Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, nóvember 07, 2006
 
"...ég sagði; vilt' ekki byrja með mér?..."

Ég vil helst ekki hallmæla neinum, var betur alinn upp en svo, en Amerískt slúðursjónvarp er hlutur sem ég get ekki með nokkru móti haft nokkrar jákvæðar hneigðir til. Á Sirkus eru einhverjir (einn eða fleiri) slíkir þættir, þ.á.m. einn sem heitir "The Insider" og hafa þeir víst verið að fjalla um, í ótrúlega miklum og nánum smáatriðum án þess þó að segja nokkuð (eins og Amerískra er siður), Önnu Nicole Smith. Ég geri bara ráð fyrir því að flestir viti hvur konan er. Hún hefur lent í ýmsu um æfina, blessuð stúlkan, er t.d. nýbúin að missa son sinn. Allavega þessi þáttur hefur verið að velta sér uppúr hennar málum í á annan mánuð. Ég veit þetta því ég hef slystast til að hafa sjónvarpið stilt á Sirkus endrum og eins og hef þá æfinlega rambað á Innanbúðarmanninn.

Allavega Anna hefur verið tíður gestur í þættinum, án þess þó að hafa talað þar við nokkurn mann, en nú í kvöld þá voru þeir að auglýsa þátt morgundagsins. Og viti menn þar verður loksins Anna sjálf að ræða um allan skítinn sem þeir eru búinir að vera að grafa upp um hana. Ég veit að fólk sem þjáist af "Hollywood heilkenninu" eru með sýniþörf á mjög óeðlilegu stigi en myndi maður láta sér detta það í hug að fara í viðtal hjá þætti sem búinn er að maka mann aur? Ég held ekki. Svo er Önnu greyinu enginn greiði gerður með því að láta hana koma fram opinberlega, stúlkan er í þvílíkri dópneyslu (skv. þættinum og ef marka má útlit hennar þá eru þeir að hitta naglann á höfuðið með þá sögu) að hún er óskýrmæltari en Megas!

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






sunnudagur, nóvember 05, 2006
 
"...fyrir hugskotsjónum rúlluðu allar gullnu plöturnar..."

Ég er einn af þeim mönnum sem fæ þúsundir nýrra hugmynda á degi hverjum. Margar eru góðar, sumar jafnvel frábærar og enn aðrar ekki nokkurs virði. Mjög margar þeirra hafa með texta að gera, texta sem gæti vel átt heima á þessari síðu, nú eða sem einhver hluti af sögu. Hinnsvegar þá ratar ekki nema brotabrot af þessum hugmyndum mínum í fast form. Flestar flögra á braut á sömu iðnum vængjum og sama hraða og þær flögruðu inn í höfuðið á mér. Mér þykir það mjög miður því ég veit ekki hversu mörg ódauðleg verk ég hef samið í höfðinu sem síðan hafa gufað upp og orðið að aungvu. Ég tel mig þó vita hvað ég þarf að gera til að bæta ástandið. Að skrifa niður hugmyndirnar er ágætis byrjun en fyrst og fremst þá þarf minn svírasveri afturendi að sitja oftar við tölvuskríflið í þeim tilgangi að rita.

Ég er að vonast til þess að geta farið að dæma í lok mánaðarins. Fór í ræktina í dag og gekk svona líka glymrandi vel og fann ekki nokkurn verk. Fylltist óhemju bjartsýni og íhugaði að hringja strax í dómaranefnd og melda mig til starfa. Lét það þó ógert. Hyggst býða næsta fundar við þokkafullan sjúkraþjálfara og huga að því hvað hún segir um hvort ég er tilbúinn eður ei. Fæ að njóta samvista við hana á fimmtudaginn.

Ég var í Finnlandi í sumar að víster slóðir þær er Hrönn, mín ágæta vinstúlka, bjó á þá við fyrst kynntumst. Ég dvaldi þar í rúma viku í góðu yfirlæti á heimili ástmögurs hennar Johnny (lesist Jonni) og naut hinnar rómuðu Finnsku gestristni og leiðsagnar Hrannar um svæðið. Launaði fyrir mig að einvherju leiti í kvöld. Bauð þeim skötuhjúm, sem nú búa á Fróni, til snæðings á Austur Indíafjelaginu. Maturinn var mjög góður, en full bragðsterkur, svo eigi sé fastar að orði kveðið. Jógúrtdrykkurinn og ísinn voru þó að gera magnað mót. Ég stend nú (þó ég sitji) á svo ógurlegu blýstri að ég verð í margar vikur að ná mér af snæðingnum.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






mánudagur, október 30, 2006
 
"Útaf með dómarann, inná með konuna hans"

Í kvöld á sér stað merkilegur atburður. Þá dæmir kona í fyrsta sinn leik í efstu deild í körfuknattleik á Íslandi. Ég veit reyndar ekki til þess að kona hafi dæmt leik í efstu deild í nokkurri hópíþrótt á Íslandi, en það þýðir samt ekki að það hafi ekki gerst. Af hverju er þetta merkilegt? Nú verður hver að svara fyrir sig, en mér finnst þetta merkilegt fyrir nokkurra hluta sakir. Enn er verið að "brjóta" niður gömul vígi, sem þó hafa ekki verið lokuð konum á nokkurn hátt í mörg ár, heldur miklu heldur hefur verið kepst við að fá þær til að starfa sem dómarar, allavega í körfunni. Kemur þá að punktinum sem mér finnst merkilegastur, sem er sá að til sé kona sem fáist í dómgæslu og að hún hafi þann metnað og þá ákveðni sem til þarf til að koma sér upp á við í metorðastiganum.

Því hefur nefnilega verið haldið fram að þær týpur sem þarf til að gera góðan dómara finnist ekki meðal kvenna. Ég get ekki verið sammála því og fagna sönnuninni á hinu gagnstæða, en einhverra hluta vegna þá fást konur illa til dómgæslu. Þess ber þó að geta að fjöldi kvennkörfuboltadómara tvöfaldaðist í haust, urðu tveir.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






laugardagur, október 28, 2006
 
"...það er enginn vandi að aka bifreið, bara ef að maður kemur henni í gang..."

Starfs míns vegna (ég er bílstjóri) þá er ég mikið á ferðinni í borg óttans. Ég ek um á 12 tonna kassabíl sem er tæplega 10 metra langur, um 2 og hálfur meter yfirum og vel á 4 metran uppávið. S.s um 90 M3 á hjólum. Mér gengur ágætlega að sigla fleyi þessu um göturnar, svo fremi að ég láti póstnúmer 101 að mestu eiga sig, enda apparatið útbúið á nútímalegan hátt, með fjölmörgum speglum, stórum rúðum og myndavél sem leiðir aftansöngin ómengaðan í þartilgert viðtæki sem prýðilega hefur komið sér fyrir á mælaborðinu.

En þrátt fyrir öll þessi nútíma þægindi og meðfædda hæfileika undirritaðs til stýrimensku, þá uppgötvaði ég fljótlega að mig skorti tilfinnanlega lykil hæfileika. Þann hæfileika hafa ökumenn höfuðborgarsvæðinsins í ómælanlegu magni, í það minnsta þá þeir setjast undir stýrishjólið. Hæfileikinn er eiginlega nafnlaus en er ákveðin blanda ýmissa persónueinkenna. Frekja, tillitsleysi, eiginhagsmunasemi, algert brottnám skynsemi ásamt hreinni og ómengaðri heimsku eru helstu íblöndunarefnin en hlutfall þeirra virðist vera mis mikið í hverjum bílstjóra fyrir sig.

Ég hafði náttúrulega tekið eftir því áður en ég hóf togaraútgerðina að menn sem keyra haga sér á ýmsa lund sem ekki er til eftirbreytni. En fann ekki fyrir því að mig skorti eitthvað af þessu einkennum fyrr en ég fór að aka um á 90 M3 græjunni. Maður þarf nefnilega bæði meira pláss og meiri tíma til að athafna sig og venjulegur meðal fólksbílstjórajón er ekki alveg að fatta það. En svo þar fyrir utan þá virðist almennt sem umferðarómenningn okkar sé að versna, sú litla tillitssemi sem þó var til, virðist vera gjörsamlega gufuð upp og míkróprósentan af annars ágætu gáfnafari okkar almennt, sem meðaljónin notar við akstur virðist hafa lennt í niðurskurðarhnífnum og verið brúkuð í annað. Ef menn vilja fá á þessu sönnur, þá mæli ég með því að menn reyni, á annatíma, að komast úr Lágmúla inn á Háaleitisbraut til austurs.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






föstudagur, október 27, 2006
 
"...beacause it's a bitter sweet symphony..."

Gamall málsháttur segir til um að fólk hafi yfirleitt ekki hugmynd um hvað stendur því næst, fyrr en það (hlutur/persóna) er horfið. Ég get ekki annað en tekið undir þessa visku forfeðranna. Þegar körfuboltavertíðnni lauk nú sl. vor, þá var ég í skýjunum. Mínir menn að spila til úrslita um íslandsbikarinn í fyrsta sinn, ég að dæma í fyrsta sinn á erlendum vetvangi og allt í góðu. En í sumar þá fór eitthvað í gang, sem olli því að ég var mjög lítið spenntur fyrir næstkomandi tímabili. Hygg að þá yfirvofandi hnéspeglun hafi haft eitthvað með það að gera. En eginlega strax í byrjun september, þegar dómarar fóru að tínast út á körfuboltavellina, þá snérist geðsveiflan og ég þráði fátt heitar en að komast af stað. En að búast við því að geta labbað óhaltur, hvað þá hlaupið, einungis tveim vikum eftir hnjáspeglun er í besta falli bjartsýni. Samt hefur mig ekki langað svona mikið í mörg ár!?!

Prófkjör eru "inn" þessi misserin. Kannski ekki skrýtið þar sem allir flokkar eru að hamast við að koma saman listum fyrir alþingiskostningar næsta vor. Ég sé svo sem ekkert að því að kjósendur flokkana komi sem mest að því að skipa fólki á listana, það er jú þetta sama fólk sem kýs flokkinn. En mikið vildi ég óska þess að allir flokkar færu sömu leið og samfylkinginn í kraganum (held ég, kannski víðar), og bönnuðu frambjóðendum að auglýsa í fjölmiðlum. Því ég get sagt það að ef ég þarf að sjá gervibros Björns Bjarnasonar (það er meira að segja verra en lítaraðgerðin sem Halldór Ásgrímsson fór í fyrir tæpum 3 árum), eða smeðjuglottið á Gulla Hero einu sinni enn þá óttast ég að verða "póstlagður" (e. postal). En ég fíla sjómanninn gamla (mynnir að hann heitir Jóhann Pálsson) sem birtir litlar smekklegar "smáauglýsingar" með slagorðinu: "Sjálfstæðismenn, kjósum sjómann á þing" og svo heimilsfangi sitt og tölvupóstfang. Smekklegt, hóvært og ákaflega íslenskt en nær ómögulegt til að skila árangri. Nútíma Bjartur í sumarhúsum.

Uppgötvaði um daginn bók upp í hillu hjá mér. Ég fékk hana í fermingargjöf fyrir 14 árum síðan, næstum 15 ár. (!) Hún heitir "Þjóðskáldin, úrval úr bókmentum 19. aldar" og þar eru helstu skáldverk okkar mestu meistara. Ég fletti í henni og fann þar það ljóð sem hefur líklega haft meiri áhrif á mig en nokkuð annað skáldverk, ljóðið "Gröfin" eftir Kristján Jónsson, fjallaskáld;

Hvar er í heimi hæli tryggt
og hvíld og mæðufró?
Hvar bærist aldrei hjart hryggt?
Hvar heilög drottnar ró?

Það er hin djúpa dauðra gröf
- þar dvínar sörg og stríð -
er sollin lífs fyrir handan höf
er höfn svo trygg og blíð.

Þú kælir heita hjartans glóð
og heiftar slökkur bál,
þú þaggar niður ástaróð
og ekkert þekkir tál.

Þú læknar hjartans svöðusár
og svæfir auga þreytt,
þú þerrir burtu tregatár
og trygga hvíld fær veitt.

Þú griðarstaður mæðumanns,
ók, myrka, þögla gröf,
þú ert hið eina hæli hans
og himins náðargjöf.

Fann þar líka smásögu eftir Þorgils gjallandi sem heitir "Gamalt og nýtt" og ég sver að ég var jafn spenntur að klára hana og hvurja aðra sögu sem ég hef lesið síðustu misserin. Og þessi saga er skrifuð um aldarmótin 1900! Rifjaði líka upp ákaflega skemmtilega tíma sem við Kári og Raggi áttum í Íslensku 323 hjá Kristjáni Kristjánssyni í FVA fyrir ca. 8 árum síðar, þar sem "Upp við Fossa" var eitt af viðfangsefnunum. Ákaflega skemmtileg saga eftir þann sama Þorgils, sem í raun hét Jón Stefánsson og var bóndi í Mývatnssveit.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






mánudagur, apríl 10, 2006
 
"Vem skal segla utan vind..."

Körfubolti er lífið. Úrslitaeinvígi Njarðvíkur og Skallagríms hafið og spennan í algleymingi. Mikilvægasti leikur seríunar fyrir Skallana er í kvöld uppi í nesi, því ég hef litla trú að því að þeir eigi mikin séns ef þeir tapa í kveld.Miklar umræður hafa spunnist um 5. leik Skallagríms og Keflavíkur en ef menn vilja lesa sig til um það þá bendi ég þeim hinum sömu á spjallið á Sportinu. Einnig hafa miklar umræður verið í gangi um stutt bil á milli 5. leiks Kef-Ska og fyrsta leiks Nja-Ska, en merkilegt nokk þá er þetta ekki einsdæmi, hefur gerst einu sinni áður síðan 8 liða úrslitakeppni var tekin upp árið 1995. Ég tók saman smá lista sem má sjá hérna. En nóg um það.

Ég er á leið úr landi, rétt nýskriðinn heim frá Köben, þar sem við Hjalli og Árni skemmtum okkur konunglega um síðustu helgi. Það er aldrei að vita nema ég hendi inn nokkrum myndum hérna við tækifæri. En aftur að næstu ferð. Ég er á leið til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Södertälje sem er einhverskonar Kópavogur þeirra Svía, s.s. rétt utan við Stokkhólm. Þar fer fram svokallað óopinbert norðurlandamót yngriflokka sem kallast Scania Cup. Þangað hafa jafnan farið nokkur íslensk lið og nokkrir íslenskir dómarar. Í ár förum við 5 og vorum svo hepnir að komast að á 3-man clinic, þar sem okkur verður kennt að dæma í þriggja dómara kerfi. Sem er náttúrulega það system sem koma skal, en það er mín skoðun að einhver ár séu í að við getum tekið þetta kerfi upp hér, bæði vegna aukins kostnaðar og fjölda dómara, já eða skorti á þeim öllu heldur.

Við félagarnir ætlum að vera þarna úti í viku, taka okkur 2ja daga "sumarfrí" í Stokkhólmi eftir mótið og njóta þess besta sem höfuðstaður Svíjaveldis hefur upp á að bjóða.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






mánudagur, febrúar 27, 2006
 
"Dómarann í sturtu!"

Í gær náði ég langþráðu markmiði. Ég dæmdi minn fyrsta leik í úrvalsdeildinni í körfu. Ég fékk símtal þar sem ég var spurður hvort ég væri tilbúinn í minn fyrsta úrvalsdeildarleik. Við þeirri spurningu er náttúrlega aðeins eitt svar, en einu rökrænu viðbrögðin eru þau að dansa viltan stríðsdans með tilheyrandi YES! öskrum og viðeigandi hnefakýlingum upp í loftið. Ég framkvæmdi dansinn eftir að hafa svarað spurningunni og lokið símtalinu.

Ég brá undir mig betri fætinum á laugardaginn og skundaði upp á Skaga. Þar vísiteraði ég Herra Sigurð og Frú Berglindi og dvaldi í góðu yfirlæti þeirra. Þar snæddum við ásamt, Kára, Gunni, Ragga, Jóhanni Ásmundi og Önundi hundadagakonungi, dýrindis svínahamborgarahrygg með tilbehörende meðlæti. Var svo setið að spjalli og gleði fram eftir kveldi og jafnvel undir morgun í einhverjum tilfellum. Í alla staði hin prýðilegasta skemtan.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






miðvikudagur, febrúar 22, 2006
 
"Marga góða sögu amma sagði mér"

Í dag fór fram æði merkilegur leikur í körfuknattleik. Þar áttust við lið frá Reykingamönnum og lið þeirra sem ekki reykja. Til að tryggja að allt færi nú friðsamlega fram, þá voru fengnir tveir dómarara. Nú til að tryggja óvillhallni þeirra þá voru fengnir til starfans dómarar háðir munntóbaki, sem báðir þola illa sígarettur. Leikurinn fór rólega af stað en þó tóku reykingamennirnir leikinn fljótlega föstum tökum. Það var rjúkandi stemming í liði þeirra og allt gekk þeim í haginn. Á meðan virtist einstaklingsframtakið ráða ríkjum meðal þeirra reyklausu og lítil sameining inni á vellinum. Í hálfleik leiddu reykingamennirnir með rúmum 20 stigum. En dæmið snérist heldur við þá þriðji leikhluti hófst. Þeir reyklausu höfðu greinilega tekið á sínum málum í hálfleiknum, búnir að finna styrk- og veikleika hvors annars og hvernig gengi best að tvinna saman liðsheild. Reykingamennirnir létu þó ekki sjá á sér neinn bylbug og svöruðu áhlaupi þeirra reyklausu í sama mund. Vendipunktur leiksins var þegar einn reykingamaðurinn sté í mórauðan poll, ættaðann úr munni eins dómarans, og sneri sig illa á ökla. Við það virtist sem allur vindur væri úr þeim reyktu, sem virstust líka vera farnir að þreytast all verulega. Þeir reyklausu héldu áfram eins og enginn væri morgundagurinn og voru búnir að jafna leikinn er þriðji leikhluti leið undir lok. Í fjórða leikhluta var aldrei spurning um hvernig leikar myndu enda. Reykingarmennirnir tíndust einn og einn útaf, ýmist með 5 villur eða vegna súrefnisskorts. Þegar lokaflautið gall stóðu reykleysingjarnir, þreyttir en ánægðir á meðan reykingamennirnir voru allir löngu farnir á lungnadeildina og dómararnir mórauðir í framan með svartar tennur hlupu eins og fætur toguðu í næsta vask.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






sunnudagur, febrúar 19, 2006
 
"...þú gætir jafnvel unnið Eurovision..."

Hvað getur maður sagt um ungfrú Sivlíu Nótt? Skoðanir fólks á henni gætu fyllt hundruði síðna, þéttritaðra með minnsta mögulega línubili. Enda sýndi það sig um helgina. Silvía Nótt er kynnþokkafyllst íslenskra kvenna, að mati hlustenda Rásar 2, (en leikkonan Ágústa Elva sem ljær Silvíu líkama sinn til afnota lennti "aðeins" í 4. sæti) svo verður hún fulltrúi Íslands í Söngvakeppni Evrópska Sjónvarpsstöðva í Grikklandi í vor, enda söng hún klárlega langbesta lagið í keppninni. Það er verið að velja besta lagið, er það ekki? Ég hef ekki ennþá, og býst ekki við að það breytist, séð einn einasta þátt í sjónvarpsþáttaröðinni um ungfrúnna frómu og hlédrægu enda fer þessi stúlka all verulega í taugarnar á mér. En ég hef lúmskt gaman að henni samt, þessi öfgafulla steríótýpiska "celeb wannabe" er nefninlega skemmtilegur satýr á margt íslenskt. Ekki bara á hina fjölmörgu "raunverulegu" "celeb wannabes" sem keppast við að prýða forsíður hinna íslensku slúðurblaða, heldur ekki síður á engu minni öfgafulla þörf þjóðarinnar við að eiga "alvöru" "celeb". Hversu margir kannast ekki við það, í spjalli sínu við útlendinga, að þurfa nauðsynlega að koma því fyrir í samtalinu að amma Bjarkar Guðmundsdóttur hafi verið besta vinkona ömmu manns, eða eitthvað álíka bjánalegt. En hvað sem öðru líður þá á hún alveg örugglega eftir að vekja athygli.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






miðvikudagur, janúar 25, 2006
 
"Nú er ég kominn til að kæta þig..."

Jú uppáhalds penninn þinn er mættur á svæðið eftir langa þögn. Og svo hafa borist af því fregnir að ég sé farinn að láta í mér heyra á ný en það er aukaatriði. Jólin voru fín og áramótin hin ágætustu. Og ég er að segja ykkur það (þeim ykkar sem ekki nutuð þess með mér) að útsýninð af svölunum hjá mér (það er 5. hæð í blokk í efra breiðholti) á gamlárskvöld var eins og ungdómur nútímans orðar það ge'kt! Ef ég bara hefði verið með linsuna hans Gunna... Ég vildi að ég gæti stært mig af því að hafa viðhaldið þeirri ágætu tölu sem táknaði ummál vambar minnar (eða jafnvel að hafa minkað hana), en jólagóðgætið entist mér full langt fram á nýárið og sér vart fyrir endan á því enn. Þó get ég, þar sem ég sit í svelti með fljúgandi súkkulaði fyrir augunum, huggað mig við það að hátíðasukkið setti mig þó ekki það langt aftur að ég næði ekki janúar þrekprófi dómara. Ég gerði líka gott betur en það, því ég spilaði smávaxinn körfuboltaleik 2 tímum síðar, sem holdgerfingur íþróttafréttamanns Sunnlenska fréttablaðisins. Þokkalega sáttur við eigin framistöðu í leiknum, þó kollekar mínir meðal áhorfenda hafi verið á því að ég hafi einokað knöttinn full mikið.

Að flestu öðru leiti er ég bara góður, nema hvað ég get skrifað þennan pistil hér og nú vegna þess að ég fékk einhvern flensuafleggjara og er því heimavinnandi húsfaðir eins og sakir standa. En það er ekki með öllu slæmt, því ég hef þá tíma til að grinka all verulega á óhreinatausfjallinu og stefni líka að því að ryksuga og skúra mitt ágæta höfuðból. Talandi um höfuðból, þá er þorrablót Tungnamanna um næstu helgi og ég hlakka ákaflega mikið til að komast þangað og fá minn árlega skammt af háði og spotti í bundnu máli Bjartmars bónda Hannessonar á Norður-Reykjum. Þó að ég geti nú hlýtt á hann allan ársins hring, þökk sé foreldrum mínum sem gáfu mér diskinn hans í jólagjöf, þá jafnast ekkert á "live" frumflutning á glænýju spéi.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.