Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, september 24, 2004
 
"Hann á við eymsli að stríða!"


Ég á í vanda. Það er ekki slíkur vandi að líf mitt sé í hættu, hvorki líkamlega né andlega, en ég á samt í vanda. Þannig er mál með vexti að ég hef gaman að kvikmyndum. Gamanmyndir eru í sérstöku uppáhaldi og innan þeirra held ég mest upp á myndir leikstjórans Kevin Smith. Hann er að mínu viti mikill snillingur og gerir frábærar gamanmyndir, eins og Clerks, Mallrats, Chasing Amy og Dogma svo einhverjar séu nefndar.

Grín eins og það birtist okkur í flestum tilfellum, fellst mjög oft í því að setja einhverja persónu í vandræðalegar aðstæður þar sem áhorfendurnir vita gjarnan í hvað stefnir, en persónan ekki. Skemmtunin felst svo í því að fylgjast með viðbrögðum persónunar. Gott dæmi um slíkt er atriði úr Chasing Amy þar sem Holden McNeil (leikinn af Ben Affleck) er staddur á kynhverfum bar viss um að hann sé að næla sér í Alyssu (leikna af Joey Lauren Adams) en hefur ekki gert sér grein fyrir því að hún er lesbía. Alyssa er að syngja með hljómsveit og Holden er viss um að lagið sé honum tileinkað. Í lok lagsins þá lýtur Alyssa út í salin og bendir einhverjum að koma til sín. Holden er að fara að rjúka af stað, þegar ljóshærð stúlka fyrir framan hann á gólfinu hleypur í fang söngkonunar og þær kyssast heitum og ástríðufullum kossi. Svipbrigði Holden eru slík að áhorfandinn sleppir sér af hlátri.

Í þessu atriðið, sem er allt hið vandræðalegasta fyrir Holden, krystallast vandi minn. Ég finn svo mikið til, ef svo má að orði komast, með Holden, vitandi í hvers konar aðstæðum hann er, að ég á í erfileikum með að horfa. Ég geng um gólf, tuldrandi og hlæjandi eða grúfi mig á bak við kodda (sem er athöfn sem vinir mínir hafa gert mikið grín að) í óttablandini skemtan minni yfir óförum greyið mannsins.

Ef ég á að reyna að sálgreina sjálfan mig, þá hlýt ég að telja að þessi feluleikur minn stafi af því að sjálfur er ég uppfullur af ótta við að gera sjálfan mig að fífli. Þar sem ég á einkar auðvelt með að samsvara mér með hinu ólíkasta fólki, þá sé ég í raun mig sjálfan í þessum aðstæðum og get því vart annað en hálf skammast mín fyrir að henda gaman að öðrum. En nú er það ekki svo að ég geti ekki hlegið, og það meira að segja hátt, að svokölluðum "detta-á-rassinn" húmor. Ég hef marg oft hlegið að atriðum eins og þegar stóll brotnar undan einhverjum eða einhver rennur á sápustykki. Þrátt fyrir að slíkt gerist í hópi manna og niðurlæging viðkomandi sé jafnvel meiri en í atriðum eins og Holden lendir í þá þjáist ég lítið sem ekkert fyrir þeirra hönd.

Hugsanlegt er að það stafi af því að detta-á-rassinn atriði eru yfirleitt spontant og uppbygging þeirra lítil sem engin. Það er ekki búið að undirbúa áhorfandan eins mikið fyrir það sem gerist. Hugsanlegt er líka að þar sem detta-á-rassinn myndir eru yfirleitt ýktari, þá samsvari ég mér ekki eins með fólkinu í þeim. Hver gæti hugsanlega fundið eitthvað af sér í Lt. Frank Drebin (leikinn af Leslie Nielsen) í Naked Gun myndum?

Hvað sem því líður þá verður koddinn áfram minn besti vinur í áhorfi mínu á gamanmyndir, rétt eins og hann huggar marga konuna (og karlinn) í ástar-drama myndum af bestu gerð.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.