Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, júní 24, 2003
 
Lang er síðan ég hef látið í mér heyra, en það á sér þær skýringar að ég hef unnið ákaflega upp á síðkastið og ekki komist á netið mikið. Það gerir svo sem ekki mikið til, því ég lýsi því hér með yfir að ég er kominn í sumarfrí í nethiemum. Þeir sem vilja heyra í mér verða því að hringja (ég er í símaskránni) Við heyrumst aftur í haust.

Fleira ekki gert, fundi slitið.






fimmtudagur, júní 05, 2003
 
Þetta er ekki nógu gott. Enginn pistill frá mér í gær! Jæja það á sér svo sem sínar skýringar, ég var nefnilega að vinna í gær, fékk mér smá aukavakt, sem var mjög gott!! (Mig vanhagar nefnilega alltaf um krónur og aura) En ég lét nú eigi þar staðar numið. Ég brunaði nefnilega sem leið lá, alla leið upp í Borgarnes og góðum 20 kílómetrum lengra, heim á ættaróðalið mitt Borgir. Þar skaut ég bílskrjóð mínum inn í skemmu og framleiddi timbur við bremsurnar að framan. Þar voru alveg búnir bremsuklossar að angra minn eðalvagn. En eftir heilan vinnudag og viðgerð (sem tók nokkurn tíma, þrátt fyrir dygga aðstöð föður míns) þá var ég ekki í miklu stuði til þess að rita vefbókarpistil. En í dag er ég í stuði, þrátt fyrir drjúga þreytu. Ég var nefnilega hjá augnlækni fyrr í dag. Við bræðurnir brugðum undir okkur betri fætinum og héldum til höfuðborgarinnar og til að láta athuga sjón okkar. Er skemmst frá því að segja að doksinn taldi mig vera með því sem næst fullkomna sjón og tjáði mér þau gleðitíðindi að hún hefði ekki versnað um svo mikið sem nokkurn skapaðan hlut síðan ég heimsótti hann síðast, fyrir 5 árum. Sem er mjög gott!

Ég brá mér hringinn um Vefbókalendur félaga og vina. Þar eru helstu tíðindin þau að Jóhann 'Skalli' Waage hefur risið úr öskustó og er tekinn til við að ritar hugrenningar sínar af miklum móð á ný. Því ber að fagna, því að missa penna sem Jóa úr Vefbókarheimum er þvílíkur skaðræðisskaði að hætta er á að heimurinn myndi ekki verði samur á eftir. Aðrir voru nokkuð hressi, nema Grámann í Garðshorni sem ekkert hefur ritað síðan á þriðjudag.

Aðrar fréttir eru þær að ný Vefbók hefur bæst í hringinn minn. Það er ung kona sem kallar sig Gribbu. Mikil snilldar manneskja með ótrúlega góðan bókasmekk, en honum er betur lýst á hugasíðunni hennar. Ég mæli með því að fólk kíki þangað inn ef það hefur hug á að létta sér lífið og tilveruna með góðum hlátrasköllum.

Fleira ekki gert, fundi slitið.






þriðjudagur, júní 03, 2003
 
Þriðjudagur til skráningar

Upp er runninn þriðjudagur, ákaflega skýr og fagur, nei reyndar ekki því það er búið að rigna í allan dag allavega síðan 6 í morgunn þegar ég vaknaði. Já gott fólk, ég vaknaði klukkan SEX í morgunn, sprækur og hress. Kom reyndar ekki til af góðu, þar sem ég svaf mikið í gær eftir næturvaktina, en allavega þá rauk ég á lappir og skúraði og þreif kofann. Ég atti nefnilega að gera það á fimmtudaginn síðast liðinn, en hef ekki verið mjög duglegur undanfarið, verið eitthvað slappur og sloj. En dagurinn í dag hefur gengið ágætlega, ég er búinn að skrá mig í Háskóla Íslands og hef þar nám þann 1. september næstkomandi. Það tók ótrúlega stuttan tíma að fá það í gegn, var nú reyndar búinn að gera smá heimavinnu, það er alltaf betra. Ég hyggst leggja stund á Engilsaxnesku til BA (Bachelor of Arts) prófs og stunda vinnu á fullu með skólanum. Ég fékk nefnilega algert ógeð á LÍN þegar ég stundaði háskólanám fyrir um ári síðan, þvílíkt vitleysingahæli! Ég rakst á góðvin minn Árna Þór (ekki sá sami og Guðni læsir inni reglulega á Hrauninu) og spúsu hans, Jóhönnu, vestur í háskóla. Þar voru þau í sömu erindagjörðum og ég, að skrá sig til skólavistar. Reyndar átti Árni að vera búinn að því í janúar og sat því sveittur við samningsgerð. En þar sem stúlkurnar í Nemendaskrá Háskóla Íslands eru nú annálaðar fyrir liðlegheit, þá komst Árni á þriðja ár í læknisfræði. Jóhanna skráði sig í Sálfræði, ég held að hún hefði átt að koma með mér í Ensku, það er miklu skemmtilegra en einhver sálfræðivitleysa.

Fleira ekki gert, fundi slitið.






mánudagur, júní 02, 2003
 
Veður, formúla og ammmmmli

Nú er ég argur, grrrrr. Ég var búinn að skrifa fínan pistil, en helvítis tölvudraslið gleypti hann og lét hann hverfa. Ég hata tölvur! Well so be it then ég skrifa þá bara nýjan.
Ég hef upplifað hið fullkomna veður og það er núna (04:34). Við erum að tala um 12-15 stiga hita, logn, skýjað og þurrt. Ég ELSKA svona veður, það er mitt uppáhald skilurðu!!! Ég heyrði í Ragnari nokkrum Gunnarssyni fyrr í kveld. Það lá nokkuð vel á honum, hann kvartaði reyndar undan elli, sem er ekkert nýtt, því hann er jú eins og alþjóð veit hrumur mjög og gott ef hann er ekki orðinn elliær, heillra 24 vetra. Heyrði líka í Guðna, en hann mátti varla vera að því að tala við mig, hann var að fara að læsa Árna Þór og Kristján Ra. ásamt fleirum inni í klefunum sínum á Hrauninu. Nokkuð gott.

Það var formúlukeppni í dag og það sem meira var, ég sá hana! Ég gerði mér lítið fyrir og vaknaði, morkinn og ógeðslegur, í hádeginu og sá Jóhann Pál frá Mánatröð keyra til sigurs í Mónakó kappakstrinum. Annar varð Kári Rækilegi og fast á stuðara honum kom Mikjáll Skóari á sínum eðal Fjárráði. Mér tókst meira að segja að ná í tæpa hálfa sólskynsstund í auglýsingahléum, með því að hlaupa út og sleikja soldið, sem er mjög gott!

Þennan dag, annan júní, á því herrans ári 1982 gerðist stórmerkilegur atburður í sögu gjörvals mannkyns. Þá leit dagsins ljós í fyrsta sinn, rauðhærð (kastaníubrúnhærð að eigin áliti) stúlkukind. Kom hún jarmandi og organdi í heiminn og er því búin að lifa heilum vetri betur en tvítugi. Ég er að sjálfsögðu að tala um verðandi læknanemann Maríu Kristinsdóttur, góðvin minn. Ég ætla að kíkja til hennar á eftir með pakka.

Fleira ekki gert, fundi slitið (og tölvan verður myrt ef þessi pistill hverfur líka!!!)






sunnudagur, júní 01, 2003
 
Þingholta-Skotta

Ég held að ég hafi heyrt í Þingholta-Skottu fyrr í kvöld. Allavega endurómaði draugalegur kvenhlátur hér um allt hverfið. Í honum var líka nett geðveiki. Ég veit ekki alveg hvað var í gangi, en það var fyndið að sjá viðbrögð allra hundanna. Allir litlu óþolandi þveglarnir (Terrier) sí gjammandi, þeir þögnuðu allir sem einn eða vældu hræðslulega. Mikið hrós á sá snillingur sem hrinti þessum hljóðskúlptúr af stað. Annars hefur kvöldið verið ótrúlega rólegt, miðað við að það er laugardagur og veðrið er gott, ótrúlega fáir á ferli, allavega hér á mínu svæði. Hmm voðalega er ég eitthvað daufur núna, það verður fínt að komast í frí, 7 dagar (vonandi) af góðu fríi, thja nema ég þurf að gera aftur við bílinn minn, hann var í það minnsta farinn að láta e-ð ófriðlega, ég vona að það sé nú ekkert alvarlegt...

Fleira ekki gert, fundi slitið.