Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, nóvember 21, 2003
 
"Ég þori ekki við stelpur meir, um stelpurnar að þrátta. Þær eru tælandi á aldrinum frá tólf og niðrí átta" segir í texta Meistarans um Litla sæta stráka, sem er líklega einn umdeildasti (svo vægt sé til orða tekið) dægurlagatexti sem saminn hefur verið á voru ástkær ylhýra. En ég nefni hann einvörðungu hér vegna þess að einn undarlegasti maður sem ég hefi kynnst (en hann hefur verið nefndur Bjössi Farenheit, Júníorinn, Tölvunördinn en ég er að hugsa um að nefna greyið Bjössa Búálf) var að söngla þetta fyrir munni sér í vinnunni í gær.

Sko, ég verð nú eiginlega að biðja hæstvirta (lítilsvirta, vanvirta og yfir höfuð hreint ekki virta viðlits) lesendur mína afsökunar á framlengdu letikasti mínu. Ég hef fátt mér til málsbóta og ætla því bara að sleppa öllum vælum og skælum og halda bara áfram þar sem frá var horfið.

Mánudagar eru gjarnan til mæðu, en minn fór tiltölulega friðsamlega fram og er fátt af honum að frétta annað en það að ég stundaði yfirvinnu í litla 12 tíma og þá um kveldið dæmdi ég einn körfuknattleik á milli Drengjaliða Hauka og Keflavíkur. Hann fór í flesta staði ágætlega fram og mér til töluverðrar gleði þá rakst ég á eina af mínum gömlu hetjum, nefnilega Henning "Sunnudagsmogga" Henningsson en hann er þjálfari drengjaliðs Haukanna.

Þriðjudagurinn fór einnig rólega af stað, æstist aðeins um miðaftan (þegar ég fór í vísiteringu til yfirmannsins) en þó er var orð á því gerandi, enda ég (og yfirmaðurinn) dagfarsprúðir og rólegir með eindæmum. En aðrir hlutar dagsins fóru í leikmennsku í EVE.

Miðvikudagur var að öllu leiti helgaður EVU og því er ekkert meir um hann að segja.

Fimmtudagur fór í vinnu og Evu.

Þá er komið að deginum í dag en hann hefur verið alveg ágætur hingað til. Hann hófst á símtali frá mútter þar sem hún var að breima fyrir nærveru minni um helgina en það var dregið verulega í efa af minni hálfu. Svo fór ég á fætur, snæddi og stemmdi niður í bæ til að færa Mammoni smá fórnir. Ég verslaði 6 myndaramma (fyrir mútter nb.), síðar nærbrækur (með langermabol í stíl), Varmakrús (til að brúka í vinnunni) og síðast en ekki síst, Egils Jólamaltbjór, sem er besti mjöður sem bruggaður hefur verið á þessari jörð (og sem ég hef smakkað nb.). Í framhaldi af þessu ætlaði ég að fara út í miklar yfirdrullanir (ala Mr. Jules) en ég held ég geymi þann pistil þar til síðar.

Að öðru leiti þá er ég nokkuð góður og lík pistli mínum á tveim ferskeytlum. Sú fyrri er eftir vin minn Risann og sú síðari er svar mitt til hans.

"Vísnaandinn er með oss,
áfram skal nú haldið.
Vendi nú mitt kvæði í kross,
Konni hefur valdið.
"

"Vald mitt hef ég vinur minn,
vel með farið ávalt.
Finnst mér best sú brúkunin,
að beina niður skáhalt.
"

Fleira ekki gjört, fundi slitið.