Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
fimmtudagur, ágúst 26, 2004
 
"En spurningum Ara er ei auðvelt að svara:
"Pabbi, af hverju' er himinninn blár. Hví er afi svo feitur, því er
eldurinn heitur, þið eigið að segja mér satt!"
"

Í síðasta pistli þá ræddi ég mikið um heimili og skilgreiningar mínar á þeim. Ég held að ég hafi nú komist að ágætri niðurstöðu í þeim pistli og við því litlu að bæta. En ég hef ekki lagt af minn pælingasið, því fer víðsfjarri og eins og þeir sem mig þekkja vita, þá finnst mér fátt skemmtilegra en að pæla í hlutum. Dyggir lesendur mínir (sem flestir eru væntanlega horfnir á braut vegna ótíðra skrifa) muna kannski eftir pistlum um mál eins og ástina, hamingjuna og rétt manna til frjálsra tjáskipta. En hvað er það sem ræður því að sumir (eins og ég) geta ekki hætt að velta hlutum fyrir sér á meðan aðrir velta aðeins fyrir sér hvernig næsti dagur verður og báðir eru jafn hamingjusamir með tilveruna?

Í mínu tilfelli þá held ég að um sterka blöndu gena og uppeldisáhrifa sé að ræða. Ég hef alltaf verið rosalega forvitinn en um leið varkár og aðgætinn. Sem dæmi þá talar amma mín elskulega iðulega um það hversu handóður ég hafi verið, þ.e. alltaf að skoða alla hluti (þá sem fyrirfundust í hillunum hjá henni t.d.). En það þurfti samt sem áður aldrei að hafa neinar áhyggjur af mér, því allt sem ég tók það setti ég á sinn stað aftur að athugun lokinni. Þetta er náttúrulega enginn hegðun hjá ungu barni sem skv. flestu ætti að grípa hvað það sem athygli þess fangar og fleygja því svo frá sér (eða skilja eftir þar sem það stendur) þegar næsti hlutur stelur athyglinni. Ég var líka gjarn á það að spyrja múttu um hina undarlegustu hluti, og hér kemur að uppeldisáhrifunum, hún svaraði mér alltaf af fullri alvöru og leiddi mig (ef hún gat) í sannleikann um málið, án þess að klikja út með frösum eins og: "Þetta er bara svona!" Ég bjó líka að (og bý enn) ákaflega fróðum afa, sem hafði það að reglu að hlíða manni yfir hina ýmsu hluti og benda manni á aðra áhugaverða. Örnefni sem sjá mátti út um bílgluggann sem og bæjarnöfnin á leiðinni voru iðulega þulin upp og ég svo spurður út í á bakaleiðinni eða næstu ferð.

Því miður (skv. mínu mati) þá búa ekki allir jafn vel og ég. Ýmsir búa við það að fá aldrei önnur svör en "af því bara" við spurningum. Í fjölmörgum tilfellum eru þeir sem svara svona (og já ég hef gerst sekur um það líka) einfaldlega að breiða yfir eigin vanþekkingu. Það má alveg skilja það að margir fari í kút þegar barnið þeirra kemur fram með sakleysislega spurningu á borð við: "Af hverju er himinninn blár?" Fæstir vilja náttúrulega verða minni í augum barnsins síns með því að viðurkenna vanþekkingu sína (foreldrar eru jú guðir í augum barna á vissu aldursskeiði) en ég held að menn vanmeti oft gáfur barna, því börn missa mun frekar (tel ég) álit á foreldrunum þegar þau svo komast að niðurstöðu málsins og sjá þá að hið alvitra foreldri hafi verið rekið á gat. Ég held að það sé mun vænlegra að viðurkenna vankunnáttuna og kanna svo svarið og láta barnið vita þegar það er fundið. En ég er náttúrulega bara snardinglaður drengur...

Fleira ekki gjört, fundi slitið.