Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, júní 23, 2004
 
"Sögu vil ég segja stutta, sem að ég hef nýskeð frétt."

Nú er ofvirkur hugur minn kominn á kreik á ný. Reyndar ekki með þá sögu sem um var talað í síðasta pistli, sú er enn í mótun og á rannsóknarstigi. Nei ég fékk nefnilega hugmynd að barnasögu, já eða allavega sögu í anda margra góðra barnasagna og jafnvel þjóðsagna líka. Mér datt í hug að sletta hér inn upphafinu svona til að fá viðbrögð og sjá hvað menn segja. Ég ætla meira að segja að gerast svo kræfur að byðja þau ykkar sem búið svo vel að eiga börn, lítil systkyn, frændsystkyn, barnabörn eða bara hafið aðgang að börnum yfir höfuð, að lesa þessa sögu fyrir þau og sjá hvernig hún virkar. Það væri svo ekki verra að fá að vita viðbrögðin. En allavega hér er upphafið að sögunni um Tröllkarlinn Torfa.

Í fjalli einu, ekki langt hér frá, bjó eitt sinn eilítið treggáfaður tröllkarl. Karlinn sá hét Torfi. Hann lifði býsna einföldu og þægilegu lífi, í dágóðum helli, hreinum og fínum og þó ótrúlegt megi virðast, vel búinn húsbúnaði. Torfi var nefnilega ekki alveg eins og tröllkarlar eru flestir. Hann var mikill snyrtipinni, hreinlega þoldi ekki rusl, og vissi fátt skemmtilegra en að umbylta húsgagnasafni sínu, sem hann gerði í hvert sinn sem honum áskotnaðist nýr hlutur í búið. Sennilega hefði hann orðið innanhúsarkitekt væri hann mennskur en tröll eru lítið fyrir skóla og menn lítið fyrir tröll svo Torfi lét sér nægja að skipuleggja hellinn sinn. Hann hafði reyndar boðist til að hjálpa nágranna sínum einum, fyrir eins og um 200 árum síðan, að snyrta til hjá honum. Sá ágæti tröllkarl var nú hreint ekki á því, hann kunni því ágætlega að búa eins og ótaldar kynslóðir tröllkarla frá ómunatíð, í rusli og drasli upp fyrir haus. Eftir þessa misheppnuðu bónför, þá afréð Torfi að best væri nú að láta það eiga sig að bjóða fram þjónustu sína til annarra tröllkarla og þar sem hann þekkti ekki eina einustu tröllskessu, auk þess sem hann var þess fullviss að þær væru enn og meiri sóðar er karlarnir, þá hélt hann sig bara við sinn eigin helli.

Torfi hafði ákaflega gaman að því að fylgjast með gjörðum annarra. Hann hafði oft setið sem dáleiddur og horft á ærnar bíta og vafra um eins og þær gera best en undanfarin ár þá hafði ánum fækkað mikið og nú var svo komið að varla sást rolla neins staðar. Torfi skildi nú ekki hvernig á þessu stóð en honum var farið að leiðast all ógurlega því það var orðið fátt sem hann gat haft sér til dundurs. Það var ár og öld síðan hann hafði síðast fengið nýjan grip í búið og í ofanálag þá voru nær allar rollurnar horfnar. Torfi sá að við þetta mátti ekki búa mikið lengur, því hann var farinn að verða svo latur að líklegt væri að hann myndi einn morguninn ekki nenna að vakna og sofa bara áfram til eilífðarnóns og verða að steini. En það er nefnilega alger misskilningur að sólin breyti tröllum í stein, það er af og frá, það er nefnilega letin!

Svo Torfi ákvað nú að taka sér fyrir hendur ferðalag og kann hvort hann fyndi nú ekki líf einhversstaðar. Hann fékk þá snilldar hugmynd að gægjast uppyfir fjallstoppinn, en það hafði hann ekki gert áður, og kanna hvað byggi hinumegin fjallsins. Hann ákvað jafnframt að það væri nú sniðugt að framkvæma áætlunina að næturlagi, þá væri líklegra að hann sæi ær því þær væru að miklum meirihluta hvítar og ættu því að sjást betur í myrkri. Svo lagðist nóttin yfir og Torfi prílaði upp á fjallsbrúnina og gægðist yfir. Það munaði minnstu að hann steyptist afturfyrir sig, beint á höfuðið, af einskærri undrun, já og smávegis vegna rosalegrar ofbirtu sem hann fékk í augun. Viti menn við honum blöstu svo mörg ljós að þau náðu næstum að lýsa upp umhverfið eins og sjálf sólin. Alla nóttina starði Torfi á ljósin eins og dáleiddur væri. Hann sá sum hreyfast, einhvur kvikna, önnur slokkna og enn önnur skiptu litum. Hann starði þar til lýsa fór af degi og hann sá að ljósin voru í raun samansafn húsa sem öllum var þjappað saman á ógnarlítið svæði. Torfi skreið aftur niður hlíðina og inn í hellinn og hugsaði með sér að þetta þyrfti hann að kanna nánar, en fyrst ætlaði hann að leggja sig, enda óvanur að vaka heila nótt.


Fleira ekki gjört, fundi slitið.

P.S og nb. Athugasemdir um stafsetningarvillur eru illa séðar, þær verða leiðréttar síðar en öll önnur gagnrýni er vel þegin.