert vera að þessu þar sem ég er að verða of seinn í þrekpróf...

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






laugardagur, nóvember 22, 2003
 
"Mölkúlur og ryðvörn er það sem koma skal. Innleggið á himnum, hvað varðar þig um það" en svo segir í söng Spilverks Þjóðanna um Sirkusmeistarann Geira Smart. Dagurinn í dag hefur farið með ágætum og er rétt að kveðja hann með dulitlum pistli.

Hann byrjaði, þessi laugardagur, full snemma við að ég vaknaði upp af snar undarlegum draumi. Í þeim draum var ég að dæma evrópuleik í handknattleik (skipulögðum hópslagsmálum) en sá leikur fór fram í stofu sem átti uppruna sinn að rekja til nokkurra stofa sem ég hef séð í gegnum æfina. Gat ég borið þar kennsl á stofuna hjá (lang)Ömmu Stínu og (lang)Afa Andrési í Sjávarborg (mig minnir endilega að húsið beri þetta nafn), eitthvað var líka ættað úr stofu Ingibjargar Þorsteinsdóttur (en hún mun vera amma þeirra Viðarssona) svo og úr stofum þeirra mæðgna, ömmu og mömmu. Heldur gekk mér þessi dómgæsla illa en þó kláraðist leikurinn án þess að teljandi afhroð hlytist af og tel ég að, meira að segja dómaraskaðvaldurinn, Viggó Sigurðsson myndi hafa gengið sáttur af velli.

Restin af deginum fór að mestu leiti í EVE, ef frá eru taldir um tveir klukkutímar sem fóru í að horfa á úrslitaleikinn í Hópbílabikarnum í Körfuknattleik (deildarbikarinn), þar sem mættust Keflavík og Njarðvík. Fór sá leikur svo að Njarðvíkingar unnu með nokkura stiga mun, eftir æsispennandi lokamínútur.

Ég hef fátt annað til máls að færa svo ég held að þessu ljúki hér með.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






föstudagur, nóvember 21, 2003
 
"Ég þori ekki við stelpur meir, um stelpurnar að þrátta. Þær eru tælandi á aldrinum frá tólf og niðrí átta" segir í texta Meistarans um Litla sæta stráka, sem er líklega einn umdeildasti (svo vægt sé til orða tekið) dægurlagatexti sem saminn hefur verið á voru ástkær ylhýra. En ég nefni hann einvörðungu hér vegna þess að einn undarlegasti maður sem ég hefi kynnst (en hann hefur verið nefndur Bjössi Farenheit, Júníorinn, Tölvunördinn en ég er að hugsa um að nefna greyið Bjössa Búálf) var að söngla þetta fyrir munni sér í vinnunni í gær.

Sko, ég verð nú eiginlega að biðja hæstvirta (lítilsvirta, vanvirta og yfir höfuð hreint ekki virta viðlits) lesendur mína afsökunar á framlengdu letikasti mínu. Ég hef fátt mér til málsbóta og ætla því bara að sleppa öllum vælum og skælum og halda bara áfram þar sem frá var horfið.

Mánudagar eru gjarnan til mæðu, en minn fór tiltölulega friðsamlega fram og er fátt af honum að frétta annað en það að ég stundaði yfirvinnu í litla 12 tíma og þá um kveldið dæmdi ég einn körfuknattleik á milli Drengjaliða Hauka og Keflavíkur. Hann fór í flesta staði ágætlega fram og mér til töluverðrar gleði þá rakst ég á eina af mínum gömlu hetjum, nefnilega Henning "Sunnudagsmogga" Henningsson en hann er þjálfari drengjaliðs Haukanna.

Þriðjudagurinn fór einnig rólega af stað, æstist aðeins um miðaftan (þegar ég fór í vísiteringu til yfirmannsins) en þó er var orð á því gerandi, enda ég (og yfirmaðurinn) dagfarsprúðir og rólegir með eindæmum. En aðrir hlutar dagsins fóru í leikmennsku í EVE.

Miðvikudagur var að öllu leiti helgaður EVU og því er ekkert meir um hann að segja.

Fimmtudagur fór í vinnu og Evu.

Þá er komið að deginum í dag en hann hefur verið alveg ágætur hingað til. Hann hófst á símtali frá mútter þar sem hún var að breima fyrir nærveru minni um helgina en það var dregið verulega í efa af minni hálfu. Svo fór ég á fætur, snæddi og stemmdi niður í bæ til að færa Mammoni smá fórnir. Ég verslaði 6 myndaramma (fyrir mútter nb.), síðar nærbrækur (með langermabol í stíl), Varmakrús (til að brúka í vinnunni) og síðast en ekki síst, Egils Jólamaltbjór, sem er besti mjöður sem bruggaður hefur verið á þessari jörð (og sem ég hef smakkað nb.). Í framhaldi af þessu ætlaði ég að fara út í miklar yfirdrullanir (ala Mr. Jules) en ég held ég geymi þann pistil þar til síðar.

Að öðru leiti þá er ég nokkuð góður og lík pistli mínum á tveim ferskeytlum. Sú fyrri er eftir vin minn Risann og sú síðari er svar mitt til hans.

"Vísnaandinn er með oss,
áfram skal nú haldið.
Vendi nú mitt kvæði í kross,
Konni hefur valdið.
"

"Vald mitt hef ég vinur minn,
vel með farið ávalt.
Finnst mér best sú brúkunin,
að beina niður skáhalt.
"

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






sunnudagur, nóvember 16, 2003
 
"Össur var yntur í blaði,
er framsókn uppfullt af taði?
Það hvað hann ei,
en taldi' að þau grey,
fráleitt í vitinu vaði.
"

Össur Skarphéðinsson er stundum helv... orðheppinn. Hann var spurður að því í Fréttablaðinu í dag hvort hnum væri illa við Framsóknarmenn. Hann neitaði því, sagði að þeir væru margir alveg ágætir en það þyrfti að hafa vit fyrir þeim, þeir gætu það engann veginn sjálfir.

Minn elskulegi vinur Rauður er ógurlegur Framsóknarmaður og eit það mesta karlrembusvín sem gengið hefur á þessari jörð. Því varð ég mjög ánægður þegar ég komst yfir þessa mynd af honum. Það er stundum ógurlegur kjaftur á honum Guðna litla og fáir fá eins slæma útreið og hommar, þegar kallinn kemst í stuð. En eftir að hafa séð þetta þá hef ég styrkst enn frekar í þeirri skoðun minni að þetta sé allt tóm munnræpa og að ekki sé nokkur alvara þarna að baki.

Ragnar svara vísu minni í pistli sínum í dag og gerir það bara nokkuð vel.

"Vísu kastar vinur minn,
virðist ofsa flinkur.
Hann virkar vel í þetta sinn,
þessi vísna linkur.
"

Ég fékk póst frá góðum vini mínum um daginn. Sá póstur var merktur sem dulítill jólaglaðningur, ég get ekki sagt annað en að mín jólagleði verður ekki söm á eftir, en þetta var glaðningurinn:

"Ég þekkti kall sem hélt ‘ann væri kelling
og konu sem hélt að hún væri gyðja.
Þau voru bæði send út að kaupa helling
af pillum til að bryðja.

Einn strákur hélt að litli bróðir væri hommi
svo hann fór með hann út og skaut’ ann
Á eftir kom svo pabbi þeirra,
tók um hálsin á þeim litla, og braut’ann.

Einn fann fimm ára stelpu og fannst hún hott
fór með hana heim til að vera henni góður
og svo eftir að hafa fengið sitt besta tott,
hann skar hana á háls og henti í næsta rjóður.

Svo var sá er vantaði hjálp og fór að finna prest
fékk að krjúpa við altarið.
Fékk svo að vita að þú nálgast guð þinn best
ef þú færð hann inn um rassgatið.
"

Það eru komnir tveir nýjir aðilar í tenglasafn mitt. Mr. Jules er maður góður en vill meina það að hann hafi yfir að ráða bitrasta bloggi í heimi. Veit ekki um það, en fáir standa honum á sporði í yfirdrulli og það getur verið hrein unun á að hlíða.

Hallgrímur Brynjúlfsson er körfuknattleiksmaður af suðurlandi og sjaldan hef ég lesið eins mikla steypu eins og hugrenningar hans. Hann er sá maður sem næst hefur komist Skallanum í bulli.

Annars hefur dagurinn gengið ágætlega hjá mér, rólegheit í vinnunni og svona, bara gott. En að lokum þá er rétt að ljóða á Risann.

"Vísum varpa ótt og títt,
verulega góðum.
Úr þeim verður oft mjög lítt,
uppfullar af ljóðum.
"

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






laugardagur, nóvember 15, 2003
 
"Ég limru er lengi að semja,
það listform er erfitt að hemja;
það líkist því mest,
að leggja við hest,
sem láðst hefur alveg að temja.
"

Ólína Þorvarðar hefur eftir Friðriki Steingríms.

"Ólína með orðasveim,
andann þarf að hemja.
Hún er eflaust ein af þeim,
sem ekki er hægt að temja.
"

Sr. Hjálmar Árnason. "Æ, þetta bara datt út."

"Um það get ég ekkert sagt,
sem á er minnst að framan.
Við Ólínu hef aldrei lagt,
þó eflaust sé það gaman.
"

Friðrik Steingrímsson

Ég skemmti mér gjarnan við það, á morgnanna hér í vinnunni, að lesa Morgunblaðið. Á því varð lítil breyting nú í morgun. En í blaði dagsins rakst ég á lítinn vísnaþátt, sem fátt fylgdi af útskýringum. En þó tókst mér að ráða þar í að fyrsta vísan (af þeim sem hér fyrir ofan má sjá) væri ort af Friðriki Steingrímssyni sem svar til Ólínu Þorvarðardóttur (rektor Menntaskólans á Ísafirði) þegar hún spurði hann (ég geri ráð fyrir að um hagyrðingakvöld hafi verið að ræða) hvort erfiðara væri að yrkja limru eða stöku.

Þarna var líka staddur Sr. Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur og eftir að hafa hlýtt á limru Friðriks þá datt vísa númer 2 út úr Hjálmari. Þetta heyrði títtnefndur Friðrik og sagði sína skoðun í vísu þrjú. Ég gat ekki annað en hlegið dátt að þessu öllu saman, en það fylgdi ekki sögunni hver viðbrögð Ólínu urðu.

Ég hef áður minnst á það hér í bulli mínu að ég brúka útvarp gríðar títt í vinnunni. Á því hefur enginn breyting orðið en þó er orðið erfiðar um að eiga undanfarna viku. Ekki stafa þeir erfiðleikar af tækni eða neinu slíku, heldur eru jólalög sem eru að angra mig. Ekki er svo að skilja að ég hafi nokkurn hlut á móti jólunum, þvert á móti er ég gríðarlegt jólabarn, eins og það heitir. En ég einskorða mitt jólaskap við Desembermánuð og þoli ég illa þegar fólk er að draga jólin mikið útfyrir endimörk hans. Rétt er að benda á að íslensk jól eru til 6. janúar svo ég miða við þann dag janúarmeginn. En svo ég víki nú aftur að útvarpinu, þá eru það fyrrnefnd jólalög sem eru tekin að óma á hinum ýmsu útvarpsstöðvum í tíma og ótíma sem eru að valda mér ama. Ég verð nefnilega alveg hreint snar vitlaus þegar ég lendi inn á jólalagi (útvarpið mitt er með sjálfvirkum skanna svo ég verð að fara í gegnum nokkrar stöðvar áður en ég lendi á þeirri réttu (sem yfirleitt er Rás 2 á FM 99,5) sem nb. byrjar ekki að spila jólalög fyrr en í desember!) og ef ekki er kominn Desember þá fer allt mitt tilvonandi jólaskap út í veður og vind.

Risinn hefur botnað fyrripartin sem ég sendi honum í gær. Ekki fæ ég annað séð en að frá því hafi hann komist ágætlega, en í heild sinni lýtur vísan þá svona út:

"Ég mætan kenni manninn einn,
magnaður er karlinn sá.
Hann þykir bæði hreinn og beinn,
og býsna sætur að sjá.
"

Þessum leik er ekki hægt að halda áfram nema fleiri fyrripartar líti dagsins ljós og Ragnar bregst ekki skildu sinni.

"Ánægður um grænar grundir,
graður stikar drengur.
"

Og þá má mitt eigi eftir liggja svo ég botna:

"Vildi' 'ann getað sætar sprundir,
sorðið doltið lengur.
"

En nú hyggst ég breyta þessu leik vorum nokkuð og ljóða heilli stöku á vin minn Ragnar og beiði hann svara á sama máta.

"Komdu nú að kveðast á,
kappinn ef þú getur.
Eigi hlýtur sigur sá,
sem færir ei í letur.
"

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






föstudagur, nóvember 14, 2003
 
"Þú knáan kappa þekkir,
Konráð Jóhann heitir..
Alla snilld hans svekkir,
sára öfund veitir.
"

Eitthvað eru menn að agnúast út í botn minn til Ragnars. Ég bendi öfundarmönnum á ofanritaðar staðreyndir. Annars skrapp ég í skottúr til mútter í gærkveld. Þegar þangað var komið biðu mín girnilegar lambakótilettur ala Mamma. En þær eru þeirri gáfu gæddar að vera betri en hollt getur talist. Ég er eigi svo mikil matreiðslusnilli að ég geti greint hvað það er sem gerir þær svona góðar, en ég myndi veðja á Paxo raspið. En hvar sem galdurinn liggur þá er fátt sem ekki bragðast eins og Ambrosia (Grískar Guðaveigar) þegar grænar ORA baunir eru bornar fram með. Það liggur við að ég þurfi að hætta núna, svo erfiðlega gengur mér að hemja munnvatsframleiðsluna. Að launum fyrir matinn átti ég að koma einhvurju lagi á nýlegt símtæki Herragarðsins. Einhverju skikki tókst mér að koma á það blessaða apparat, en samt ekki nógu og því mun það vera núna í yfirhalningu hjá viðgerðartöppunum í Nýherja.

"Ég mætan kenni manninn einn,
magnaður er karlinn sá.
"

Jæja ég hef fátt annað að segja í bili, en vil þó að lokum slengja þessum fyrripart í þá sem hug hafa á því að botna (og þá sérstaklega Ragnar Risavaxna) og kveð ukkur að sinni.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






fimmtudagur, nóvember 13, 2003
 
"Konráð fer með fyrri parta,
en fer þó oft með fleipur.
Ekki mun hann kunna' að kvarta,
í kvæðamennsku' er sleipur.
"

Þar hefurðu það mister Risi eitt stykki botn fyrir þig, NÆSTI! Nei ég segji nú bara svona í gamni (eins og Biffi við Írisi Sigurðar í FVA forðum). Þessi pistill verður í styttra lagi sökum gríðarlegs tíðindaskorts og sökum anna hjá mér, en ég legg af stað í vísiteringu að herragarðinum innan stundar.

Fregnaði það reyndar nú áðan að Viðarsson, Kári hyggst meðfarast og það þýðir væntanlega að ég þurfi að taka vænanan vinkil hinumeginn við gatið og beygja upp á skaga. En annars hyggst ég gerast símsmiður fyrir hana móður mína í nesinu Borga.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






miðvikudagur, nóvember 12, 2003
 
"Upp í hálsin æla óð,
út hún vildi snarleg.
Ekki er til nokkurs góð,
eður heldur lagleg.
"

Spurning um að hefja nýjan sið og semja sjálfur upphafslínur hvers pistils. Það ætti í það minnsta að halda skáldinu við í mér. Annars er ég með eindæmum illa fyrir kallaður. Stafar það aðallega af tvenni. Í fyrra (og minna) lagi þá þjáist ég af fótþreytu (sem reyndar er afleyðing hins seinna líka) og hinns vegar þjáist ég af ógurlegum magaverk. Fótþreytuna leiðir af magaverknum vegna þess að ég gekk um gólf (eður heldur gangstétt) í dágóðan tíma í ægilegri angist. En sá sem olli öllum þessum þjáningum var ógurlegur starfsmaður Ístaks sem herjaði á vinnustaðinn minn með efnavopnum. Þau voru heldur óhefðbundin, því aðallega stóðu þau saman af pennsli og fötu. Reyndar er hvorki pensill né fata svo ógurlega hættulegt sitt í hvoru lagi, né þó saman séu sett. En þegar við þessa blöndu bætist olíugrunnur sem er uppfullur af heilsuspillandi leysiefnum, þá erum við komin með ógurlegt efnavopn. S.s. þessi ágæti Ístaksmaður kom vopnaður þessum ófögnuði og málaði fátt og lítið en skildi eftir sig þvílíka endemis skítafýlu, að vinnustaðurinn var sem lamaður.

Ég hef í fortíðinni iðulega fengið ógurlegan höfuðverk þegar slíkan fnyk hefur borið fyrir vit mín. En ég slapp alveg við slíkt í dag. En sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Því í stað þess að herja á höfuð mitt þá réðust efnavopnin til atlögu við iður mín og gerðu þau að einni flækju. Því gekk ég óvenju mikið um gólf og stéttar í dag og er því afar fótafúinn í kveld. Því er ég nú gríðarlega feginn að þrekprófi dómara var frestað um viku, því það var stefnan að láta mig hlaupa það í kveld og er hætt við því að fátt hefði orðið úr árangri þar. Fleiri áætlunum var einnig slegið á frest, því heimsókn til föðurhúsa hafði verið áformað. En ég treysti mér aungvanvegin til þess að keyra eitt né neitt og hélt mér því bara heimavið.

Ég brá mér á körfuknattleiksleik í gærkvöld. Þar áttust við Stúdentar og Skallgrímar. Er skemmst frá því að segja að leikurinn var þrælskemmtilegur og spennandi. Réðust úrslit ekki fyrr en að loknum tveim framleingingum, en þá stóðu leikar 106 gegn 97 fyrir mínum mönnum. Er það helst tíðnda af leik þessum að Stefán kjálkabítur Hávarðarson, bróðir hælabíts, fóstbróðir þorskabíts og erki óvinur bjálkabíts, fór gjörsamlega á kostum og lagði 60 stig til leiksins. En slíkt hefur víst ekki gerst síðan Ívar Dacasta Webster fór stórum gegn Ármenningum fljótlega upp úr 1980. En það afrek fór heldur hljótt, því í liði Ármenninga var leikmaður að nafni Danny Shous og gerði hann sér lítið fyrir og jafnaði stórafrek Wilt Chamberlains og setti 100(já þetta er ekki prent-, skrif- eður ritvilla) stig einn og óstuddur, en það er sem mig minni að hinir leikmenn Ármanns hafi skorað í það heila um 20 stig. Rétt er einnig að nefna Davíð nokkurn Ásgrímsson, en hann hefur hlotið viðurnefnið "Varði" því hann gerði sér lítið fyrir og meinaði FIMM skotum aðgang að körfunni og er hann ekki sentimeter stærri en u.þ.b. 1,90m. Að auki þá þjófstal hann um 4 boltum, ef minnið svíkur ei.

Nú þykir mér sem pistill þessi hafi runnið sinn feril á enda.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






þriðjudagur, nóvember 11, 2003
 
"Mér hefur orðið hált á því,
að hamast við að yrkja.
Gref ég það nú gleymsku í,
og gráar sellur virkja.
"

Hér er mættur botninn, sem ranglega var sagður suður í Borgarfirði í gær, það rétta mun vera að hann hafi verið norður (norðnorð austur ef nákvæmt er frá sagt) í Borgarfirði. En eftir ýtarlega leit og mikil heilabrot þá fannst hann loks og rataði hingað til mín.

Eftir mikla umræðu og vangaveltur þá höfum við Viðarson Kári ákveðið að endurnefna Guðna vin vorn. Hann mun nú eigi verða lengur þekktur sem Grámann, heldur verður viðurnefni hans nú Hinn Rauði. Þessi breyting er tilkomin vegna þess að svo algeng eru gráu hárin orðin í höfði mannsins að hætt er við að menn muni ekki þá tíð er hann hafði dökk brúnt hár, og fatti því ekki djókinn. En nýja viðurnefnið er til komið vegna þeirrar venju Meistara Guðna að aka helst ekki yfir ljósastýrð gatnamót auðruvísi en á hábleiku, og ofter en ekki á eld Rauðu!

Við Rauðmann brugðum okkur í ræktina í gær. Þar var hlaupið og púlað og fleiri lítrum af svita sveiflað út um allt. Lítið gengur mér að komast niður fyrir þröskuld þann er ég kom niður á fyrir sumarfrí. Því enn stend ég í 104.6 kílógrömmum, og er þá miðað við að ég sé eins nakinn og daginn sem ég fæddist (ef frá eru talin örfá líkamshár sem skotið hafa upp kollinum síðan þá). En samt er ástæða til bjartsýni. Sú bjartsýni beinist einna helst að þrekprófi sem mér verður gert að þreyta (ásamt öðrum Körfuknattleiksdómurum þessa lands) nú á fimmtudaginn kemur. Langt er síðan að fætur mínir hafa verið í betra ásigkomulagi og þau gleðitíðindi bárust mér að hlaupið yrði í íþróttahúsi Breiðabliks, Smáranum. En í því húsi er einhvurt það best gólf til hlaupa, sem hugsast getur. Ef rétt er haldið á spilunum þá er ekki ólíklegt að ég verði kominn dulítið ofar í virðingarröðinni innan stéttarinnar.

Í kveld þá leggja mínir menn í Skallagrím land undir löpp og heimsækja Stúdenta í íþróttahúsi Kennaraháskóla Íslands. Þar hyggst ég verða einnig og ætla mér að kvetja þá ötullega. Einnig ætla ég að hvetja lærimeistara minn í dómarfræðum, hann Ella, en hann verður til dómgæslu í kveld.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






mánudagur, nóvember 10, 2003
 
"Mér hefur orðið hált á því, að hamast við að yrkja." Þessum fyrripart varpar móðir mín fram í pistli sínum nýlega. Ég hef í hyggju að reyna að botna hann og mun sá botn eiga að vera kominn þegar pistill þessi er allur.

Ég hef þjáðst af leti og öðrum slíkum kvillum og hef hreinlega ekki nennt að skrifa neitt síðan síðast. En ekki er hægt að segja að margt hafi á daga mína drifið. Ég reyndar brá mér í smá ferðalag, á föstudag, með vinnufélögunum sem endaði á kaffihúsi einu sem ber nafnið Litli ljóti Andarunginn og stendur við lækjarbakkan hér í borg. Þar hesthúsuðu menn nokkrum öl og/eða kafii/kakó og áttu saman ágætis spjall.

Laugardagurinn fór að mestu í leti en þó var dulítið blásið í flautu og eitthvað þvíumlíkt brasað. En sunnudagurinn var heldur fyllri atburða. Hófst hann með því að ég vaknaði upp við vondan draum (bókstaflega) langt fyrir allar aldir (um 08:15) og gat eigi fest svefn meir. Þá tók við smá dund í klukkutíma, einn og hálfan, alveg þangað til ég lagði land undir fjóra lófastóra fleti og ók mér á sjálfrennireið minni, sem leið liggur til nafla alheimsins. Þar bar ég augum lið mitt Skallagrím og sá þá leggja að velli liðsmenn Hattar frá Egilzplatz. Þegar þeim hildarleik var lokið brunaði ég heim á óðalið og hlóð bíl minn dáindis fæði, en þar á meðal voru nýreyktir Sperðlar. Hlakkar ég mikið til að leggja mér þá til munns.

Svo brunaði ég sem leið lá út á nes eitt sem kennt er við Akra. Þar var nýfædd frænka mín skýrð Arndís Inga í fallegri athöfn sem haldin var í sjúkrahúskapellunni þar í bæ.

Botninn er suður í Borgarfirði en ekki hjá mér. Reyni aftur við hann á morgun, höfuðið fúnkerar ekki.

Feira ekki gjört, fundi slitið.






fimmtudagur, nóvember 06, 2003
 
"Yfir kaldan eiðisand, einn um nótt ég sveima, nú er horfið norðurland, nú á ég hvergi heima" Seint koma sumir en koma þó, betra er seint en aldrei o.s.frv. Ég hef verið ákaflega upptekinn það sem af er viku þessari, en þess á milli hef ég verið latur. Á mánudag bar svo við að ég var við aukavinnu (einu sinni sem oftar) en þá fékk ég ákaflega skemmtilegar fréttir. Systir mín kasólétt er það eigi lengur, því rétt rúmlega 09:30 fæddist henni og Sveini lítil stúlka. Vóg hún 18 merkur (4,5 kg) og mældist 54 cm á lengd (ég þykist góður að muna þetta, man ekki mín eigin fæðingarmál). Ég komst nú ekki þann daginn í vísiteringu, en eftir að hafa lokið ýmsum erindum, sem m.a. innihélt kaup á sængurgjöf í Barnafataversluninni Adam's í Smáralind, þá brunaði ég upp á Skaga (ég skeyti ekki Skíta hér fyrir framan þar sem ég vil ekki horfa upp á Kára gera sig að meira fífli með því að kenna sig við nesið það í tíma og ótíma) og vísiteraði mæðgurnar. Sú stutta var ákaflega fríð sýnum, eins og hún á kyn til, og virtist mér sem að, í það minnsta, matarlistin væri úr móðurætinni en þar er hefð fyrir miklu magamáli og góðri nýtingu þess.

Í gær vann ég dulítið meir, þó ekki á mínum fasta stað, því ég brá mér í annan hluta höfuðborgarsvæðisins og stundaði þar mína vinnu. En restin af deginum fór að mestu í Eve spilun, bókalestur og blund (sem þótti víst æði hávær). Rétt rúmlega sjö þá brugðum við okkur af bæ, bræðurnir á Tunguveginum, alla leið vestur í Hlíðar þar sem skötuhjúin Alli og Solla hafa komið sér þægilega fyrir. Þar var okkur boðið í dáyndis lambalæri með tilheyrandi meðlæti og gúmmolaði og ís frá Hebba Gumm (aka. Herbert 'Can't walk away' Guðmundsson) í eftirrétt. Það er lang síðan ég hef verið svona saddur, bara ekki síðan hryggurinn sem móðir mín bauð upp á í lok sperðlagerðar var hesthúsaður. Ég er enn dæsandi, móður og másandi eftir herlegheitin. Síðan heim var komið þá hefur fátt verið gert annað en að hanga í tölvunni og láta matinn sjatna.

Á morgun verður næs dagur, fátt planað nema heimsókn í Iðnskólan og spilamennska með Mr. Jones um kvöldið. Nú skal tekið á því í Axis & Allies.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






sunnudagur, nóvember 02, 2003
 
"Þóttú farir um framandi höf, í fjarlægum deildum jarðar" syngur Meistarinn í laginu um gleymda guðinn. Ég hef hingað til talið mig frekar trúaðan mann, þó ekki í stranglega svo, né heldur hef ég fylgt einhverjum kennisetningum sem ég hef ekki getað samþykt sjálfur. En nú hef ég fundið mér nýja trú og nýjan guð. Ég hef sett á stofn kirkju Heilagrar Skallabullu og hef tekið mér nafnbótina Séra Árelíus "herragarðsjómfrú" Níelsson. Titill sá er ég ber innan kirkju þessarar, sem jafnfram er heiti æðstu stöðu hennar, er ábóti og einkasmörrebrödsjomfru St. Skallabullu.

Ég var að lesa DV frá því á föstudaginn. Þar voru margar áhugaverðar myndir sem mér féllu einstaklega vel í geð. Má þar nefna Hafdísi Huld sem er ákaflega heillandi stúlka, svo var ung snót ofan af Skítaskaga, Eva Eiríksdóttir að nafni, en hana eiga menn víst að þekkja úr Hagkaupsbæklingnum (þeim sama og Íris Árnadóttir og Ragnheiður Guðfinna(sem eitt sinn bar titilinn Ungfrú Ísland, allt þar til hún uppgötvaði að hún var kona eigi einsömul) og aðrar slíkar skvísur sem allir ættu að þekkja). Ég kannaðist nú ekki við hana þaðan en þóttist sjá á henni svip Eiríks Guðmundssonar, stærð- og rafmagnsfræðakennara sem starfar við Fjölbraut þar í bæ. Fleiri huggulegar skvísur prýddu síður DV sl. föstudag. Þar var einhver Hafdís, Grundfirðingur sem tók þá "gáfulegu" ákvörðun að setjast að á skólpstöð Borgfirðinga, Akranesi. Hið huggulegasta fljóð, en Grundfirskar snótir hafa aldrei verið þektar fyrir gáfur en þeim mun heldur fyrir fríðar snoppur og fellur þessi stúlka greinilega vel í þann hóp.

En það sem vakti einna mesta athygli hjá mér í þessu tvídægra gamla blaði, var kynning á keppendum í Miss Kiss 2003. Eftir að hafa rent augum yfir listan þá kom mér helst í hug að þarna hefði verið sett á fót kepni fyrir þau fljóð sem vegna almenns klæðaskorts (á almanna færi, eða nánar tiltekið í Bleiku & Bláu) eru ekki gjaldgengar í hefðbundnar fegurðarsamkeppnir. Mér flaug í hug að þessi keppni gæti verið kölluð Miss Icelandic Slut 2003.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






laugardagur, nóvember 01, 2003
 
"Crazy little thing called love" ég held svei mér þá að sannari orði hafi ekki verið sögð á neinni tungu. Þessi tiltekna setning er tekin úr lagi með eylífðarstuðbandinu Queen. Ég hafði ekki tíma til neinna vefbókarfærslna í gær, enda brá ég mér upp í Borgarnesið til að berja augum einn knattleik og (sem reyndar var aðalástæðan) til að aðstoða við framkvæmd hans. Þar áttust við Þór frá Akureyri og Skallagrímur sem er ákaflega viðeigandi því fyrir réttri viku síðan var Ellert B. Schram í Borgarnesi að minnast fyrsta knattleiks sem fram fór á landinu (þ.e.a.s. fyrsta leiknum sem vitað er um) en þar áttust við Skallagrímur Kveldúlfsson frá Borg og Þórður leysingi frá Granastöðum (en leikurinn fór fram í Sandvík sem er í Granastaðalandi) og lið þeirra.

Reyndar, ef minnið svíkur ekki, þá fór Þórður ekki fyrir andstæðingum Skallagríms (gott ef Egill stýrði þeim ekki) heldur var hann að einvörðungu óbreyttur leikmaður. Leikar fóru svo að lið Skallagríms var að bíða lægri hlut og fór það í skapið á þeim gamla. Hann var orðin svo æstur að hann endaði með að keyra Þórð niður á svellið svo hann beið bana af og hugðist Skallagrímur því næst ráðast á Egil. En þá steig "dómari" leiksins, Þorgerður Brák, í milli og bannaði Skallagrím að deyða Egil (en þá var eitt mannsdráp hámark í leik). Við þetta reiddist karlinn enn meir og beindi allri reiði sinni umsvifalaust að dómaranum. En hún var létt á fætti og rann undan svo karlinn varð að reka flóttan. Sagan endaði svo þannig að hún stakk sér í Brákarsund, sem síðar var nefnt svo, og Skallagrímur lét stórgrýti vaða á eftir henni. Hefur hvorugt komið upp síðan. Það er kannski ekki undarlegt þó leikmönnum Skallagríms renni stundum í skap, og skildu menn þakka fyrir að skapstygðin hefur útvatnast í Borgarnesi síðan þetta var, nóg þykir hún vera núna.

Ég þykist þess nokkuð viss að ekki hafi nokkur dómari (ekki einu sinni sá er nefndur var Hálfviti með stórri fyrirsögn í DV, og er nb. Borgnesingur) fengið slíka meðferð hjá nokkrum leikmanni í hvaða íþrótt sem er hér á landi. Enda kannski ekki nema von, því nú til dags grípa menn ekki til grjótkasts, sem skiljanlegt er þar sem lítið er um grjót á íþróttavöllum og höllum, og hafa því tekið upp á því að brúka mun hentugri vopn, sem er skítur. Skítkast í fjölmiðlum í garð dómara hefur aukist gríðarlega upp á síðkastið. Er skemmst að minnast orða leikmanns og þjálfara KA í DV um knattspyrnudómaran Kristinn Jakobsson og nú síðast upphlaupsins í kringum orð Viggós Sigurðssonar sem þjálfar Haukmenn í Skipulögðum Hópslagsmálum og viðbragða við þeim.

Það er ánægjulegt að sjá að Gribba hefur vaknað til lífsins, ég hélt að Danirnir væru endanlega búnir að drekkja henni. En eins og áður hefur verið minnst á, þá er varhugavert að byrgja lengi svo stór fljót því þá er þeim mun meiri "hætta" á að komi stórflóð. Það er reyndin hjá henni nú, því þvílíkt magn hef ég varla séð í einu, thja nema kannski frá góðvini mínum Jóhanni Skalla "verðandi föður" Waage.

Ég fagna því gríðar að framsóknar frændi/frænka minn/mín hefur ákveðið að byrtast þann þriðja nóvember. En ég hef af augljósum ástæðum miklar mætur á þriðja hvers mánaðar, þó þær séu mestar á þeim í Apríl. Ég hef nefnilega verið að safna í sarpin vitneskju um fólk sem á afmæli 3. Ég hef janúar til maí en eftir það er fátt um fína drætti og er nokkuð víst að þetta litla systkinabarn verður í hávegum haft, þó ekki sé vegna annars en þessa góða afmælisdags (sem vonandi verður. Svo af því að ég veit að e-r á eftir að kommenta á þetta, þá er rétt að ég taki fram að systkinabarn mitt væntanlegt verður að sjálfsögðu haft í gríðarlegum hávegum vegna annara tilfingaríkri ástæðna sem ég er ekki alveg í stuði nú til að telja upp en geng út frá að allir viti hverjar eru í aðalatriðum).

Fleira ekki gjört, fundi slitið.