Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, febrúar 05, 2005
 
"Á Spáni er gott að djamma og djúsa, diskótekunum á, JÁ!"

Veðrið í morgun kom mér ákaflega spánski fyrir sjónir. Það var eitthvað svo, svo, svo gott! Ég held bara að ég hafi ekki upplifað svona "gott" veður síðan í frosthörkunum fyrr í vetur. Blanka logn (sem er nauðsynlegt til að veður sé gott!) og smá snjóföl yfir láði. Ég stefni ótrauður á að fá mér, í fyrsta sinn í langan tíma, göngutúr í góða veðrinu. Stefni út á lopapeysu og síðum, þó ekki einum fata.

Ég komst að lokum til Akureyrar og naut þar gestrisni og góðs félagsskapar meistara Davíðs Hreiðarssonar. Við dæmdum hörkuskemmtilegan og spennandi leik Þórs og KR í 8 liða úrslitum bikarkeppni drengjaflokks. Leikar fóru að lokum þannig að KR sigraði. Í kveld eru allar líkur á því að borið geti á ölvun. Minn heittelskaði yngissveinn, Guðni Eiríkur Guðmundsson hyggst halda upp á öll árin sín 26. En þau lögðust á hann á fimmtudaginn var. Mig er strax farið að hlakka til að ná þessari tölu sjálfur, enda fátt meira spennandi en að verða árinu eldri. Fátt er svo með öllu gott að ey boði illt, eins og einhver sagði. Ég verð nefnilega af árlegu þorrablóti Tungnamanna sem verður haldið í kveld, en sá á kvölina sem á völina nema hann eigi hvortveggja þá fær hann bæði!

Jæja kominn tími á að auka súrefnismagn líkamans og koma blóðinu á hreyfingu, bið að heilsa ömmu og sendið allar þær hjálparsveitir sem heita mannsnöfnum út að leita ef ég verð ekki mættur í teitið klukkan átta í kveld!

Fleira ekki gjört, fundi slitið.






miðvikudagur, febrúar 02, 2005
 
"Fátt er svo með öllu illt að ey boði gott"

Fá er hægt að treysta í þessum heimi síbreytileikans, nema hér uppi á fróni, rétt sunnan við heimskautsbaug, vestan við sól og austan við mána. Hér er hægt að treysta á veðrið. Ekki því að veðrið verði ætíð eins og við viljum að það sé, eða (guð forði oss) að það verði eins og veðurfræðingarnir halda. Nei því fer fjarri. Hér á fróni er einvörðungu hægt að treysta því að veðrið verður aldrei einhæft og aldrei eins og þú villt hafa það.

Þennan pistil hefði ég átt að vera að rita eftir ca. 3 tíma, staddur á Akureyri. Jafnvel kominn með öl í hönd í góðu yfirlæti hjá meistara Davíð Hreiðarssyni, körfuknattleiksdómara du la grand! En ég gat náttúrulega treyst veðurgoðunum fyrir því að hafa veðrið þannig að enginn komst yfir, ekki einu sinni fuglinn fljúgandi, hvað þá tugur manns í belgnum á Fokker 50. En koma tíma koma ráð og aftur skal reynt ótrautt, á sama tíma að sólarhring liðnum.

En að öðru. Ég tók mig til ekki alls fyrir löngu, og rakaði af mér allt höfuð og andlitshár, s.s. allt höfuðhár nema augnabrúnir. Ég man svei mér þá ekki hvað er langt síðan ég var síðast skegglaus með öllu, en það tók mig ekki langan tíma að uppgötva af hverju ég kaus að vera með skegg. Ég veit ekki hvernig menn fara að þessu, hugsanlega vennst þetta (eins og flest annað) en nú eftir ca. 6 daga af hárleysi þá er ég kominn aftur á fremsta hlunn með að hefja að nýju söfnun skegghára. Ég nefnilega þoli ekki að raka mig. Ég er með ákaflega undarlega húð, allavega virðist mér svo, því hún virðist bara hreynt ekki vera tilbúin, undir nokkrum kringumstæðum, að meðtaka rakstur. Ég verð alltaf úthleyptur í einhverskonar óþoli og/eða skorinn og blóðugur eins og nýslátrað svín! Mér gengur mun betur að tjónka við höfuðleðrið, það lætur ágætlega að stjórn og kemur ágætlega undan blaði. Líklega er það þó vegna þess að höfuðleðrið er frekar strekt og undirlagið er ákaflega hart svo húðin nær ekki að krumpast undir blöðin og pirrast. Líklega er eina ráðið að fá sér "facial" og láta strekkja á draslinu, láta kannski soga smá mör í leiðinni. Já eða bara að fá sér Botox og vera svo dofinn að það skiptir þig bara engu máli þó að húðin pirrist, þú finnur ekki fyrir því hvort eð er!

Fleira ekki gjört, fundi slitið.