Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, nóvember 12, 2003
 
"Upp í hálsin æla óð,
út hún vildi snarleg.
Ekki er til nokkurs góð,
eður heldur lagleg.
"

Spurning um að hefja nýjan sið og semja sjálfur upphafslínur hvers pistils. Það ætti í það minnsta að halda skáldinu við í mér. Annars er ég með eindæmum illa fyrir kallaður. Stafar það aðallega af tvenni. Í fyrra (og minna) lagi þá þjáist ég af fótþreytu (sem reyndar er afleyðing hins seinna líka) og hinns vegar þjáist ég af ógurlegum magaverk. Fótþreytuna leiðir af magaverknum vegna þess að ég gekk um gólf (eður heldur gangstétt) í dágóðan tíma í ægilegri angist. En sá sem olli öllum þessum þjáningum var ógurlegur starfsmaður Ístaks sem herjaði á vinnustaðinn minn með efnavopnum. Þau voru heldur óhefðbundin, því aðallega stóðu þau saman af pennsli og fötu. Reyndar er hvorki pensill né fata svo ógurlega hættulegt sitt í hvoru lagi, né þó saman séu sett. En þegar við þessa blöndu bætist olíugrunnur sem er uppfullur af heilsuspillandi leysiefnum, þá erum við komin með ógurlegt efnavopn. S.s. þessi ágæti Ístaksmaður kom vopnaður þessum ófögnuði og málaði fátt og lítið en skildi eftir sig þvílíka endemis skítafýlu, að vinnustaðurinn var sem lamaður.

Ég hef í fortíðinni iðulega fengið ógurlegan höfuðverk þegar slíkan fnyk hefur borið fyrir vit mín. En ég slapp alveg við slíkt í dag. En sjaldan fellur eplið langt frá eikinni. Því í stað þess að herja á höfuð mitt þá réðust efnavopnin til atlögu við iður mín og gerðu þau að einni flækju. Því gekk ég óvenju mikið um gólf og stéttar í dag og er því afar fótafúinn í kveld. Því er ég nú gríðarlega feginn að þrekprófi dómara var frestað um viku, því það var stefnan að láta mig hlaupa það í kveld og er hætt við því að fátt hefði orðið úr árangri þar. Fleiri áætlunum var einnig slegið á frest, því heimsókn til föðurhúsa hafði verið áformað. En ég treysti mér aungvanvegin til þess að keyra eitt né neitt og hélt mér því bara heimavið.

Ég brá mér á körfuknattleiksleik í gærkvöld. Þar áttust við Stúdentar og Skallgrímar. Er skemmst frá því að segja að leikurinn var þrælskemmtilegur og spennandi. Réðust úrslit ekki fyrr en að loknum tveim framleingingum, en þá stóðu leikar 106 gegn 97 fyrir mínum mönnum. Er það helst tíðnda af leik þessum að Stefán kjálkabítur Hávarðarson, bróðir hælabíts, fóstbróðir þorskabíts og erki óvinur bjálkabíts, fór gjörsamlega á kostum og lagði 60 stig til leiksins. En slíkt hefur víst ekki gerst síðan Ívar Dacasta Webster fór stórum gegn Ármenningum fljótlega upp úr 1980. En það afrek fór heldur hljótt, því í liði Ármenninga var leikmaður að nafni Danny Shous og gerði hann sér lítið fyrir og jafnaði stórafrek Wilt Chamberlains og setti 100(já þetta er ekki prent-, skrif- eður ritvilla) stig einn og óstuddur, en það er sem mig minni að hinir leikmenn Ármanns hafi skorað í það heila um 20 stig. Rétt er einnig að nefna Davíð nokkurn Ásgrímsson, en hann hefur hlotið viðurnefnið "Varði" því hann gerði sér lítið fyrir og meinaði FIMM skotum aðgang að körfunni og er hann ekki sentimeter stærri en u.þ.b. 1,90m. Að auki þá þjófstal hann um 4 boltum, ef minnið svíkur ei.

Nú þykir mér sem pistill þessi hafi runnið sinn feril á enda.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.