Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, nóvember 21, 2004
 
"Í putta mínum pína er, pikkið er að hrjá 'ann. Í sálu minni sýn af þér, smella kossi á'ann."

Þá er viðburðaríkri helgi að ljúka. Einn leikur eftir í dómgæslu og svo, ef nenna finnst, þrif á heimilinu. Hún byrjaði helgin á því að ég brunaði upp í Borgarfjörð, heim að óðalinu. Þar fór fram spreðla-gerð að gömlum og gegnum sið. Ég get ekki beðið eftir að herlegheitin (um 50 kg af kjöti) komi úr reyk og ég get farið að fylla loftið ljúfri angan af soðnum sperðlum með kartöflumús og grænum baunum. Nú áður en sperðla-gerð lauk þá þurfti ég að rjúka suður aftur. Því það var komið að undanúrslitum í Hópbílabikar karla og um leið að árlegri samkomu Körfuboltadómara í tengslum við þá helgi. Leikirnir voru hinir skemmtilegustu og allt fór vel fram. Þó var skelfilegt að líta yfir áhorfendastúkuna, því hún stóð því sem næst auð. Eftir leikina hélt mannskapurinn í bæinn og endust menn þar mis lengi.

Á laugardag þá vaknaði ég tiltölulega sprækur og fór aftur í höllina, nú til að sjá undanúrslitaleiki kvenna og úrslitaleik karla. Hafi fátt verið á föstudeginum þá bergmálaði á kvennaleikjunum því það voru í mesta lagi 50 manns samtals á báðum leikjum. Heldur fjölgaði nú þegar úrslitaleikurinn hófst en betur má ef duga skal. Um kvöldi tölti ég mér á stað sem ég hef aldrei vísiterað áður, nefnilega Breiðfirðingabúð. Þar þjónar fyrir altari (Bakkusar) góð vinkona mín að nafni Hrönn og vegna skorts á góðri mætingu þá áttum við þægilegt kvöldspjall með dægilegu undirspili og jafnvel einum dansi eða svo. (Þ.e.a.s. ég dansaði einn dans en hún fleiri) Nú er runninn upp sunnudagur og ég orðinn andlaus með öllu, ég hlakka þó mikið til morgundagsins en þá byrja ég í nýrri vinnu.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






fimmtudagur, nóvember 18, 2004
 
"Öll þið eflaust þekkið Jóa, hann var útherji..."

Eins og áður hefur komið fram þá er ég körfuboltadómari. Reyndar held ég að ég sé sá eini af þeirri göfugu stétt sem ber það starfsheiti í símaskrá, en þar sem ég get ekki leitað þar eftir starfsheiti þá veit ég það ekki fyrir víst. En hvað um það. Körfubolti er mitt líf og yndi. Ég hef gaman af að spila, dæma, taka statt (tölfræði), skrifa skýrslu nú eða "bara" að vera upp í stúku að horfa. En það sem ég geri hvað mest af, tengdu körfubolta, þessa dagana er að dæma og merkilegt nokk þá hef ég gríðarlega gaman af þeim starfa. Einhvrjum gæti dottið í hug að það væri vegna niðurbældra drotnunarcomplexa, eða vegna hefnigirni í garð hina ýmsu íþróttasveina (jocks) sem gerðu bælda nördinu mér lífið leitt í skóla. Ég skal alveg viðurkenna það að valdi, þessu sem öðru, fylgir ákveðin fróun en þeir sem fylgst hafa með umræðunni um dómara undanfarið, þá sérstaklega þar sem nafnlausir hugleysingar ráða ríkjum, sjá að hefndarþorstinn og drotnunargirndin hljóta að vera á sjúklegu stigi ef menn eru tilbúnir að leggja það á sig að ganga skít upp undir höku, eða jafnvel vel uppfyrir haus, til þess eins að svala þeim. Ég held að slík ganga eigi meira skylt við sjálfspyntingarhvöt en nokkuð annað.

Gagnrýnin, ef hægt er nota svo jákvætt orð um gröftin sem nú vellur víða, sem að dómurum hefur beinst undanfarið getur í mörgum tilfellum á fullan rétt á sér. Dómarar eru jú eingar heilagar beljur sem sitja í fílabeinsturnum og gera aldrei mistök. Við erum menn! Menn eru breyskir og menn gera mistök um það er ekki deilt. Og ég veit af minni eigin reynslu, að dómarar gera mistök í leik, það hef ég gert margoft sjálfur og kem til með að gera fleiri það er óumflýjanlegt! En eins og aðrir menn þá reyni ég helst ekki að detta í sama drullupollinn tvisvar og það er jafnframt staðreynd að með hverjum leik þá verð ég betri sem dómari. Ég fínpússa og slípa til þá hæfileika sem góður dómari þarf til að bera. Hluti af þessu ferli er gagnrýni. Gagnrýni er MJÖG mikilvægur hlutur í námsferli manns, sama hvað maður er að læra. Hvað er yfirferð kennara á prófi annað en gagnrýni, ábending um hvað hafi verið gert rangt og eftir atvikum, hvernig skal gera það rétt. Hvernig lærum við ásættanlega mannlega hegðun? Jú með því að bregðast við kennslu og gagnrýni foreldra, kennara og annara sem á vegi okkar verða, erum mótuð af samfélaginu.

Ég held að flestir geti verið sammála því að samfélagsleg mótun getur mistekist, að meira eða minna leiti. Fólk lendir í slæmum félagsskap, á við félagslega eingangrun að stríða eða býr svo illa að alast upp við aðstæður þar sem neikvæðni og niðurbrot er daglegt brauð. Hver hefur ekki heyrt söguna um litlu stelpuna sem átti ofbeldishneigðan og drykkfeldan föður, mann uppfullan af reiði og biturð sem hann tók út á litlu telpunni sinni. Stelpan óx upp laus við allar jákvæðar myndir af sjálfri sér og lífinu og leitaði því, þegar heimdraganum slepti, aftur í sitt kunnuglega far og fékk sér drykkfeldan og ofbeldishneigðan mann. Eins órökrétt og þetta hljómar þá er þetta samt sem áður staðreynd! Fólk með brotna sjálfsmynd leitar frekar í far þar sem niðurbrotinu er haldið áfram en að leita út úr því. Ástæðurnar fyrir þessu eru margar og flóknar en á leikmannamáli þá leggst málið út á þann veg að viðkomandi telur sig einfaldlega ekki eiga betra skilið!

Nú skal einginn skilja mál mitt svo að dómarar séu litla stúlkan og að nafnlausir skítmokarar séu hinn ofbeldisfulli og drykkhneigði faðir/eiginmaður. Aðstæðurnar eru jú talsvert aðrar og langt frá því að vera sambærilegar nema að einu leiti. Niðurbrot og neikvæð gagnrýni leiðir ALDREI neitt jákvætt af sér! Hvort sem um er að ræða litla stúlku sem lamin er eins og plokkfiskur eða dómara sem rakkaður er niður af nafnlausum heiglum. Mörgum finnst ég ábyggilega vera farinn út í tóma vitleysu í þessum málflutningi. Vissulega, eins og ég tók fram hér ofar, þá er þessu tvennu ekki saman að jafna að neinu leiti hvað varðar alvarleika eða samfélagslega ógn. Ég er aðeins að benda á, hvað niðurbrot, skýtkast, neikvæð gagnrýni, drullusokksháttur og almennt skítlegt eðli í garð einhvers getur haft í för með sér. Ekki svo að segja að nú fari allir dómarar á fullu í dóp og leiti sér að ofbeldishneigðum mökum sem fara illa með þá. Nei okkar aðstæður eru ekki á þeim stærðarskala. Það sem er mun líklegra að gerist er annað af tvennu (samblanda þegar um allan hópinn ræðir).

1. Dómarar fá nóg og hætta, því hver nennir að sitja undir slíkum ógnar skít í öllum sínum störfum!

2. Dómarar halda áfram og vinna undir dylgjum og drullumalli. Þeir missa sjálfstraust og/eða hætta að hlusta á nokkurn mann. Þeir hætta að læra af mistökum sínum og verða lélegri!

Fyrir þá sem halda að síðasta setningin í nr. 2 sé rétt nú þegar, burt séð frá því hver menn halda að orsökin sé, þá vil ég segja eftirfarandi. Ég hef aldrei séð nokkurn hóp manna sem er eins mótiveraður og jafn fullur metnaðar og körfuboltadómarar. Ég veit að það eru margir þarna úti sem ekki trúa mér, og fátt sem ég get sagt til að breyta þeirri skoðun. En sjón er sögu ríkari og við ykkur vil ég segja, kynnið ykkur starf dómara, setjið ykkur í samband við fólk sem þekkir málið, kynnið ykkur hvað fer fram á haustþingum dómara, já mætið þangað sjálf, farið á dómaranámskeið og kynnið ykkur málið af eigin raun. Ég er ekki að segja að allir körfuboltaáhugamenn eigi að gerast dómarar en ég get lofað ykkur því að leikurinn verður ekki leiðinglegri á eftir svona kynningu, thja nema kannski hjá þeim sem fá alla sína ánægju út úr skít, drullu og heigulsskap.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






mánudagur, nóvember 15, 2004
 
"Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér..."

Það lýtur út fyrir það af ítrekaðar fréttir af dauða mínum séu að einhverju leiti ýktar. Ég er ekki allur, en þó mátti ekki miklu muna. Tíminn er sagður afstæður, og er sú fullyrðing súmmeruð upp í jöfnu sem tiltekur að skverað MC jafngildi E. Það getur vel verið að þessi jafna gangi upp (sem hún væntanlega gerir) og það verður að teljast ákaflega líklegt að tíminn sé algerlega afstæður. En hvað sem því öllu líður, þá er nokkuð ljóst að hann er mjög takmörkuð (en stabil) auðlind sem ekki er veitt nægilega vel af. Allavega ekki til mín!

Ég stunda vinnu, svona rétt eins og hver venjulegur íslendingur. Ég vinn mína 10+ tíma á dag, eins og hver annar. Að þeim tíma liðnum þá fer ég í líkamsrækt og eyði þar um 90 mínútum að jafnaði. Svo kem ég heim og elda mér (eða hita bara upp) kvöldmat og snæði hann. Þá er hugsanlegt að komið sé að tómstundum og netflakki eða einhverju öðru slíku. En oftar en ekki þá er hreinlega ekki tími fyrir síðastgreinda liðinn (smá afsökun fyrir bloggskorti undanfarið) því klukkan er orðin það margt að menn eins og ég (sem er ónýtir ef þeir fá ekki sína 7-8 tíma í svefn) eru tilbúnir í bólið.

Helgarnar eru ekki mikið betri. Það verður ekki mikið úr FRÍtímanum sem þá á að bjóðast. Það er dómgæsla, spilamennska, heimsóknir og allskyns annað kvabb sem herjar á mann og gerir það að verkum að gamalt og gott R&R (rest and relaxation - hvíl og aflsöppun upp á ylhýra) er hreinlega bara ekki í boði. Að vísu felst heilmikil hvíld í því að vera ekki að gera það sama og hina 5 daga vikunar, en fyrir bókaorm og sjónvarpsglápara eins og mig þá er málið alls ekki nógu gott. Ég legg því til að klukkustundunum í sólarhringnum verði fjölgað í amk 26, helst 30 og helgin lengd um 1-2 daga, þá er möguleiki að ég komist yfir allt sem ég þarf að gera og jafnvel eitthvað af því sem ég vil gera.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






sunnudagur, nóvember 14, 2004
 
"Ég er kominn heim í heiðardalinn, ég er kominn heim með slitna skó..."

Langt er um liðið síðan ég skeiðaði síðast um þennan völl og frá ýmsu er að segja. Þó er það svo merkilegt að flest af því sem merkilegast getur talist gerðist í gær. S.s. líf mitt hefur farið að mestu leiti eins fram frá því ég reit hér síðast. En í gær þá breyttist það til muna. Í gærmorgun, nánar tiltekið um 09:50 var ég mættur í íþróttahús Vogaskóla ásamt fríðum hópi manna úr starfsstétt þeirri sem ég tilheyri, þ.e. stétt Körfuknattleiksdómara. Stundvíslega klukkan 10:00 hljóp þessi hópur af stað í þrekprófi stéttarinnar sem er ein af forsendum þess að menn fái dæmt á hærri stigum íþróttarinnar hér á landi. Nú skemmst er frá því að segja að allir stóðust prófið með sóma, þar með talinn undirritaður, en þetta er í fyrsta sinn sem ég stenst þetta ágæta próf. Gleði mín var takmarkalítil, enda ég búinn að ná langþráðu markmiði og komin á næsta stig í ferli mínum sem dómari.

Nú þetta eitt og séð hefði dugað til að halda anda mínum í efri hæðum hamingjunar býsna lengi en dagurinn var langt frá því að vera búinn. Því þegar ég var komninn út í bíl og hugðist halda heima að þrekhlaupi loknu þá biðu mín skilaboð frá framkvæmdastjóra Bræðrana Ormson um að hann vildi hitta mig til. Til að gera langa forsögu stutta þá hafði umsókn sem ég sendi inn e-n um e-t starf í gegnum vinnumiðlunina Hagvang, ratað inn á borð hjá Ormson í tengslum við lagerstarf. Ég var búinn að fara í eitt viðtal og nú var s.s. komið að því að sá sem lokasvarið gæfi vildi hitta mig. Ég geng á hans fund stuttu síðar og á u.þ.b. korteri er ég orðinn starfsmaður Bræðrana Ormson og byrja ég þar mánudaginn eftir slétta viku.

Jæja þá er persónulega hluta þessa pistils lokið. Ég var að líta yfir spjallvefinn á vefsvæðinu Sport.is, sem ég geri gjarnan, og þar rakst ég á enn eina umræðuna um erlenda leikmenn og fjölda þeirra o.s.frv. Skoðanir eru æði skiptar um hvernig þessum málum sé best háttað en ég er kominn á þá skoðun að best sé að banna alfarið erlenda leikmenn (þ.e.a.s. ALLA leikmenn sem ekki hafa íslenskan ríkisborgararétt) í öllum deildum og keppnum á vegum KKÍ í nokkur ár. Aðal röksemdin sem mælir með þessu er sú að með þessu móti má leiða að því sterkum líkum að góðum íslenskum leikmönnum fjölgi, leikmönnum sem eru vanir því að vera aðalmennirnir, þeir sem leitað er til þegar þarf að taka af skarið og klára leikinn, sem leitað er til þegar rífa þarf liðið upp úr lægð og koma því aftur á sigurbrautina. Svona leikmenn er hægt að búa til, því þeir urðu til síðast þegar þessi leið var farinn, leikmenn eins og Teitur Örlygsson, Valur Ingimundarson, Sigurður Ingimundarson, Jón Kr. Gíslason og svona mætti lengi áfram telja.

En þá er komið að mótrökunum. Í fyrsta lagi má benda á að við getum ekki skrúfað fyrir innflutning erlendra leikmanna af evrópska efnahagssvæðinu. Þó að við settum reglur þar að lútandi, þá gætu einstök lið (og þau myndu gera það) bara samt ráðið sér bosman og ef sambandi beitti það lið einhverjum viðurlögum þá myndi liðið einfaldlega höfða mál á hendur sambandinu fyrir almennum dómstólum. Sambandið myndi tapa því máli, það er 100% örugt! Svo er reyndar hægt að halda því fram með réttu að fá lið myndu sjálfsagt leggja út í það vesen sem málaferlum fylgir en það er nóg að eitt lið nenni því (t.d. fámennt lið utan af landi sem vantar bæði mannskap og hæfileika til að standa undir væntingum stuðningsmanna) til að allt fari í bál og brand. Í framhaldi af þessu má svo halda því fram að það sé tilgangslaust að banna leikmenn utan EES vegna þess að þá fái menn sér bara Bosmenn í staðinn og ALLIR vita hversu mikið lotterí er að fá góðan Bosmann!

Ég nefndi hér ofar að við hefum fengið marga frábæra leikmenn út úr því að banna útlendinga fyrir nokrum árum síðan og að þeir hefðu fyrst og fremst hagnast á því að þurfa að bera ábyrgðina sjálfir. Gott og vel, en hvernig stendur þá á því að þeir íslensku leikmenn sem komið hafa upp og skarað fram úr þrátt fyrir alla þá útlendingasúpu sem nú er til staðar, eru síst færri og langt frá því að vera verri, leikmenn en þeir sem stóðu uppúr á útlendingaleysistímum? Í þessu sambandi má nefna leikmenn eins og Jón Arnór Stefánsson, Loga Gunnarsson, Hlyn Bæringsson, Pál Kristinsson, Pál Axel Vilbergsson, Magnús Gunnarsson o.flr. o.flr. o.flr. Það skyldi þó aldrei vera að menn gætu risið jafn hátt þrátt fyrir alla útlendingana?

Fleira ekki gjört, fundi slitið.