Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, maí 31, 2004
 
"...Það var eins og gerst hafð' í gær, já eins og gerst hafð' í gær..."
Ég á í stríði við stól. Blessaður stólinn er búinn þeirri ónáttúru að vilja húrra niður á sér bakinu einmitt þegar ég ætla að halla mér aftur að því og hafa það extra næs við tölvuna. Mér þykir þetta afar kvímleitt, sér í lagi sökum þess að stólinn er að öðru leiti hinn ágætasti og til mikillar fyrirmyndar. Ég man þá stund vel þegar ég tók stólinn upp úr kassa sínum, það var að kvöldi þess 8. apríl árið 1993. Eftir að hafa púslað honum saman með dyggri aðstoð pápa míns þá mátið ég sætið góða við nýja skrifborðið mitt. Þvílík sæla það var, sem ég sæti á loftinu einu saman. Síðan þá höfum við átt margar góðar stundir saman, ég og stólinn. Flestar hafa verið annaðhvort við skrifborðið eða við tölvuna og flestar hafa þær tengst lærdómi.

En nú s.s. er bévítið farið að angra mig með því að fella bak sitt í tíð og ótíð. Ég þarf að fara að eignast rörtöng, ég held að þá komi ég tjónki við stólhelvítið...

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






laugardagur, maí 29, 2004
 
Hann sagði: "Ú, í, ú, a, a, ting teng walla walla bing bang. Ú í ú a a ting teng walla wall bing bang".
Ég hef ætlað að tjá mig núna í æði langan tíma en hef ekki gefi mér tíma til þess. Thja svo ég tali nú bara hreinskilningslega þá hef ég hreinlega ekki nent því. ÉG var búinn að bræða með mér góðan pistil um þá þrautfúlu og hlandvitlausu tík sem kölluð er póli og er að hugsa um að birta úr honum smá brot.

Ég fór að hlusta talsvert á brot úr ræðum og ýmis ummæli stjórnmálamanna, sem þeir hafa flutt á Alþingi og/eða látið falla í fjölmiðlum. Ekki var það nú af neinum nývöknuðum áhuga af minni hálfu, heldur einvörðungu vegna þess að fátt annað var í útvarpinu sl. vikur. Jú ég hefði kannski getað skipt um stöð en hér í sveitinni heyrist ekki hin stöðin sem ég hlusta hvað mest á, Skonrokk. Svo pólitík var það heilinn. Nú menn þusuðu sitt á hvað um valdnýðslu, málþóf, druslur, gungur og gott ef skítlegt eðli kom ekki líka fyrir. S.s. allt upp í loft og tómt vesen.

Eftir því sem líða tók á málið þá fór ég að sjá, að mér fannst, hvernig þessir karlar og kerlingar eru. En þar sem ég nenni ekki að tala um venjulega litla þingmenn eða ráðherra þá tala ég bara um formenn flokkanna.

Davíð Odssson: Dabbi digri, Bubbi kóngur og fleiri slík nöfn hæfa þeim frekjuhundi. Hann hefur ekki verið í stjórnarandstöðu síðan fyrir 1980 þegar vinstrimenn réðu borginni og öllu hefur hann ráðið á þingi síðan hann komst þangað inn. Hann virðist ekki þola að neitt sé gert á móti honum og læt oft ekki einu sinni svo lítið að vera á staðnum, sem varð einmitt til þess að gungur og druslur urðu ný viðurnefni á karlinum. Ég er á því að hann eigi bara að hætta þessu pólitíska brasi og setjast bara við skrifborðið sitt og skrifa eitthvað skemmtilegt fyrir okkur að lesa, enda er hann frábær í því.

Halldór Ásgrímsson: Dóri hefur löngum verið kallaður litlausasti og jafnvel leiðinlegasti stjórnmálamaður Íslands. Það er nú kannski aðallega vegna þess að andlit hans breytir svo ákaflega sjaldan um svip. Reyndar tókst einhvurri aulýsingastofunni að fá hann til að sitja fyrir á myndum, skjælbrosandi(!!!), en það var jú með hagsmuni floksins að leiðarljósi svo þá er auðvelt að skilja þetta. Ég hélt einu sinni að Halldór væri maður með bein í nefinu en nú sýnist mér hann vera hundur sem langar í bein að naga og fallega körfu að sitja í. Beinið er náttúrulega völin og karfan er forsætisráðherrastólinn. Mér hefur þótt afar leiðinlegt að sjá hverstu fylgisspakur Halldór er við Davíð og hversu fylgisspakir þingmenn Framsóknar eru við Halldór, en þeir sjá náttúrulega ráðherrastóla í hillingum (nema Kristinn H. sem virðist vera eini maðurinn í þingflokkum ríkisstjórnarinnar sem þorir að taka afstöðu á móti Dabba og Dóra). Reyndar verður að gefa framsókn það að þeir lúffuðu ekki í skattalækkunar málinu sem sjallarnir vildu keyra í gegn án þess að velta því mikið fyrir sér hvaða áhrif það hefði á fjársveltar ríkisstofnanir. Plús í kladdan þar hjá Frömmurum.

Össur Skarphéðinsson: Össur er gasprari, það er ljóst, og hann kjaftar stundum svo mikið og blaðrar út í loftið að ekki tekur nokkur maður mark á því sem hann segir. Eins skemmtilegur og karlinn getur verið, þá getur hann mjög auðveldlega orðið hundleiðinlegur. En burt séð frá persónuleika Össurar, þá held ég að hann sé næsta ómögulegur til þess að leiða stjórnmálaflokk. Hann er ágætur með en ekki fremstur. Samfylkingarþingmenn voru annars æði áberandi núna undir lokin, en þá mest og aðallega í því að gagnrýna málsmeðferðir og fundarstjórn forseta. Jú vissulega hefur málum verið barið í gegn með þvílíku offorsi og ofbeldi að það hálfa væri hellingur, og vissulega hefur Forseti þingsins sýnt og sannað að hann er vart hæfur til að stjórna hagyrðingakvöldi, hvað þá fundum alþingis, en það má líka ræða mál efnislega þó svo að allt í kringum þau sé vægast sagt afbrigðilegt. Ég held að Össur litli ætti að hætta að rífa kjaft á alþingi og snú sér frekar að hinu áhugamáli sínu, kynlífi urriðans í Þingvallavatni.

Steingrímur J. Sigfússon: Steingrímur býr við talsverða ólukku. Fyrst ber að nefna þá ólukku að hann hefur sterkar skoðanir sem eru flestar á öndverðum meiði við skoðanir ráðandi valdhafa. Þetta er ólukka sem gerir það að verkum að hann er alltaf á móti öllu. Önnur ólukka heitir Ögmundur Jónasson og er fólgin í því hversu svart og drimmt sá ágæti maður virðist sjá allt. Slíkt tal til lengdar hlýtur að draga fólk niður í bikasvart þunglyndi. Reyndar er það allt í lagi þar sem ráðamenn hafa predikað svo mikla sól að allir skyldu ganga um með sólgleraugu dags daglega, en það er líka til of mikið svartagallsraus. Hin þriðja ólukka Steingríms, og kannski sú stærsta heitir Kolbrún Halldórsdóttir. Ég veit ekki hver fékk þá hugmynd að það væri gæfuríkt að setja þessa konu á þing. Því öfgafyllri einstakling og meiri frekju hef ég vart vitað að væri til. Þar sem hana skorti góð rök, sem er nb. alls ekki alltaf, þá bætir hún upp með yfirgangi, gífuryrðum og hávaða. En greyið hann Steingrímur getur vart losað sig við þessa þriðju og mestu ólukku. Það væri a.m.k. mikil áhætta, því þá missir flokkurinn stuðning öfgafeminazista og annar slíks öfgafólks og alsendis óvíst hvort nægt fylgi kæmi í staðin frá minna öfgafullum einstaklingum. Vinstri-grænir þurfa, hvað sem þeir gera við þingmenn sína, að temja sér mun jákvæðari afstöðu og hætta að vera sífellt bara á móti. Hvernig væri t.d. að koma með nokkrar raunhæfar tillögur til úrbóta ekki bara riðja burtu öllu nýmóðins (allt framleitt eftir 1950) tækjarusli og lifa af sauðkyndinni og fjallagrösum.

Guðjón Arnar Kristjánsson: Þá er komið að flokknum sem er minstur. Frjálslyndir. Sá flokkur hefur alla burði til að verða mikill með tíð og tíma en þá þurfa þeir að gera á sjálfum sér talsverðar breytingar. Reyndar eru þær ekkert svo svakalegar breytingarnar sem þeir þurfa að gera, í raun bara ein og það er að hætta að tengja alla ógæfu íslensku þjóðarinnar við þá staðreynd að við búum við kvótakerfi! Hægri kratinn í sjálfum mér finnur sér mjög sterkan samhljóm meðal málefna frjálslyndra, en aðrir hlutar mínir fá grænar bólur í hvert sinn sem þingmenn floksins heyrast segja, "...já en kvótakerfið..." Addi Kidda Gau og félagar verða að fara og finna sér fleira að tala um en blessað kvótakerfið, þá er kannski kominn raunhæfur möguleiki á öðrum hægriflokk á Íslandi en Sjálfstæðisflokknum (og Framsókn eins og hann er núna).

Jæja þá held ég að allri minni pólitísku gremju hafi verið komið fyrir kattarnef og ég lofa lesendum mínum því að ég skal ekkert vera neitt að fjalla um þá örmu tík neitt í bráð.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






sunnudagur, maí 16, 2004
 
"...he ain't heavy, he's my brother..."
Við búum í ríki stóra bróður og það er aldrei að vita hver fylgist með. Ég hef mestar áhyggjur af því að hin skyndilega tilkomna auglýsingaherferð Securitas (ég dirfist ekki að setja tengil á síðuna þeirra) sé einvörðungu laumuleg aðferð til þess að safna upplýsingum um hagi landsmanna. Ég er þess fullviss að nýjasta örtölvutækni geri þeim kleift að njósna um okkur með örmyndavélum í gegnum sjónvarpsskjáinn. Svo nota þeir upplýsingarnar til að selja okkur fleiri myndavélar svo hægt sé að njósna enn meira um okkur... REPENT FOOLS!

Stóri bróðir vinnur líka á stærri skala og teigir anga sína víða. Ég þori t.d. ekki fyrir mitt litla líf að horfa á útsendingar af Alþingi. Ekki nóg með að stóri bróðir hafi yfir mun betri njósnatækni að ráða en áður var minnst á (hrollur) heldur þá er aðal meistari stóra bróður, krullhærður óálitlegur drumbur, reglulega þar. Reyndar virðist hann ekki fatta hversu áhrifamikill hann gæti verið ef hann væri alltaf í salnum, sem betur fer þá fer kraftur og viska ekki alltaf saman og þannig er það í þessu tilfelli. Aðal meistari Stóra bróðurs er nefnilega ekki mjög vitur, þó hann sé sterkur og það gæti orðið hans banamein.

En frá stóra bróður að þeim litla. Það er nefnilega svo að ég á lítin bróður, úr holdi og blóði, og stubburinn sá er eiginlega hættur að vera slíkur. T.d. þá fermist hann eftir 3 vikur og ef fram heldur sem horfir þá á stubburinn efitr að ná að leggja mig að velli í kraftakeppni (les. kitlukeppni) áður en langt um líður. Ég held að ég verði að fara að ráða mér einkaþjálfara. Kannski maður fari að láta sjá sig í skúrnum þar sem Mr. Jones, Ármennið og Geiradróttinn sveifla lóðum af ólympískri fimi. Það er líklega rétt að geta þess hér og nú að ég verð mættur aftur í höfuðborgina eftir tvær til þrjár vikur, því ég hefi nefnilega loksins fengið starf. Já ég hef verið ráðin sem lyftaramaður hjá Byggingafélagi Kópavogs í vöruhúsi þess við Kjalarvog og mun hefja þar störf upp úr mánaðamótunum, eða þegar ég hef lokið störfum í Loftorkunni góðu. Mikið verður nú gott að komst aftur heim, þó ég verði að segja að vistin í sveitinni hafi verið óskaplega endurnærandi og sálu minni holl og góð. Það sama verður ekki alveg sagt um líkaman, því eigi er mér örgrant um að á hann hafi bæst í sveitaverunni, ekki síst, en ekki einvörðungu, vegna hins góða matar sem ég hef notið hjá ömmu minni öll virk hádegi í 1 og hálfan mánuð. En aðalástæðan er ugglaust sú að ég hef eiginlega alveg hætt að hreifa mig sem nokkru nemur, ástand sem unnið verður á um leið og til Reykjavíkur kemur. Ég sé... ég sé... árskort í heilsurækt í náinni framtíð. Já og ég sé jafnvel líka náðu þrekprófi dómara næsta haust, vona ég...

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






mánudagur, maí 10, 2004
 
"...Þá stóð svínið upp og labbaði heim á leið"
Mér skilst að sumarið hafi mætt á svæðið í gær. Ég tók nú ekki eftir því persónulega, því ég var svo upptekinn við að baða mig í sólinni. Alveg magnað hversu blint fólk getur verið, sbr. að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Ég varð var við sumarið í gær, enda varla annað hægt, þar sem ég sat undir stýri á JCB Fasttrack "dráttarvél" með haugsugu aftaní og dreifði svínaskít á túnin að Borgum. Mér tókst að fara 7 og hálfa ferð en sú áttunda varð eiginlega hálf endaslept og tæknilega séð þá stendur hún enn yfir.

Þannig var nefnilega mál með vexti að á haugsugunni eru dekk, tvö stykki eða svo, og annað þeirra var orðið æði mikið lasið. Lesendum til dulítið meiri glöggvunar þá eru þessar dráttarvélar þeim kostum búnar að komast á allt að 80 kílómetra hraða á klukkustund. Sem hentaði mér ákaflega vel því skíturinn var saman kominn í þar til gerðum tank við svínahúsið á Stafholtsveggjum, en þaðan er drjúgur spölur, á hefðbundinni dráttarvél, út á túnin á Borgum. Nú eins og fyrr sagði þá hafði ég farið sjö ferðir um daginn, sem tóku hver um sig u.þ.b. þrjá fjórðu úr klukkustund sökum þess að hægt var að keyra vélina á rúmlega 60 km/klst hvort heldur sem sugan var full eða tóm. Allt hafði gengið að óskum og ég var nú rétt búinn að beygja niður á nes, sem kallað er, og var kominn u.þ.b. hálfa leið að túninu þegar mikill hvellur heyrist og vélin byrjar að nötra og skjálfa.

Ég nem staðar undir eins og vippa mér út. Blasir þá við mér sundurtætt dekk á haugsugunni og gúmmítæjur á víð og dreyf í kring. Það hefði ekki verið fallegt til þess að hugsa hvernig mál hefðu farið hefði ég verið úti á þjóðvegi nr. 50 á rúmlega 60 km hraða þegar dekkið sprakk, í stað þess að vera á tæplega 10 km/klst á troðningum niður á nes. Jæja en við svo mátti ekki búa, svo við feðgarnir brettum upp ermar og tókum fram tæki og tól og vippuðum dekkinu undan, skelltum því upp á kerru og brunuðum heim. Það verður svo verkefni dagsins að setja nýtt dekk á felguna og kvöldsins að koma því undir aftur svo hægt verði að klára áttundu ferðina og jafnvel fara 1-2 í viðbót.

Ég fór svo að hugsa það eftir á hversu mikill bjáni ég hefði verði að svínkeyra traktorinn og suguna, vitandi það að dekkið gat farið hvenær sem var. Það er ótrúlegt hversu blindur maður er stundum.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






fimmtudagur, maí 06, 2004
 
"Það þarf að skipt' á bleyjum, á þessum litlu greyjum, og þvo þeim síðan upp úr ræstidufti og klór." Ég er maður gleyminn, það ættu ekki að vera fréttir fyrir nokkurn mann. En ég gerðist í síðasta pistli sekur um þvílíka gleymsku að vel má vera að ég mæli með afhausun á sjálfum mér. Þær gleðifregnir bárust um hálf tíuleitið á þriðjudag frá góðvini vorum Jóhanni Waage að hans ekta kvinna Gyða, hafi fætt af sér dóttur. 12 merkur og 49 cm voru mál hennar og faðirinn hefur ekki tvínónað við hlutina (hann er ekki vanur því) og hefur sett upp síðu til heiðurs erfingjanum. Hamingjuóskir hafa vitaskuld verið sendar, en rétt er að endurtaka þær hér og því ber að fagna að tveir menn sem ég kalla góða vini mína, hafi nú séð sér fært að fjölga mannkyninu og halda þar með (vonandi) við snilli sinni og fegurð.

Dagar víns og rósa eru framundan. Ég hygg í það minnsta að maður geri einhverjar rósir núna um helgina, ef ekki í raunheimum þá allavega í draumaheimum. Það verður s.s. spilamennska hjá Mr. Jones á morgun (annað kvöld) og þar gera menn ábyggilega rósir. Vínið er meira spurningarmerki, en þó er ekki útséð um að einn eða tveir öllarar leki niður kverkar vorar.

Ég var á akstri um daginn. Þá datt mér í hug góð æskuminning sem ég huggðist rita um mikin og góðan pistil á síðu þessa. En og þetta en er stórt, en mér tókst að steyngleima, ekki bara innihaldi pistilsins, heldur líka minningunni. Þetta minnisleysi er ekki einleikið með mig, ef ég teldi það ekki ómögulegt, þá væri ég þess fullviss að ég væri allavega 100 ára og farinn að kalka óhugnarlega. En ég er nú ekki nema 25 og ekki farinn að kalka neitt að ráði, sem er eiginlega ekki nógu hughreystandi, því það bendir til þess að ég þjáist af lélegu minni ( í besta falli) eða einhverjum heilasjúkdóm (í versta falli). Ég veit eigi gjörla hvað skal til bragðs taka, þigg ráð...

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






þriðjudagur, maí 04, 2004
 
"Nú er sumar, gleðjist gumar, gaman er í dag. Brosir veröld víða, veðurlagsins blýða, eikur yndishag, eikur yndishag" Halda mætti að alvarlega hefði slegið út í fyrir mér núna, allavega ef menn horfa til veðursins eins og það hefur verið undanfarna daga og setja það í samhengi við upphafssönglið. En ég er nú bara svo einfaldur að ég trúi því iðulega að veðrir sé gott þegar ég lýt út um gluggan og sé heiðan himininn og finn sólarhitan baka mig, þar sem ég sit í bílnum mínum á leið einhvurt. En svo kemst ég að því all rækilega að allt var þetta í plati, í raun þá sé hitastigið svo stutt fyrir ofan núllið að það teldist dvergur ef það væri mennskt og að það blási svo napurlega að norðan að halda mætti að nú væri janúar en ekki maí. Sem betur fer er spölurinn stuttur inn í hús þaðan sem ég get aftur gefið mig tálsýninni á vald.

Ég eyddi helginni að mestu á Selfossi. Stundaði þar þingstörf, ræddi við menn um málefni, greiddi atkvæði ýmist með eða á móti, hlustaði með andakt á ræður manna, spjallaði og drakk bjór og keyrði svo heim að kveldi. Í grófum dráttum er þetta þing KKÍ. Skemtanin var talsverð og fólgin í fleiru en bjórdrykkju og klámfengnum bröndurum. Hún var meðal annars falin í umræðum um málefni hreyfingarinnar, frá dómurum til drengjaflokks, frá könum til Keflvíkinga. En að öðrum atriðum ólöstuðum þá held ég að kveðjuatriði Guðjóns Þorsteinssonar, mikilmennis og körfuboltamógúls frá Ísafirði, til handa fráfarandi framkvæmdastjóra sambandsins, Pétri Hrafni Sigurðssyni, hafi slegið allt út. Það fór fram yfir galadiner á laugardagskvöldinu og fólst í mælsku Gaua og látbragði Péturs er þeyr lýstu "makeoveri" því sem Guðjón gerði á Pétri. Þingheimur vældi úr hlátri.

Atvinnuleyt gegngur heldur brösuglega þessa dagana. Þó er talsvert framboð eftir vinnuafli, en því miður fyrir mig, þá virðist eftirspurnin vera enn meiri. Ég gefst þó ekki upp, en er að mynda með mér plan B fyrir næsta vetur, ef eingin verður atvinnan. Skóli gæti komið þar við sögu, en slíkt fer þó eftir velvild Kaupfélagsbankaútibúi bæjarins. Fregnaði raunar að þangað hefði verið ráðinn nýr útibússtjóri, sá mun heita Gylfi, sá hinn sami og eitt sinn var uppnefndur Gróðinn í hinu raunverulega Kaupfélagi bæjarins, þá hann var þar fjármálastýrimaskína einhvurskonar. Eigi er mér örgrant um að sá gæti reynst svipaður haukur í horni og sá var er fyrrum gengdi stöðu hans í bankanum.

Nú hefi ég eigi frá fleiru að greina.

Fleira ekki gert, fundi slitið.