Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, janúar 31, 2005
 
"Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?"

Þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör. Ég upplifði það ekki alls fyrir löngu að sjá umræðu um sjálfan mig og mín störf á opinberum vettvangi. Ég var reyndar ekki nafngreindur í þessari umræðu (kannski sem betur fer) en engu að síður þá verð ég að viðurkenna að þetta stuðaði mig aðeins. Umræða þessi snýst að sjálfsögðu um störf mín sem körfuknattleiksdómara og fór fram á vefsvæði tileinkað íþróttum. Og jú það er að ásettu ráði sem ég hyggst ekki deila því hér hvar þessi umræða fór fram, því svo heppilega vildi til að ég var ekki nafngreindur. Ég ætla ekki heldur að fjölyrða neitt um það sem þarna var sagt. Það sem stuðaði mig nefnilega mest við þetta, var tilhugsunin um að ég væri kominn í þá aðstöðu að um mig sé rætt opinberlega og jafnvel í tveggja manna tali þar sem hvorugur þekkir mig persónulega!

Ég býst við að þetta gæti kallast "frægð" í einhverjum skilningi þess hugtaks (væntanlega þá að vera frægur að endemum) og það stuðaði mig heilmikið að uppgötva það að líklega væri ég orðinn "frægur" þó ekki nema í þröngum hópi. En svo skall ég harkalega aftur til jarðar þegar ég áttaði mig á því að nafn mitt kom hvergi fram í umræðunni og ég var því bara mjög þakklátur. En ástæðan fyrir því að ég fór nú að velta þessu fyrir mér er sú að ef ég hygg á frekari frama í dómgæslu þá er opinber "umræða" eitthvað sem ég verð að venja mig við. Og víst er það svo að menn þurfa að hafa sterk bein til að bera margt af því sem á menn er borið í þessu starfi. Þá er ég ekki að tala um 500 til 1000 öskrandi áhorfendur sem óska þér í neðsta hel, heldur þá rætnu og oft djöfullegu umræðu sem skapast á spjallsíðum internetsins í skjóli nafnleyndar. Ég ákvað að láta þetta allt saman sem vind um eyru þjóta og skella skollaeyrum við flestu því sem um mig hefur og kann að verða sagt. Ekki svo að skilja að ég þoli ekki gagnrýni, því ég veit það manna best hversu mörg mistök ég hef gert og mun gera (þó vonandi að þeim fari nú fækkandi) og ég tek ábendingum um hvað það sem betur má fara í mínu starfi. En ég vil hinsvegar fá slíka gagnrýni framborna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, ekki sem skítkast á netinu eða garg í leik, á því er ekkert að græða.

En að öðru. Ég fékk æði skemmtilega heimsókn síðastliðið laugardagskveld. Þá heiðruðu mig með nærveru sinni tvær yngismeyjar. Við sátum hér í góðu yfirlæti í á tíunda klukkutíma og kjöftuðum um allt milli himins og jarðar. Ég hef ekki tekið svona góða næturkjaftatörn síðan guð má vita hvenær. Annaðhvort var það þegar við Viðarsson Kári skeggræddum Sjálfstætt fólk eða þegar við Mútta áttum síðast spjall saman í sólstofunni yfir öli. Hvort heldur sem var þá var þessi nótt sú besta sem ég hef eytt með tveim konum og ekki myndi standa á mér ef boðið yrði í slíkt aftur.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.