Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, maí 29, 2004
 
Hann sagði: "Ú, í, ú, a, a, ting teng walla walla bing bang. Ú í ú a a ting teng walla wall bing bang".
Ég hef ætlað að tjá mig núna í æði langan tíma en hef ekki gefi mér tíma til þess. Thja svo ég tali nú bara hreinskilningslega þá hef ég hreinlega ekki nent því. ÉG var búinn að bræða með mér góðan pistil um þá þrautfúlu og hlandvitlausu tík sem kölluð er póli og er að hugsa um að birta úr honum smá brot.

Ég fór að hlusta talsvert á brot úr ræðum og ýmis ummæli stjórnmálamanna, sem þeir hafa flutt á Alþingi og/eða látið falla í fjölmiðlum. Ekki var það nú af neinum nývöknuðum áhuga af minni hálfu, heldur einvörðungu vegna þess að fátt annað var í útvarpinu sl. vikur. Jú ég hefði kannski getað skipt um stöð en hér í sveitinni heyrist ekki hin stöðin sem ég hlusta hvað mest á, Skonrokk. Svo pólitík var það heilinn. Nú menn þusuðu sitt á hvað um valdnýðslu, málþóf, druslur, gungur og gott ef skítlegt eðli kom ekki líka fyrir. S.s. allt upp í loft og tómt vesen.

Eftir því sem líða tók á málið þá fór ég að sjá, að mér fannst, hvernig þessir karlar og kerlingar eru. En þar sem ég nenni ekki að tala um venjulega litla þingmenn eða ráðherra þá tala ég bara um formenn flokkanna.

Davíð Odssson: Dabbi digri, Bubbi kóngur og fleiri slík nöfn hæfa þeim frekjuhundi. Hann hefur ekki verið í stjórnarandstöðu síðan fyrir 1980 þegar vinstrimenn réðu borginni og öllu hefur hann ráðið á þingi síðan hann komst þangað inn. Hann virðist ekki þola að neitt sé gert á móti honum og læt oft ekki einu sinni svo lítið að vera á staðnum, sem varð einmitt til þess að gungur og druslur urðu ný viðurnefni á karlinum. Ég er á því að hann eigi bara að hætta þessu pólitíska brasi og setjast bara við skrifborðið sitt og skrifa eitthvað skemmtilegt fyrir okkur að lesa, enda er hann frábær í því.

Halldór Ásgrímsson: Dóri hefur löngum verið kallaður litlausasti og jafnvel leiðinlegasti stjórnmálamaður Íslands. Það er nú kannski aðallega vegna þess að andlit hans breytir svo ákaflega sjaldan um svip. Reyndar tókst einhvurri aulýsingastofunni að fá hann til að sitja fyrir á myndum, skjælbrosandi(!!!), en það var jú með hagsmuni floksins að leiðarljósi svo þá er auðvelt að skilja þetta. Ég hélt einu sinni að Halldór væri maður með bein í nefinu en nú sýnist mér hann vera hundur sem langar í bein að naga og fallega körfu að sitja í. Beinið er náttúrulega völin og karfan er forsætisráðherrastólinn. Mér hefur þótt afar leiðinlegt að sjá hverstu fylgisspakur Halldór er við Davíð og hversu fylgisspakir þingmenn Framsóknar eru við Halldór, en þeir sjá náttúrulega ráðherrastóla í hillingum (nema Kristinn H. sem virðist vera eini maðurinn í þingflokkum ríkisstjórnarinnar sem þorir að taka afstöðu á móti Dabba og Dóra). Reyndar verður að gefa framsókn það að þeir lúffuðu ekki í skattalækkunar málinu sem sjallarnir vildu keyra í gegn án þess að velta því mikið fyrir sér hvaða áhrif það hefði á fjársveltar ríkisstofnanir. Plús í kladdan þar hjá Frömmurum.

Össur Skarphéðinsson: Össur er gasprari, það er ljóst, og hann kjaftar stundum svo mikið og blaðrar út í loftið að ekki tekur nokkur maður mark á því sem hann segir. Eins skemmtilegur og karlinn getur verið, þá getur hann mjög auðveldlega orðið hundleiðinlegur. En burt séð frá persónuleika Össurar, þá held ég að hann sé næsta ómögulegur til þess að leiða stjórnmálaflokk. Hann er ágætur með en ekki fremstur. Samfylkingarþingmenn voru annars æði áberandi núna undir lokin, en þá mest og aðallega í því að gagnrýna málsmeðferðir og fundarstjórn forseta. Jú vissulega hefur málum verið barið í gegn með þvílíku offorsi og ofbeldi að það hálfa væri hellingur, og vissulega hefur Forseti þingsins sýnt og sannað að hann er vart hæfur til að stjórna hagyrðingakvöldi, hvað þá fundum alþingis, en það má líka ræða mál efnislega þó svo að allt í kringum þau sé vægast sagt afbrigðilegt. Ég held að Össur litli ætti að hætta að rífa kjaft á alþingi og snú sér frekar að hinu áhugamáli sínu, kynlífi urriðans í Þingvallavatni.

Steingrímur J. Sigfússon: Steingrímur býr við talsverða ólukku. Fyrst ber að nefna þá ólukku að hann hefur sterkar skoðanir sem eru flestar á öndverðum meiði við skoðanir ráðandi valdhafa. Þetta er ólukka sem gerir það að verkum að hann er alltaf á móti öllu. Önnur ólukka heitir Ögmundur Jónasson og er fólgin í því hversu svart og drimmt sá ágæti maður virðist sjá allt. Slíkt tal til lengdar hlýtur að draga fólk niður í bikasvart þunglyndi. Reyndar er það allt í lagi þar sem ráðamenn hafa predikað svo mikla sól að allir skyldu ganga um með sólgleraugu dags daglega, en það er líka til of mikið svartagallsraus. Hin þriðja ólukka Steingríms, og kannski sú stærsta heitir Kolbrún Halldórsdóttir. Ég veit ekki hver fékk þá hugmynd að það væri gæfuríkt að setja þessa konu á þing. Því öfgafyllri einstakling og meiri frekju hef ég vart vitað að væri til. Þar sem hana skorti góð rök, sem er nb. alls ekki alltaf, þá bætir hún upp með yfirgangi, gífuryrðum og hávaða. En greyið hann Steingrímur getur vart losað sig við þessa þriðju og mestu ólukku. Það væri a.m.k. mikil áhætta, því þá missir flokkurinn stuðning öfgafeminazista og annar slíks öfgafólks og alsendis óvíst hvort nægt fylgi kæmi í staðin frá minna öfgafullum einstaklingum. Vinstri-grænir þurfa, hvað sem þeir gera við þingmenn sína, að temja sér mun jákvæðari afstöðu og hætta að vera sífellt bara á móti. Hvernig væri t.d. að koma með nokkrar raunhæfar tillögur til úrbóta ekki bara riðja burtu öllu nýmóðins (allt framleitt eftir 1950) tækjarusli og lifa af sauðkyndinni og fjallagrösum.

Guðjón Arnar Kristjánsson: Þá er komið að flokknum sem er minstur. Frjálslyndir. Sá flokkur hefur alla burði til að verða mikill með tíð og tíma en þá þurfa þeir að gera á sjálfum sér talsverðar breytingar. Reyndar eru þær ekkert svo svakalegar breytingarnar sem þeir þurfa að gera, í raun bara ein og það er að hætta að tengja alla ógæfu íslensku þjóðarinnar við þá staðreynd að við búum við kvótakerfi! Hægri kratinn í sjálfum mér finnur sér mjög sterkan samhljóm meðal málefna frjálslyndra, en aðrir hlutar mínir fá grænar bólur í hvert sinn sem þingmenn floksins heyrast segja, "...já en kvótakerfið..." Addi Kidda Gau og félagar verða að fara og finna sér fleira að tala um en blessað kvótakerfið, þá er kannski kominn raunhæfur möguleiki á öðrum hægriflokk á Íslandi en Sjálfstæðisflokknum (og Framsókn eins og hann er núna).

Jæja þá held ég að allri minni pólitísku gremju hafi verið komið fyrir kattarnef og ég lofa lesendum mínum því að ég skal ekkert vera neitt að fjalla um þá örmu tík neitt í bráð.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.