Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, febrúar 01, 2004
 
"Nú er frost á fróni, frís í æðum blóð, kveður kuldaljóð, kár' í jötunmóð." Ég er nú komin til míns heima eftir all svakalega skemmtilegt kveld með sveitungum mínum. Þorra var blótað sem aldrei fyrr og fló mjöður úr ótal ílátum sem og matur úr kerjum. Súrtmeti var boðið sem og reykmeti og stórsteikur ásamt hertum fisk og smjeri. Ég lét næga að fá mér einu sinni á diskinn, en læt þess þó getið svo menn ekki gapi í forundran yfir þessum fréttum, að diskurinn var vel kúgaður, svo að ekki hefði verið pláss fyrir eitt snitti meir.

Þar var æði margt um mann og frá Borgum fórum við saman átta manns. Voru þar á ferð foreldrar mínir, Margrét systir og Gísli hennar heittelskaði, Vignir tölvusérfræðingur móður minnar og hans fjöruga frú Guðbjörg svo og góð vinkona foreldra minna, hún Ninna og síðast en ekki síst, undirritaður. Eins og ofar var frá greint, þá var maturinn herramanns, sem ætíð áður en skemmtiatriðin vor síst verri. Þó var haft á orði að ekki hefðu punktarnir verið margir sem nefndin gaf þeim að vinna úr. Jæja svo ég geri nú langa sögu stutta, þá flutti Þórhildur Þorsteinsdóttir frá Brekku, núverandi húsfrú í Klettstíu innansveitar kroniku. Fast á hæla henni kom svo meistari Bjartmar og flutti hann níð... *hóst* ég meina gamanvísur um ýmislegt sem gerst hafði í sveitinni. Man ég í svipinn eftir sögu um lögreglumannin Ámunda sem huggðist grípa rjúpnaskyttu en fann bara Sigga á Litla-Skarði á heilsubótargöngu með broddstaf um öxl. Nú augljóst var að þetta var enginn rjúpnaskitta svo það lá að ætla að þar væri þá kominn nautgripaþjófur sem útskýrt gæti horfna gripi Dýrastaðabænda.

Aðrar vísur söng hann Bjartmar líka, en þær festust ekki í minni, nema sú sem hann sögn um foreldranna. Þannig var mál með vexti að mútta sá eitt sinn til einhvurra túrhesta sem reyst höfðu sér tjaldborg í slægjunni niðri á Sigmundarnesi. Þetta líkaði kellu heldur illa og rauk til og smalaði fólkinu hið snarasta á brott. Bjartmar færði þetta að sjálfsögði í stílinn og ég hló svo mikið þegar hann söng um kellu (sem nýbúinn var að rasskella túrhesta með hrísvendi skv. textanum), á leið til baka þar sem hún fann karlinn (pabba) fótvana utan við veg og snaraði honum bara á öxlina og bar heim í bæ, að ég hélt hreinlega að ég myndi missa bæði í buxurnar sitthvað sem betur á heima í postulínsskál. Það eina sem mér datt í hug, eftir að söngnum lauk og hláturinn var rénaður, var textabrot sem hljóðar svo: "Hún Ranka var rausna kerling og rak sitt hænsna bú"

Þetta tókst sem sagt í alla staði vel og undu menn sér við spjall, dans og söng langt fram eftir nóttu. Ég var nú samt það hress nú í morgunsárið, að ég hélt af stað suður aftur með mág minn Gísla, en hann þurfti að vera mættur í e-ð skólatengt klukkan eitt, sem er náttúrulega sérdeilis ókristilegur tími til að gera nokkuð annað en sofa, eftir að hafa skemmt sér svo sem fólk gerði almennt í gær. En nú á ég fyrir höndum kvöld afslappelsis og orkusöfnunar fyrir vinnuviku sem hefur sinn gang í fyrramálið, svo ég læt staðar numið hér í bili.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.