Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, október 28, 2006
 
"...það er enginn vandi að aka bifreið, bara ef að maður kemur henni í gang..."

Starfs míns vegna (ég er bílstjóri) þá er ég mikið á ferðinni í borg óttans. Ég ek um á 12 tonna kassabíl sem er tæplega 10 metra langur, um 2 og hálfur meter yfirum og vel á 4 metran uppávið. S.s um 90 M3 á hjólum. Mér gengur ágætlega að sigla fleyi þessu um göturnar, svo fremi að ég láti póstnúmer 101 að mestu eiga sig, enda apparatið útbúið á nútímalegan hátt, með fjölmörgum speglum, stórum rúðum og myndavél sem leiðir aftansöngin ómengaðan í þartilgert viðtæki sem prýðilega hefur komið sér fyrir á mælaborðinu.

En þrátt fyrir öll þessi nútíma þægindi og meðfædda hæfileika undirritaðs til stýrimensku, þá uppgötvaði ég fljótlega að mig skorti tilfinnanlega lykil hæfileika. Þann hæfileika hafa ökumenn höfuðborgarsvæðinsins í ómælanlegu magni, í það minnsta þá þeir setjast undir stýrishjólið. Hæfileikinn er eiginlega nafnlaus en er ákveðin blanda ýmissa persónueinkenna. Frekja, tillitsleysi, eiginhagsmunasemi, algert brottnám skynsemi ásamt hreinni og ómengaðri heimsku eru helstu íblöndunarefnin en hlutfall þeirra virðist vera mis mikið í hverjum bílstjóra fyrir sig.

Ég hafði náttúrulega tekið eftir því áður en ég hóf togaraútgerðina að menn sem keyra haga sér á ýmsa lund sem ekki er til eftirbreytni. En fann ekki fyrir því að mig skorti eitthvað af þessu einkennum fyrr en ég fór að aka um á 90 M3 græjunni. Maður þarf nefnilega bæði meira pláss og meiri tíma til að athafna sig og venjulegur meðal fólksbílstjórajón er ekki alveg að fatta það. En svo þar fyrir utan þá virðist almennt sem umferðarómenningn okkar sé að versna, sú litla tillitssemi sem þó var til, virðist vera gjörsamlega gufuð upp og míkróprósentan af annars ágætu gáfnafari okkar almennt, sem meðaljónin notar við akstur virðist hafa lennt í niðurskurðarhnífnum og verið brúkuð í annað. Ef menn vilja fá á þessu sönnur, þá mæli ég með því að menn reyni, á annatíma, að komast úr Lágmúla inn á Háaleitisbraut til austurs.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.