Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, maí 09, 2007
 
"Ég bý í sveit, á sauðfé á beit og sællegar kýr út' á túni..."

Einhverntíman var sagt að fátt væri ungum börnum hollara en að missa föður sinn, nema ef til vill að missa móður sína. Veit ekki alveg, en hitt veit ég þó að það er ungum börnum meinholt að vera í sveit. Ég dvaldi í nokkur sumur í sveit, á þrem bæjum alls og bý ég að því vel og lengi. Þó einna mest að hafa kynnst langömmu minni heitinni, Dóru á Brúarlandi og Gústa frænda mínum heitnum, en hjá þeim mæðginum dvaldi ég í samtals um 3 sumur. Ég stóð mig nefnilega að því þegar ég mætti á Ferjubakka og tók til við bústörfin, að hugsa með mér: "Hvernig hefði Gústi frændi haft þetta?" Það hlýtur að tákna að hann hafi skilið eftir varanleg spor hjá mér, allavega hvað varðar sveitastörf. En aftur að börnunum. Fyrir þá sem ekki vita, þá eiga systir mín og hennar ekta Sveinn 3 börn, 7, 3 og 1 1/2 árs. Þau eru býsna dugleg við að vera úti, sérstaklega þó sá elsti, hann Binni. Hann er mikill bóndi og kemur mér stöðugt á óvart með vitneskju sinni á flest öllu sem snertir búið. Hann þekkir rollurnar og markið, þekkir flest öll örnefni, veit hvar flest er, eða hvar það á að vera amk. (En þar sem hann er bara 7 þá man hann ekki alltaf hvar hann skildi við hlutina síðast, þó hann viti vel hvar þeir eiga að vera). Í dag var vinur hans í heimsókn. Kom með honum úr skólanum og þeir voru úti frá rúmlega tvö til rúmlega 6. Vildu ólmir hjálpa mér við að rífa niður girðingu, en þegar það hentaði ekki, þá fundu þeir sér bara annað við að vera. Enda fór svo að um leið og kvöldmat lauk, vinurinn farinn heim, þá lagðist minn maður inn í hol og var sofnaður á 2 mínútum sléttum. Nýtt persónlegt met!

Þó ég hafi átt mjög góða æsku í mínu Borgarnesi, þá hef ég oft velt því fyrir mér hvort ekki hafi verið gaman að alast upp í sveit. Ég er af sveitafólki kominn í báðar ætti langt aftur í rassgat, allt aftur til Brund-Bjálfa, föður Kveldúlfs þess sem rak að landi í líkkistu sinni í Borgarvogi. Ég náði reyndar að búa í sveit í heil 2 ár, frá því að foreldrar mínir keyptu Borgir og þar til ég flutti á mölina, en þar sem þar var lítill búskapur (mest hobbymenska föður míns) og ég í fullri vinnu í Borgarnesi, þá var það ekki eins. Enda ég náttúrulega orðinn 20 ára þegar þangað var flutt. Svo hafði ég kannski ekki þá eins mikin áhuga á sveit og áður. Veit ekki alveg hvort sá áhugi er kominn aftur, ég hlakka allavega til að komast heim til mín í höfuðborgina, en hef átt 2 góðar vikur hér og hlakka til að eiga aðrar tvær í júní.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.