Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, nóvember 15, 2003
 
"Ég limru er lengi að semja,
það listform er erfitt að hemja;
það líkist því mest,
að leggja við hest,
sem láðst hefur alveg að temja.
"

Ólína Þorvarðar hefur eftir Friðriki Steingríms.

"Ólína með orðasveim,
andann þarf að hemja.
Hún er eflaust ein af þeim,
sem ekki er hægt að temja.
"

Sr. Hjálmar Árnason. "Æ, þetta bara datt út."

"Um það get ég ekkert sagt,
sem á er minnst að framan.
Við Ólínu hef aldrei lagt,
þó eflaust sé það gaman.
"

Friðrik Steingrímsson

Ég skemmti mér gjarnan við það, á morgnanna hér í vinnunni, að lesa Morgunblaðið. Á því varð lítil breyting nú í morgun. En í blaði dagsins rakst ég á lítinn vísnaþátt, sem fátt fylgdi af útskýringum. En þó tókst mér að ráða þar í að fyrsta vísan (af þeim sem hér fyrir ofan má sjá) væri ort af Friðriki Steingrímssyni sem svar til Ólínu Þorvarðardóttur (rektor Menntaskólans á Ísafirði) þegar hún spurði hann (ég geri ráð fyrir að um hagyrðingakvöld hafi verið að ræða) hvort erfiðara væri að yrkja limru eða stöku.

Þarna var líka staddur Sr. Hjálmar Jónsson Dómkirkjuprestur og eftir að hafa hlýtt á limru Friðriks þá datt vísa númer 2 út úr Hjálmari. Þetta heyrði títtnefndur Friðrik og sagði sína skoðun í vísu þrjú. Ég gat ekki annað en hlegið dátt að þessu öllu saman, en það fylgdi ekki sögunni hver viðbrögð Ólínu urðu.

Ég hef áður minnst á það hér í bulli mínu að ég brúka útvarp gríðar títt í vinnunni. Á því hefur enginn breyting orðið en þó er orðið erfiðar um að eiga undanfarna viku. Ekki stafa þeir erfiðleikar af tækni eða neinu slíku, heldur eru jólalög sem eru að angra mig. Ekki er svo að skilja að ég hafi nokkurn hlut á móti jólunum, þvert á móti er ég gríðarlegt jólabarn, eins og það heitir. En ég einskorða mitt jólaskap við Desembermánuð og þoli ég illa þegar fólk er að draga jólin mikið útfyrir endimörk hans. Rétt er að benda á að íslensk jól eru til 6. janúar svo ég miða við þann dag janúarmeginn. En svo ég víki nú aftur að útvarpinu, þá eru það fyrrnefnd jólalög sem eru tekin að óma á hinum ýmsu útvarpsstöðvum í tíma og ótíma sem eru að valda mér ama. Ég verð nefnilega alveg hreint snar vitlaus þegar ég lendi inn á jólalagi (útvarpið mitt er með sjálfvirkum skanna svo ég verð að fara í gegnum nokkrar stöðvar áður en ég lendi á þeirri réttu (sem yfirleitt er Rás 2 á FM 99,5) sem nb. byrjar ekki að spila jólalög fyrr en í desember!) og ef ekki er kominn Desember þá fer allt mitt tilvonandi jólaskap út í veður og vind.

Risinn hefur botnað fyrripartin sem ég sendi honum í gær. Ekki fæ ég annað séð en að frá því hafi hann komist ágætlega, en í heild sinni lýtur vísan þá svona út:

"Ég mætan kenni manninn einn,
magnaður er karlinn sá.
Hann þykir bæði hreinn og beinn,
og býsna sætur að sjá.
"

Þessum leik er ekki hægt að halda áfram nema fleiri fyrripartar líti dagsins ljós og Ragnar bregst ekki skildu sinni.

"Ánægður um grænar grundir,
graður stikar drengur.
"

Og þá má mitt eigi eftir liggja svo ég botna:

"Vildi' 'ann getað sætar sprundir,
sorðið doltið lengur.
"

En nú hyggst ég breyta þessu leik vorum nokkuð og ljóða heilli stöku á vin minn Ragnar og beiði hann svara á sama máta.

"Komdu nú að kveðast á,
kappinn ef þú getur.
Eigi hlýtur sigur sá,
sem færir ei í letur.
"

Fleira ekki gjört, fundi slitið.