Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, nóvember 07, 2006
 
"...ég sagði; vilt' ekki byrja með mér?..."

Ég vil helst ekki hallmæla neinum, var betur alinn upp en svo, en Amerískt slúðursjónvarp er hlutur sem ég get ekki með nokkru móti haft nokkrar jákvæðar hneigðir til. Á Sirkus eru einhverjir (einn eða fleiri) slíkir þættir, þ.á.m. einn sem heitir "The Insider" og hafa þeir víst verið að fjalla um, í ótrúlega miklum og nánum smáatriðum án þess þó að segja nokkuð (eins og Amerískra er siður), Önnu Nicole Smith. Ég geri bara ráð fyrir því að flestir viti hvur konan er. Hún hefur lent í ýmsu um æfina, blessuð stúlkan, er t.d. nýbúin að missa son sinn. Allavega þessi þáttur hefur verið að velta sér uppúr hennar málum í á annan mánuð. Ég veit þetta því ég hef slystast til að hafa sjónvarpið stilt á Sirkus endrum og eins og hef þá æfinlega rambað á Innanbúðarmanninn.

Allavega Anna hefur verið tíður gestur í þættinum, án þess þó að hafa talað þar við nokkurn mann, en nú í kvöld þá voru þeir að auglýsa þátt morgundagsins. Og viti menn þar verður loksins Anna sjálf að ræða um allan skítinn sem þeir eru búinir að vera að grafa upp um hana. Ég veit að fólk sem þjáist af "Hollywood heilkenninu" eru með sýniþörf á mjög óeðlilegu stigi en myndi maður láta sér detta það í hug að fara í viðtal hjá þætti sem búinn er að maka mann aur? Ég held ekki. Svo er Önnu greyinu enginn greiði gerður með því að láta hana koma fram opinberlega, stúlkan er í þvílíkri dópneyslu (skv. þættinum og ef marka má útlit hennar þá eru þeir að hitta naglann á höfuðið með þá sögu) að hún er óskýrmæltari en Megas!

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






sunnudagur, nóvember 05, 2006
 
"...fyrir hugskotsjónum rúlluðu allar gullnu plöturnar..."

Ég er einn af þeim mönnum sem fæ þúsundir nýrra hugmynda á degi hverjum. Margar eru góðar, sumar jafnvel frábærar og enn aðrar ekki nokkurs virði. Mjög margar þeirra hafa með texta að gera, texta sem gæti vel átt heima á þessari síðu, nú eða sem einhver hluti af sögu. Hinnsvegar þá ratar ekki nema brotabrot af þessum hugmyndum mínum í fast form. Flestar flögra á braut á sömu iðnum vængjum og sama hraða og þær flögruðu inn í höfuðið á mér. Mér þykir það mjög miður því ég veit ekki hversu mörg ódauðleg verk ég hef samið í höfðinu sem síðan hafa gufað upp og orðið að aungvu. Ég tel mig þó vita hvað ég þarf að gera til að bæta ástandið. Að skrifa niður hugmyndirnar er ágætis byrjun en fyrst og fremst þá þarf minn svírasveri afturendi að sitja oftar við tölvuskríflið í þeim tilgangi að rita.

Ég er að vonast til þess að geta farið að dæma í lok mánaðarins. Fór í ræktina í dag og gekk svona líka glymrandi vel og fann ekki nokkurn verk. Fylltist óhemju bjartsýni og íhugaði að hringja strax í dómaranefnd og melda mig til starfa. Lét það þó ógert. Hyggst býða næsta fundar við þokkafullan sjúkraþjálfara og huga að því hvað hún segir um hvort ég er tilbúinn eður ei. Fæ að njóta samvista við hana á fimmtudaginn.

Ég var í Finnlandi í sumar að víster slóðir þær er Hrönn, mín ágæta vinstúlka, bjó á þá við fyrst kynntumst. Ég dvaldi þar í rúma viku í góðu yfirlæti á heimili ástmögurs hennar Johnny (lesist Jonni) og naut hinnar rómuðu Finnsku gestristni og leiðsagnar Hrannar um svæðið. Launaði fyrir mig að einvherju leiti í kvöld. Bauð þeim skötuhjúm, sem nú búa á Fróni, til snæðings á Austur Indíafjelaginu. Maturinn var mjög góður, en full bragðsterkur, svo eigi sé fastar að orði kveðið. Jógúrtdrykkurinn og ísinn voru þó að gera magnað mót. Ég stend nú (þó ég sitji) á svo ógurlegu blýstri að ég verð í margar vikur að ná mér af snæðingnum.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.