Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, júní 27, 2004
 
"Love is in the air, everywhere I look around"

Jæja þá er sögunni um Tröllkarlinn Torfa lokið og byrtist hún í heild sinni hér að neðan. Eins og áður er gagnrýni vel þegin, þó eru menn, sem fyrr, beðnir að hemja sig hvað varðar stafsetningarvillur. Góða skemmtun.

Í fjalli einu, ekki langt hér frá, bjó eitt sinn eilítið treggáfaður tröllkarl. Karlinn sá hét Torfi. Hann lifði býsna einföldu og þægilegu lífi, í dágóðum helli, hreinum og fínum og þó ótrúlegt megi virðast, vel búinn húsbúnaði. Torfi var nefnilega ekki alveg eins og tröllkarlar eru flestir. Hann var mikill snyrtipinni, hreinlega þoldi ekki rusl, og vissi fátt skemmtilegra en að umbylta húsgagnasafni sínu, sem hann gerði í hvert sinn sem honum áskotnaðist nýr hlutur í búið. Sennilega hefði hann orðið innanhúsarkitekt væri hann mennskur en tröll eru lítið fyrir skóla og menn lítið fyrir tröll svo Torfi lét sér nægja að skipuleggja hellinn sinn. Hann hafði reyndar boðist til að hjálpa nágranna sínum einum, fyrir eins og um 200 árum síðan, að snyrta til hjá honum. Sá ágæti tröllkarl var nú hreint ekki á því, hann kunni því ágætlega að búa eins og ótaldar kynslóðir tröllkarla frá ómunatíð, í rusli og drasli upp fyrir haus. Eftir þessa misheppnuðu bónför, þá afréð Torfi að best væri nú að láta það eiga sig að bjóða fram þjónustu sína til annarra tröllkarla og þar sem hann þekkti ekki eina einustu tröllskessu, auk þess sem hann var þess fullviss að þær væru enn og meiri sóðar er karlarnir, þá hélt hann sig bara við sinn eigin helli.

Torfi hafði ákaflega gaman að því að fylgjast með gjörðum annarra. Hann hafði oft setið sem dáleiddur og horft á ærnar bíta og vafra um eins og þær gera best en undanfarin ár þá hafði ánum fækkað mikið og nú var svo komið að varla sást rolla neins staðar. Torfi skildi nú ekki hvernig á þessu stóð en honum var farið að leiðast all ógurlega því það var orðið fátt sem hann gat haft sér til dundurs. Það var ár og öld síðan hann hafði síðast fengið nýjan grip í búið og í ofanálag þá voru nær allar rollurnar horfnar. Torfi sá að við þetta mátti ekki búa mikið lengur, því hann var farinn að verða svo latur að líklegt væri að hann myndi einn morguninn ekki nenna að vakna og sofa bara áfram til eilífðarnóns og verða að steini. En það er nefnilega alger misskilningur að sólin breyti tröllum í stein, það er af og frá, það er nefnilega letin!

Svo Torfi ákvað nú að taka sér fyrir hendur ferðalag og kann hvort hann fyndi nú ekki líf einhversstaðar. Hann fékk þá snilldar hugmynd að gægjast uppyfir fjallstoppinn, en það hafði hann ekki gert áður, og kanna hvað byggi hinumegin fjallsins. Hann ákvað jafnframt að það væri nú sniðugt að framkvæma áætlunina að næturlagi, þá væri líklegra að hann sæi ær því þær væru að miklum meirihluta hvítar og ættu því að sjást betur í myrkri. Svo lagðist nóttin yfir og Torfi prílaði upp á fjallsbrúnina og gægðist yfir. Það munaði minnstu að hann steyptist afturfyrir sig, beint á höfuðið, af einskærri undrun, já og smávegis vegna rosalegrar ofbirtu sem hann fékk í augun. Viti menn við honum blöstu svo mörg ljós að þau náðu næstum að lýsa upp umhverfið eins og sjálf sólin. Alla nóttina starði Torfi á ljósin eins og dáleiddur væri. Hann sá sum hreyfast, einhvur kvikna, önnur slokkna og enn önnur skiptu litum. Hann starði þar til lýsa fór af degi og hann sá að ljósin voru í raun samansafn húsa sem öllum var þjappað saman á ógnarlítið svæði. Torfi skreið aftur niður hlíðina og inn í hellinn og hugsaði með sér að þetta þyrfti hann að kanna nánar, en fyrst ætlaði hann að leggja sig, enda óvanur að vaka heila nótt.

Svo óvanur var Torfi vökum að hann svaf allan daginn og næstu nótt líka. Hann vaknaði svo úthvíldur og hress og alveg staðráðinn í því að kanna húsaþyrpinguna sem haldið hafði honum hugföngnum heila nótt. Torfi kleif léttilega yfir fjallstoppinn og hóf að fikra sig niður hlíðina hinu megin. Hann passaði sig á því að fara leynt og að láta ekki neinn sjá sig. Þó hann hefði nú aldrei komist í návígi við neina lifandi verur aðrar en tröll og rollur þá þótti honum vissara að fara að öllu með gát, því hann rámaði í sögur sem móðir hans hafði sagt honum, af litlum verum sem kallaðir voru menn og gátu verið tröllum skeinuhættir. En hann hafði líka heyrt af nokkrum fjarskyldum ættingjum sem þóttu þeir ákaflega ljúffengir til átu og honum þótti það frekar líklegt að þeir væru þeim tröllum mun hættulegri en hinum sem frekar lögðu sér til munns önnur dýr. Sjálfur át Torfi einna helst urtir, ber og annað slíkt sem náttúran lagði honum til enda þótt honum þætti ket alls ekki slæmt, en hann var hins vegar langt frá því að vera lunkinn við veiðar og því var ket ákaflega sjaldan á borðum hjá honum.

Áfram klifraði Torfi, hægt og rólega niður eftir hlíðinni. Hann nam staðar rétt fyrir neðan miðja hlíð, í góðu skjóli við stóran klett, svona rétt til að kasta mæðinni. Hann fékk sér að drekka úr lítilli lækjarsprænu sem rann þar hjá og í þann mund sem hann var að fá sér sopa þá heyrir hann ákaflega undarlegt hljóð. Það var lágt og suðandi en fór hækkandi jafnt og þétt. Torfi fraus og hlustaði bergnuminn. Hljóðið hækkaði og hækkaði og virtist loks þjóta hjá eins og fluga sem flýgur hratt hjá eyra. Svo fór það lækkandi með sama hraða og það hækkaði áður. Nú var Torfi orðinn frekar smeykur, því honum þótti hljóðið hátt og ef það var fluga sem framkallaði slíkan hávaða, þá var hann þess full viss að þá flugu vildi hann ekki hitta því hún hlyti að vera ógnar stór. Hann afréð nú samt, þar sem eingin fleiri hljóð bárust honum til eyrna, að gægjast upp yfir klettinn og aðgæta hvað hann sæi. Torfi lyfti höfði sínu afar hægt og varlega upp og leit niður hlíðina. Hann sá niður að flæðarmáli og sá að fjallið virtist ná niður að sjó. Það þótti honum í sjálfu sér ekki undarlegt en honum þótti hitt undarlegra að breiður gráleitur stígur virtist liggja því sem næst í fjöruborðinu. Torfi velti þessum stíg mikið fyrir sér, í svo þungum þönkum var hann að hann heyrði ekki að suðhljóðið var komið aftur. Fyrr en allt í einu að hann sér eitthvað á fleygi ferð eftir stígnum og þetta eitthvað gefur frá sér samskonar suðandi hljóð og hann heyrði áður. Hann veit ekki fyrr en að hluturinn þýtur eftir stígnum, beint fyrir neðan hann og heldur áfram út með firðinum á svífandi ferð. Við þetta verður Torfi svo ofboðslega hræddur að hann hendir sér niður og grúfir sig í jörðina með hendur yfir höfði.

Torfi opnaði augun og gerði sér ljóst að hann hlyti að hafa sofnað. Það greip hann skelfing þar til hann áttaði sig á því að hann var enn undir klettinum. Hann andaði léttar og ætlaði að fara að búa sig undir að rísa á fætur þegar hann heyrði suðið aftur. Hann afréð að bíða þar til suðarinn væri farinn framhjá en honum til mikillar skelfingar þá lækkaði suðið ekkert heldur breytti um stefnu og tón og virtist nú koma í áttina að honum. Torfi lá sem stjarfur og þorði sig hvurgi að hreifa. Hljóðið var komið ískyggilega nærri þegar það loksins hljóðnaði. Torfi ætlaði að fara að varpa öndinni léttar þegar hann heyrði nokkra skelli og svo samtal einhvurra sem aðeins gátu verið menn.

“Þetta er fullkominn staður Þormar” sagði kvenleg rödd og hélt áfram, “alveg tilvalinn til þess að borða nestið”. “Já elskan mín, finnst þér ekki, ég fór hér um oft sem strákur í leitum” svaraði mun dimmari og karlmannlegri rödd. “Við stoppuðum gjarnan hér og átum nestið okkar, það er því sem næst náttúruleg rétt hér rétt innar og ákaflega góður staður til að láta safnið þétta sig og ær og lömb að para sig saman að nýju.” “Æi góði Þormar ég hef engan áhuga á þessum sveitasögum þínum, miklu meiri á nestinu og eftirréttinum” sagði kvenröddin með ákveðnum seyðingi. “Jæja elskan mín er það já, veistu hvaða dagur er í dag?” spurði karlröddin Þormar. Torfi heyrði ekki svar konunnar en Þormar hélt áfram og sagði: “Í dag er Jónsmessa og þjóðtrúin segir að maður eigi að velta sér nakinn upp úr dögginni á Jónsmessunótt og þá mun manni eigi misdægurt verða næsta árið.” “Híhíhí Þormar!” tísti konan. “Já”, hélt Þormar áfram, “svo er líka sagt að þá fari ýmsar verur á stjá, álfar, huldufólk og tröll.” Nú sperrti Torfi eyrun og lagði stíft við hlustir, þetta var nýtt fyrir honum. “Reyndar er smá ruglingur í gangi með þetta sko, því sumir segja að þetta eigi við sumarsólstöður og að þá eigi vættirnar að halda sig heimavið ella hljóti þær grimm örlög, en sumarsólstöður voru einmitt í fyrradag og sú nótt á... hmmm mumm” sagði Þormar. Torfi heyrði ekki meira talað í dágóðan tíma, en þeim mun meira af undarlegum búkhljóðum og hálfkæfðum stunum og talsvert af óskilgreindum hljóðum. En Torfi hafði lítinn áhuga á hljóðunum, hann var að hugsa stíft um það sem Þormar hafði sagt. Á Sumarsólstöðum eiga tröll að vera heima annars hljóta þau verra af og sumarsólstöður voru í fyrradag. Nú fór kaldur hrollur að sækja að Torfa. Hafði hann ekki verið að skoða ljósin í fyrradag og þá var hann úti, sem þýddi að...

Þormar og Stella voru í miðjum ástaratlotum þegar þau heyrðu gríðarlega dimmraddað og ómennskt öskur rétt aftan við klettinn sem þau lágu undir. Þau hrukku í kút og ætluðu að rjúka á fætur og í fötin þegar jörðin tók að skjálfa undir þeim og þungar drunur dundu í bland við öskrið. Eftir smá stund þá minnkuðu drunurnar, jörðin kyrrðist og öskrið fjarlægðist. Þormar og Stella hlupu sem pílur væru, beint inn í bílinn og brunuðu af stað. Þau skeyttu engu um að nestið, teppið og megnið af fötunum þeirra hefðu orðið eftir.

Tröllkarlinn Torfi sat heima í helli sínum með rjúkandi bolla af Blóðbergstei milli tveggja skjálfandi handa. Hann hafði hugsað málið stíft og var kominn á þá skoðun að ferð hans í dag hefði verið það illa sem fyrir hann átti að koma vegna útiverunnar á sumarsólstöðunum. Reyndar var Torfi dálítið ruglaður hvað varðaði Jónsmessuna en hann hugsaði með sér að heillavænlegast væri sennilega að vera bara heima undir feldi báða þessa daga, það gæti fátt slæmt hent hann þar. Segir ekki meira af Tröllkarlinum Torfa.


Fleira ekki gjört, fundi slitið.






fimmtudagur, júní 24, 2004
 
"Ég keyrði' á mínum Cadilac, með krómi sleigin stél. Það var fínasti bíllinn í bænum og með bestri' og stærstri' vél."

Ég varð vitni að ákaflega skemmtilegu athæfi ekki alls fyrir löngu. Reyndar voru þau tvö. Ég var á leið í líkamsrækt í Laugardalinn og var að keyra eftir Grensásveginum, í þann mund að fara að beygja inn á Suðurlandsbrautina. Á undan mér er Renault bifreið sem í sitja tvennt. Konan er undir stýri og hún er greinilega að bagsa ýmislegt annað en bara að keyra því bílinn var á frekar undarlegum stað á götunni. Fyrir þá sem ekki vita þá eru tvær beygjuakreinar af Grensásvegi yfir á Suðurlandsbrautina og ég var á þeirri ytri. Nú á innri akreininni kemur aðvífandi bíll, í þann mund sem Renaultinn sígur rólega til vinstri og verður til þess að sá nýkomni þurfti nánast að snarhemla til að forða árekstri. Sá bregst illa við og tjáir sig með flauti miklu og háværu. Um leið og Renaultinn sveigir aftur yfir á ytri akreinina þá sé ég manninn í farþegasætinu vinda upp á sig, teigja vinstri höndina í átt að glugganum í vinstri afturhurð og rétta upp löngutöng til merkis um fyrirlitningu sína. Ég hélt ég yrði ekki mikið eldri af hlátri. Ég gat náttúrulega ekki á mér setið og skipti snögglega um akrein og gaf í, til að sjá betur þetta skemmtilega fólk. Viti menn, þetta virtust vera hjón af erlendum uppruna, allavega var konan að bagsa við götukort svona meðfram akstrinum, og þau virtust ekki deginum eldri en 65!

Þegar ég svo kom í líkamsmusterið ógurlega og hafði skipt um föt og var kominn á hlaupabrettið. Þá hóf ég leit að einhverju skemtilegu á að hlýða. En það er s.s. hægt bæði að horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp í musteri þessu, á meðan maður hleypur. Ég datt niður á æði undarlega en þó skemmtilega sinfoníutónleika á Stöð 2. Þar voru leikin ýmis lög og á ýmis hljóðfæri sem ég á ekki að venjast að heyra og sjá í tengslum við sinfóníuhljómsveit. En það sem mér þótti skemmtilegast, og sem varð þess næstum valdandi að mér hlekktist á í hlaupunum vegna niðurbælds hláturskasts, var sjón sem ég sá þegar sveitin flutti það sem kallað var brasilísk sinfónía. Þá sátu tvær prúðbúnar konur á besta aldri, með prúðbúnar þá á ég við að þær voru í fötum sem hæfðu meðlimum sinfóníuhljómsveitar á tónleikum, með svokallaðar hristur og skökuðu sér og dilluðu með þær í nokkrum takti við lagið sitjandi sem fastast á stólunum!

Þetta var hinn skemmtilegasti dagur.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






miðvikudagur, júní 23, 2004
 
"Sögu vil ég segja stutta, sem að ég hef nýskeð frétt."

Nú er ofvirkur hugur minn kominn á kreik á ný. Reyndar ekki með þá sögu sem um var talað í síðasta pistli, sú er enn í mótun og á rannsóknarstigi. Nei ég fékk nefnilega hugmynd að barnasögu, já eða allavega sögu í anda margra góðra barnasagna og jafnvel þjóðsagna líka. Mér datt í hug að sletta hér inn upphafinu svona til að fá viðbrögð og sjá hvað menn segja. Ég ætla meira að segja að gerast svo kræfur að byðja þau ykkar sem búið svo vel að eiga börn, lítil systkyn, frændsystkyn, barnabörn eða bara hafið aðgang að börnum yfir höfuð, að lesa þessa sögu fyrir þau og sjá hvernig hún virkar. Það væri svo ekki verra að fá að vita viðbrögðin. En allavega hér er upphafið að sögunni um Tröllkarlinn Torfa.

Í fjalli einu, ekki langt hér frá, bjó eitt sinn eilítið treggáfaður tröllkarl. Karlinn sá hét Torfi. Hann lifði býsna einföldu og þægilegu lífi, í dágóðum helli, hreinum og fínum og þó ótrúlegt megi virðast, vel búinn húsbúnaði. Torfi var nefnilega ekki alveg eins og tröllkarlar eru flestir. Hann var mikill snyrtipinni, hreinlega þoldi ekki rusl, og vissi fátt skemmtilegra en að umbylta húsgagnasafni sínu, sem hann gerði í hvert sinn sem honum áskotnaðist nýr hlutur í búið. Sennilega hefði hann orðið innanhúsarkitekt væri hann mennskur en tröll eru lítið fyrir skóla og menn lítið fyrir tröll svo Torfi lét sér nægja að skipuleggja hellinn sinn. Hann hafði reyndar boðist til að hjálpa nágranna sínum einum, fyrir eins og um 200 árum síðan, að snyrta til hjá honum. Sá ágæti tröllkarl var nú hreint ekki á því, hann kunni því ágætlega að búa eins og ótaldar kynslóðir tröllkarla frá ómunatíð, í rusli og drasli upp fyrir haus. Eftir þessa misheppnuðu bónför, þá afréð Torfi að best væri nú að láta það eiga sig að bjóða fram þjónustu sína til annarra tröllkarla og þar sem hann þekkti ekki eina einustu tröllskessu, auk þess sem hann var þess fullviss að þær væru enn og meiri sóðar er karlarnir, þá hélt hann sig bara við sinn eigin helli.

Torfi hafði ákaflega gaman að því að fylgjast með gjörðum annarra. Hann hafði oft setið sem dáleiddur og horft á ærnar bíta og vafra um eins og þær gera best en undanfarin ár þá hafði ánum fækkað mikið og nú var svo komið að varla sást rolla neins staðar. Torfi skildi nú ekki hvernig á þessu stóð en honum var farið að leiðast all ógurlega því það var orðið fátt sem hann gat haft sér til dundurs. Það var ár og öld síðan hann hafði síðast fengið nýjan grip í búið og í ofanálag þá voru nær allar rollurnar horfnar. Torfi sá að við þetta mátti ekki búa mikið lengur, því hann var farinn að verða svo latur að líklegt væri að hann myndi einn morguninn ekki nenna að vakna og sofa bara áfram til eilífðarnóns og verða að steini. En það er nefnilega alger misskilningur að sólin breyti tröllum í stein, það er af og frá, það er nefnilega letin!

Svo Torfi ákvað nú að taka sér fyrir hendur ferðalag og kann hvort hann fyndi nú ekki líf einhversstaðar. Hann fékk þá snilldar hugmynd að gægjast uppyfir fjallstoppinn, en það hafði hann ekki gert áður, og kanna hvað byggi hinumegin fjallsins. Hann ákvað jafnframt að það væri nú sniðugt að framkvæma áætlunina að næturlagi, þá væri líklegra að hann sæi ær því þær væru að miklum meirihluta hvítar og ættu því að sjást betur í myrkri. Svo lagðist nóttin yfir og Torfi prílaði upp á fjallsbrúnina og gægðist yfir. Það munaði minnstu að hann steyptist afturfyrir sig, beint á höfuðið, af einskærri undrun, já og smávegis vegna rosalegrar ofbirtu sem hann fékk í augun. Viti menn við honum blöstu svo mörg ljós að þau náðu næstum að lýsa upp umhverfið eins og sjálf sólin. Alla nóttina starði Torfi á ljósin eins og dáleiddur væri. Hann sá sum hreyfast, einhvur kvikna, önnur slokkna og enn önnur skiptu litum. Hann starði þar til lýsa fór af degi og hann sá að ljósin voru í raun samansafn húsa sem öllum var þjappað saman á ógnarlítið svæði. Torfi skreið aftur niður hlíðina og inn í hellinn og hugsaði með sér að þetta þyrfti hann að kanna nánar, en fyrst ætlaði hann að leggja sig, enda óvanur að vaka heila nótt.


Fleira ekki gjört, fundi slitið.

P.S og nb. Athugasemdir um stafsetningarvillur eru illa séðar, þær verða leiðréttar síðar en öll önnur gagnrýni er vel þegin.






sunnudagur, júní 13, 2004
 
"I see trees of green, clouds of white, bright blessed day, dogs say goodnight, and I think to myself, what a wonderful world."

Þá er maður mættur aftur og í mun betri stemmingu en síðast, sem er býsna gott. Lífið gengur sinn vana gang og nýja vinnan reynist ágæt. Ég hef mikið verið að velta því fyrir mér að hefja söguskrif á ný. Ekki það að ég hafi hætt, en það er orðið æði langt síðan ég hef sett staf á blað. Sú saga sem ég hef gengið með í maganum undanfarin misseri er víkingasaga um ungan dreng ofan af Íslandi sem fyrir tilviljun nemur hjá Márum í Cordoba og verður mikilvægur hlekkur í landnámi norrænna manna á hinu áður óþekkta landi, vínlandi. Ég þarf reyndar að leggjast í smá rannsóknir svo að sögustaðreyndir standist en það ætti ekki að vera mikið mál með aðstoð hins víðfema alnets.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






þriðjudagur, júní 08, 2004
 
"Then I see a darkness and then I see a darkness"

Vonbrigði er held ég ein versta tilfinning sem nokkur maður getur upplifað. Vonbrigði fela nefnilega í sér svo mikið annað en sjálft sig. Það er ekki óalgengt að menn verði reiðir, sárir, sorgmæddir og jafnvel hatursfullir þegar þeir verða fyrir vonbrigðum. Hver kannast ekki við að verða fyrir vonbrigðum með einhverja hetjuna á barnsaldri og fara upp frá því að hata viðkomandi, jafnvel með ástríðu. Nú eða verða fyrir vonbrigðum með einhvern, oftast nákomin, og verða óskaplega sár og mæddur.

En verst held ég að sé að verða fyrir vonbrigðum með sjálfan sig. Hví, jú vegna þess að það "góða" við vonbrigði er það að getað bent fingri á einhvern/eitthvað og "vitað" að viðkomandi sé orsök vonbrigðana og fengið úr því illa, en notadrjúga uppörvun. Hið sama er ekki uppi á borðum þegar maður veldur sjálfum sér vonbrigðum, því það er jú fátt sem fróar manni við það að benda á sjálfan sig og kenna sjálfum sér um allt. Í flestum tilfellum þá er nú tiltölulega auðvelt að breyta sjálfsvonbrigðunum í uppbyggilegt og jákvætt afl til sjálfsstyrkingar, en stundum þá er eiginn barlómur slíkur að hann kæfir allt annað niður og hótar að drekkja manni í hverri þeirri tilfinningu sem með vonbrigðunum slæðist. Ósköp getur maður stundum verið armur og blauður!

Fleira ekki gjört, fundi slitið.