Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
fimmtudagur, maí 17, 2007
 
"Rigninginn skellur á malbikið, það er haust."

Uppstigningadagur er í dag. Það er dagurinn sem Kristur steig aftur upp til himna, ef marka má hina einu sönnu "The Worlds Number One Best Seller" Biblíuna. Að vísu var það ekki á nákvæmlega þessum degi, því hann er reiknaður út miðað við hvenær páskarnir eru og þeirra staðsetning í dagatalinu miðast við einhverja reglu sem ég kann ekki skil á. Í Skandinavíu heitir þessi dagur "Kristis Himmelfartsdag" (með fyrirvara um stafsetningu, sem er án efa ekki kórrétt) eða Himnaferðadagur Krists. Ákaflega skemmtileg og ekta skandinavísk nafngift. Að sama skapi er Uppstigningardagur ákaflega íslensk nafngift, yfir nafninu er ákveðin virðing og upphefð í bland við temmilegan helgiblæ. Að sama skapi er "Himnaferðadagur" eitthvað sem í mín eyru hljómar eins og Færeyska, s.s. blanda af dönsku og íslensku.

Fyrir mér er dagurinn einn af þessum "óhentugu" fimmtudagsfrídögum. Af hverju í ósköpunum eru þeir (2 eða 3 á ári?) ekki færðir á föstudaga. Ég held að "helgi" þessara daga sé ekki slík að menn kippi sér mikið upp við það þó þeir væru færðir á föstudaga. Enda er ekki um fasta dagsetningar að ræða, heldur einhverja reiknireglu sem segir að xti fimmtudagur sé þessi tiltekni helgidagur. Einhverjir hafa líka viljað færa daga eins og 1. maí og jafnvel 17. júní á föstudag eða mánudag. Það er ákaflega heimskulegt. Því þessir dagar eru á fastri dagsetningu. Hins vegar má alveg færa fyrir því rök að "Baráttudagur verkalíðsins", sem nú er 1. maí, geti alveg átt heima sem t.d. fyrsti föstudagur eða mánudagur í maí, en ekki endilega sá 1.

Allavega þá hef ég eitt þessum frídegi mínum, hingað til, í að bregða mér í Smáralindina þar sem ég nýtti 10.000 króna gjafabréf sem mér áskotnaðist á árhsátíð Ormsson í mars sl. Keypti mér nýjan online leik, sem heitir Lord of the Rings - Shadows of Angmar. Hann er að hlaðast inn hjá mér í þessum skrifuðu orðum. Ég hlakka til að prufa. Ég keypti mér líka 3 diska. Íslensk tónlist í hæsta gæðaflokki. Mugimama is this monkeymusic með Mugison, Please don't hate me með Lay Low og Hver er sinnar kæfu smiður sem er safnplata bestu laga Þórhalls Sigurðssonar, Ladda. Allt saman gæða efni. En Hringadróttinn bíður...

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






sunnudagur, maí 13, 2007
 
"...stuð að eilífu..."

Jæja þá er sveitavistinni lokið í bili og ég kominn heim. Fór í ágætt afmælis-, Eurovision og kostningapartý hjá Kára og Gunni á laugardag. Og gleymdi að kíkja á elskulega systur mína, Margréti, þar sem hún söng, lista vel er ég viss um, í Hallgrímskirkju. Fyrirgefðu Margrét mín! Aftur að partýinu. Þar var margt góðra manna, meira að segja Guðni lét sjá sig, sem gerist nú ekki nema einu sinni á bláu tungli. Fólk drakk mis mikið og menn voru mis hressir. Þó héldust nú flestir að fram eftir nóttu. Sjálfur var ég kominn heim um 3, ef minnið svíkur ekki og sat yfir kostningasjónvarpinu til að verða 8, þegar svefnin sigraði mig. Ákaflega spennandi allt saman. Þótti það miður að Ómar komst ekki að og líka að ríkisstjórnin hélt velli. En það er nú ekki öll nótt úti enn.

Fór í kvöld og hitti Hjalla, Jónsa og Sibba. Það var í einu orði sagt, ógnar stuð! Við Hjalli og Sibbi fengum okkur snæðing á Shalimar. Get mælt með matnum, ógnar góður, sterkur en soldið dýr. Allavega fannst mér það, en ég er svo sem ekki dómbær á það. Svo hittum við Jónsa á Q-bar, sem hét áður Ari í Ögri. Settum niður yfir kaffibolla (þeir, ekki ég, er gikkur á kaffi eins og allir vita) og kjöftuðum og hlógum eins og vitlausir menn. Mesta snildin var nú samt þegar við uppgötvuðum að staðurinn er gay-bar. Þá fór um suma, okkur hinum til mikillar gleði. Langt síðan ég hef hlegið svona mikið. Vinna hefst aftur á morgun, hlakka til að hitta liðið aftur.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






miðvikudagur, maí 09, 2007
 
"Ég bý í sveit, á sauðfé á beit og sællegar kýr út' á túni..."

Einhverntíman var sagt að fátt væri ungum börnum hollara en að missa föður sinn, nema ef til vill að missa móður sína. Veit ekki alveg, en hitt veit ég þó að það er ungum börnum meinholt að vera í sveit. Ég dvaldi í nokkur sumur í sveit, á þrem bæjum alls og bý ég að því vel og lengi. Þó einna mest að hafa kynnst langömmu minni heitinni, Dóru á Brúarlandi og Gústa frænda mínum heitnum, en hjá þeim mæðginum dvaldi ég í samtals um 3 sumur. Ég stóð mig nefnilega að því þegar ég mætti á Ferjubakka og tók til við bústörfin, að hugsa með mér: "Hvernig hefði Gústi frændi haft þetta?" Það hlýtur að tákna að hann hafi skilið eftir varanleg spor hjá mér, allavega hvað varðar sveitastörf. En aftur að börnunum. Fyrir þá sem ekki vita, þá eiga systir mín og hennar ekta Sveinn 3 börn, 7, 3 og 1 1/2 árs. Þau eru býsna dugleg við að vera úti, sérstaklega þó sá elsti, hann Binni. Hann er mikill bóndi og kemur mér stöðugt á óvart með vitneskju sinni á flest öllu sem snertir búið. Hann þekkir rollurnar og markið, þekkir flest öll örnefni, veit hvar flest er, eða hvar það á að vera amk. (En þar sem hann er bara 7 þá man hann ekki alltaf hvar hann skildi við hlutina síðast, þó hann viti vel hvar þeir eiga að vera). Í dag var vinur hans í heimsókn. Kom með honum úr skólanum og þeir voru úti frá rúmlega tvö til rúmlega 6. Vildu ólmir hjálpa mér við að rífa niður girðingu, en þegar það hentaði ekki, þá fundu þeir sér bara annað við að vera. Enda fór svo að um leið og kvöldmat lauk, vinurinn farinn heim, þá lagðist minn maður inn í hol og var sofnaður á 2 mínútum sléttum. Nýtt persónlegt met!

Þó ég hafi átt mjög góða æsku í mínu Borgarnesi, þá hef ég oft velt því fyrir mér hvort ekki hafi verið gaman að alast upp í sveit. Ég er af sveitafólki kominn í báðar ætti langt aftur í rassgat, allt aftur til Brund-Bjálfa, föður Kveldúlfs þess sem rak að landi í líkkistu sinni í Borgarvogi. Ég náði reyndar að búa í sveit í heil 2 ár, frá því að foreldrar mínir keyptu Borgir og þar til ég flutti á mölina, en þar sem þar var lítill búskapur (mest hobbymenska föður míns) og ég í fullri vinnu í Borgarnesi, þá var það ekki eins. Enda ég náttúrulega orðinn 20 ára þegar þangað var flutt. Svo hafði ég kannski ekki þá eins mikin áhuga á sveit og áður. Veit ekki alveg hvort sá áhugi er kominn aftur, ég hlakka allavega til að komast heim til mín í höfuðborgina, en hef átt 2 góðar vikur hér og hlakka til að eiga aðrar tvær í júní.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






mánudagur, maí 07, 2007
 
"Hann sagði: Ú, Í, Ú, A, A, tíng, teng, valla valla bing bang"

Vika liðin af sveitarómans og þótt veðurguðirnir hafi ekki verið að sýna allar sínar bestu hliðar (sem hefur m.a. leitt af sér nýjan skammt af kvefi hjá undirrituðum) þá heldur lífið áfram að kvikna. Báru tvær á föstudaginn, önnur tvílembd og hin einlembd, og ein í gær, einlembd. Þegar þetta er ritað þá er ein mætt á fæðingardeildina og á hún von á sér hvað úr hverju. Á laugardaginn hygg ég á heimferð og ætlar familíjan á Bakka að skella sér í höfuðborgina á sama tíma og skutla mér heim. Þá geri ég ráð fyrir að vístera vin minn Kára og hans spúsu Gunni um kvöldið og fagna Eurovision og kostningum (já eða drekkja sorgum mínum, eftir því hvernig keppnirnar fara). Svo ætla ég náttúrulega að nota mikilvægasta rétt manna í líðræðisríki og kjósa.

Er búinn að komast að því að ég bý í Reykjavíkurkjördæmi Suður og er meira að segja búinn að finna út úr því hvar ég á að kjósa. Þá er einungis eftir að merkja við á seðilinn, sem er oft mjög erfið ákvörðun en ég er fyrir margt löngu búinn að gera upp hug minn. Ég er þannig þenkjandi (og hef alltaf verið) að mitt atkvæði ræðst einna helst af því hverjir skipa listana í mínu kjördæmi. Þar er um marga ágæta einstaklinga að ræða.

Hjá Framsókn er Jónína Bjartmarz í fararbroddi, kona sem ég hef hingað til borið töluverða virðingu fyrir og mér þykir hún hafa sýnt staðfestu í að fylgja sannfæringu sinni án þess þó að mála sig út í horn í sínum flokki. Góður diplómat þar á ferð. Fjaðrafokið um ríkisborgararétt tilvonandi tengdadóttur hennar hefur þó sett smá blett á. Aðra á listanum þekki ég lítið sem ekkert og ekki eru miklar líkur á því að þeir komist að svo þeirra vægi er lítið hjá mér.

Lista Sjálfstæðistmanna leiðir formaðurinn Geir Haarde. Þó mér hafi hugnast lítt margt af því sem þeir hafa gert og ýmsar þeirra skoðannir, þá get ég ekki mælt á móti því að Geir býður af sér gríðarlega góðan þokka. Hann hefur unnið að því hörðum höndum að má "Davíð slikjuna" af flokknum og hann virkar traustur, ákveðinn og fylginn sér. Næstu er Björn Bjarnason sem er maður lítt að mínu skapi. Sérstaklega þykir mér "hernaðarbrölt" hans lítið sniðugt en hann hefur það með sér að hann tók sér tíma í að svara mér, þegar ég sendi honum tölvupóst fyrir nokkrum árum þegar hann var menntamálaráðherra, eitthvað sem ekki allir hefðu gert. Illugi Gunnarsson er þriðji, hann þekki ég lítið en það litla sem ég þó hef séð til hans er alls ekki slæmt.

Efsti maður Frjálslyndra er Jón Magnússon. Málflutningur hans um innflytjendur dæmir sig sjálfur, þó vissulega sé það okkur mjög hollt að ræða málefni þeirra, bæði hvað betur má fara í móttöku þeirra og hversu marga við viljum fá til landsins. En hann hefur alið á hræðslu og margt sem hann hefur sagt dansar línudans á fordómalínunni. Aðrir á listanum skipta aungvu máli, komast aldrei að.

Samfylkinguna leiðir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður þess ágæta flokkst. Hún er kjarorkukvendi sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Ég heyrði umræður í útvarpinu þar sem allir formenn flokkanna voru saman komnir og fannst mér hún koma einna besta út þar. Fumlaus og föst á sínu, án þess þó að fara út í eitthvað skítkast eins og ýmsir gerðu. Það er samt eitthvað við hana sem gerir það að verkum að hún fellur mér ekki alveg nógu vel í geð. Hugsanlega ræður þar kratahatrið sem alið var á í mínu ungdæmi. Aðrir á listanum eru mér lítið þekktir, nema þá kannski helst Mörður Árnason, sem sér til frægðar hefur það helst unnið sér í mínum bókum, að hafa verið í ritstjórn íslenskrar orðabókar, sem er ein mín uppáhalds bók.

Lista Vinstri Grænna leiðir Kolbrún Halldórsdóttir. Nú verð ég að gæta mín, því ég hef svo illa bifur á þessari konu að hugsanlega gæti ég átt yfir höfði mér málshöfðun um meiðyrði ef ég sleppi fram af mér beislinu. Læt mér nægja að segja að ég muni fyrr dauður liggja en að veita henni atkvæði mitt. Sem er reyndar miður því að á þriðja sæti listans er gömul bekkjasystir mín úr grunnskóla, Auður Lilja Erlingsdóttir, sem ég myndi gjarnan vilja kjósa því ég hef mikið álit á henni og væri alveg til í að hjálpa til við að koma henni á þing.

Efsti maður Íslandshreyfingarinnar er Ómar Ragnarsson. Hér þarf ég líka að passa mig, því jákvæðar skoðannir mínar á honum eru jafnvel sterkari en neikvæðar skoðanir mínar á Kolbrúnu Halldórsdóttur. Ég hef verið mikill aðdáandi Ómars síðan ég man eftir mér. Ég hlustaði með andakt á plöturnar hans þegar ég var polli, þar sem ég lá á stofugólfinu hjá ömmu og dundaði mér við spilamennsku eða að byggja spilaborgir. Ég geri það enn og syng með hástöfum eins og minn góði vinur Hjálmar hefur oft minnt mig á. En hann hlaut þá blessun að vakna upp við fagran óm raddar minnar, þegar við bjuggum saman, þar sem pakkaði inn jólagjöfum og söng með Gáttaþef. Ekki síðri virðingu hefur hann öðlast hjá mér í störfum sínum sem fréttamaður og þó mér hefði þótt hann mega koma fyrr "út úr skápnum" með skoðanir sínar á Kárahnjúkavirkjun og þeim náttúruspjöllum öllum þá gat ég ekki annað en virt hann fyrir það og hveru vel honum tókst að halda hlutleysi sínu í fréttaflutningi fram "opinberuni". Ég er líka kominn með nóg af stóryðjubrölti, þó ég get vel viðurkennt að álverið á Reyðarfirði virðist hafa gert margt gott fyrir austurlandið og vonandi gerir það áfram. Ég hef líka lengi verið þeirrar skoðunnar að við eigum að hyggja hátækniiðnaði, höfum eitt hæsta menntastig á bygðu bóli og eigum að notfæra okkur það í iðnaði sem nýtir auðlindirnar okkar á hreinlegri og arðbærari hátt en stóriðjan gerir. Ég á ekki von á því að fleiri komist á þing af þessum lista en Ómar, því fjalla ég ekki um þá, enda flest það fólk mér alls ókunnungt.

S.s. þetta eru valkostirnir og ég held að flestir ættu að geta ráðið hvar Xið mitt lendir á laugardag og ég veit að ýmsir telja að þar með sé ég að henda atkvæði mínu á glæ og að það falli dautt. Slíkur málflutningur þykir mér í hæsta máta vafasamur, því þótt ég geri mér fulla grein fyrir því að líkurnar séu hugsanlega ekki miklar á því að það skili manni á þing, þá eru mun meiri líkur á því ef ég greiði atkvæði en ef ég geri það ekki. Svo finnst mér það heimskulegt að halda því fram að atkvæði geri einungis gagn ef það er greitt flokkum sem eru tiltölulega öruggir með að koma mönnum að. Ég er að tjá skoðun mína og geri það heyrinkunnugt að til þess að ná mínum atkvæði þurfi menn að huga að þeim málum sem þeir sem ég kýs eru að leggja áherslu á. Og hugsanlega að tefla fram því fólki sem ég kýs, fáist það til þess á annað borð.

Ég verð líka að minnast aðeins á eina af auglýsingum framsóknarmanna. Hún fjallar um rauða kallinn sem segir stopp. Mynd birtist líka af rauða kallinum og honum svipar sterklega til Steingríms Sigfússonar. Þessi auglýsing er farinn að gæla við persónlegu skítkasts auglýsingarnar sem tíðkast víða annarsstaðar, helst í Ameríku. Mér fellur þetta ekki. Önnur ástæða til að kjósa ekki framsókn.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






miðvikudagur, maí 02, 2007
 
Upp' í sveit, upp' í sveit, ég á eina glæsilega upp' í sveit!

Búinn að vera tvo daga í sveitinni, það er eitthvað svo yndislegt við að vakna með fuglasöng í eyrum, gulgrænar engjar fyrir augum og ilmandi skítalykt sem leikur við lyktarskynið, I love it!

Við systkynin erum svo gott sem búin að ormahreinsa og bólusetja, tvær eftir sem sluppu okkur úr greipum í dag, önnur þeirra hóf sig til flugs og sveif í þokkafullum boga yfir bæði mig og grindina, frelsinu fegin. Í gær ákvað Sveinn bóndi að vinna á timburmönnunum með því að vinna dálítið í timbri. Hlöðugólfið rifið upp og útbúið nýtt. Bretti sem liggja á leiðurum og holrúm undir, en planið er (einhverntíman, vonandi, kannski) að hafa bagga þarna inni og þá er víst betra að loftað geti undið þá svo ekki taki að hitna í öllu saman. Fjórar rúllur settar inn og nýja gólfið hélt, alla vega í bili. Enn sem komið er sef ég á svefnsófa í stofunni, en herbergið sem ég á að brúka er að taka á sig mynd. Veggfóðrið rifi niður í gær og vonandi málað í dag. Þá er fátt eftir en að henda út ruslinu og húsgögnunum inn, málið dautt!

Ég sá Jay Leno í gær, hann var hinn hressasti að vanda. Conan O'Brien var fyrri gesturinn en sá seinni var Ungfrú Bandaríkin 1944, sem núna býr ein á sjötíu hektara býli í Kentucky og ræktar þar tré. Hún hafði unnið sér það til frægðar að hafa ein síns liðs, 82 ára gömul og styðst við göngugrind, handsamað þjófa á landareign sinni. Lýsingarnar hjá henni af atburðinum voru stórkostlegar, sérstaklega þegar hún fór út á veg til að stoppa bíl, svo hún gæti látið hringja á lögguna. Lögreglan fékk víst einhvurjar tilkynningar um snargalna kerlingu, sem stóð úti á vegi veifandi haglabyssu. Leno spurði hana líka um hvað henni fyndist um Georg Runna. "Hann er ofdekraður, ríkur stráklingur sem þarfnast þess helst að fá duglega rassskellingu." Svo mörg voru orð Venus Ramey, bónda og fegurðardrottningar.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






mánudagur, apríl 30, 2007
 
...draumana eigum við, það verður bið, smá bið, en einhverntíman...

Svo bregðast krosstré sem önnur og hingað læðist inn ein og ein færsla. Ég hef fengið ýmsar áskorannir og hef verið væskill kallaður af systur minni en við slíkt er ekki hægt að una. Þó er það nú ekki aðalástæðan fyrir skeiði mínu út á ritvöllin að nýju. Ég hygg á skólavist í haust í Háskóla Íslands. Þar ætla ég að nema Enska tungu og þarf því að æfa ritfimi mína. Að vísu ætla ég mér ekki að breyta hér um tungumál heldur kýs ég að halda mér í ritæfingu í bili á íslensku, hinu ástkæra, ylhýra máli voru. En að öðru.

Körfuboltavertíðinni er lokið, var reyndar styttri hjá mér en áður því ég þjáðist af hnéeymslum fram yfir áramót og dæmdi því ekki fyrri helming mótsins. Nú á laugardaginn var, héldum við körfuboltafólk landsins lokahóf, það tókst með miklum ágætum og menn og konur skemmtu sér hið besta, ég þar á meðal. Gríðarlega góður endir á góðu tímabili. En nú er komið að nýjum áskorunum.

Sú fyrsta er að næstu tvær vikur, á meðan ég er í sumarfríi, þá verð ég vinnumaður á Ferjubakka hjá systur minni og mági. Svo aðrar tvær í júní. Ég hef ekki verið í sveit síðan á síðustu öld, þá meina ég í vinnumennsku. Get ekki sagt annað en að ég hlakki til að takast á við verkefnið, þó fríið sé kannski ekki mikið í hefðbundum skilningi þá er tilbreytingin gífurleg og kannski mesta hvíldin í því fólgin.

Næsta er sú að koma mér í betra líkamlegt form í sumar. 10 kíló þyrftu að fjúka og þrek og þol að aukast. Ég þarf líka að halda áfram að koma mínu auma hné í betra ástand en þó hefur það verið í ágætu standi undanfarið en betur má ef duga skal.

Sú síðasta en ekki sísta er að standa mig í skólanum en það eru ca. 4 ár síðan ég reyndi síðast að nema eitthvað á hefðbundin hátt, svo viðbrigðin verða talsverð.

Þannig að það verður nóg um að hugsa í sumar hjá mér og undir nógu að standa.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






þriðjudagur, nóvember 07, 2006
 
"...ég sagði; vilt' ekki byrja með mér?..."

Ég vil helst ekki hallmæla neinum, var betur alinn upp en svo, en Amerískt slúðursjónvarp er hlutur sem ég get ekki með nokkru móti haft nokkrar jákvæðar hneigðir til. Á Sirkus eru einhverjir (einn eða fleiri) slíkir þættir, þ.á.m. einn sem heitir "The Insider" og hafa þeir víst verið að fjalla um, í ótrúlega miklum og nánum smáatriðum án þess þó að segja nokkuð (eins og Amerískra er siður), Önnu Nicole Smith. Ég geri bara ráð fyrir því að flestir viti hvur konan er. Hún hefur lent í ýmsu um æfina, blessuð stúlkan, er t.d. nýbúin að missa son sinn. Allavega þessi þáttur hefur verið að velta sér uppúr hennar málum í á annan mánuð. Ég veit þetta því ég hef slystast til að hafa sjónvarpið stilt á Sirkus endrum og eins og hef þá æfinlega rambað á Innanbúðarmanninn.

Allavega Anna hefur verið tíður gestur í þættinum, án þess þó að hafa talað þar við nokkurn mann, en nú í kvöld þá voru þeir að auglýsa þátt morgundagsins. Og viti menn þar verður loksins Anna sjálf að ræða um allan skítinn sem þeir eru búinir að vera að grafa upp um hana. Ég veit að fólk sem þjáist af "Hollywood heilkenninu" eru með sýniþörf á mjög óeðlilegu stigi en myndi maður láta sér detta það í hug að fara í viðtal hjá þætti sem búinn er að maka mann aur? Ég held ekki. Svo er Önnu greyinu enginn greiði gerður með því að láta hana koma fram opinberlega, stúlkan er í þvílíkri dópneyslu (skv. þættinum og ef marka má útlit hennar þá eru þeir að hitta naglann á höfuðið með þá sögu) að hún er óskýrmæltari en Megas!

Fleira ekki gjört, fundi slitið.