Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, ágúst 16, 2005
 
"I cut myself today, to see if I still bleed"

Fyrir þá sem ekki vita þá er ég nýfluttur í nýjar vistarverur. Þær ku vera í minni eign að 100%, en sá böggull fylgir þó skammrifi að ég sjálfur er ekki lengur í minni eigu. Hlutabréf í mér hafa verið boðin almenningi til kaups og mun ágæt bankastofnun hafa keypt í mér rúm 80% á príðilegu gengi, sem leiðir af sér að hún hefur meirihluta atkvæða á hluthafafundi og skipar stjórn í hlutafélaginu Konráð B. Eignarhaldsfélag ehf. En í áðurnefndri vistarveru var ég við framkvæmdir þá vinnudegi lauk í gær, í sjálfu sér vart í frásögur færandi, margt þarf jú að brasa við tímamót sem þessi. Ég varð þó fyrir fjörtjóni í atferli mínu, þar ég brá kuta á loft og hugðist skera. Kutadjöfull skrapp til undan ógnvænlegu afli mínu og á hol mér. Ekki svo að skilja að ég riti nú af dánarbeði á sjúkrastofnun, því lagið var eigi lífshættulegt, en ég setti eggina djúpt í fingur mér. Nánar tiltekið í vísifingur vinstri handar. Svo núna hef ég löggilta afsökun fyrir því að benda á allt og alla, athöfn sem í minni sveit taldist til dónaskapar, því lagið kom á ofanverða kjúku og því stendur fingurinn út í loft sem aldrei fyrr.

Eftir að hafa hoppað eins og óð hæna og óað og æjað og barmað mér í hvívetna, þá kom að því að ég hugðist gera að sárum vorum. Þá voru góð ráð dýr, því fátt var um sáraumbúðir. En með alþekktri útsjónarsemi og snilli minni þá átti ég til hvorutveggja, salerniseyðublöð (óútfyllt) og hálfa rúllu af ísóleringabandi (besta vini hvers rafvirkja og heimafúskara). Með þessar nauðsynjar að vopni batt ég um svöðursárið og hélt svo framkvæmdum afram sem ekkert hefði í skorist. (Hér mega lesendur dást að hörku minni og karlmennsku). Reyndar hafði ég vit á því að setja árasartólið aftur djúpt í vasa minn og snerta ekki á því meir þetta kveldið.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.