Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, febrúar 08, 2004
 
"Það fossar blóð í frelsarans slóð, en faðir það er vel meint." Síðasti pistill minn hefur vakið töluverðar umræður hjá okkur félögunum, eins og sjá má ef menn nenna (*hóst*kiddi*hóst*) að lesa þessar langlokur. Í framhaldi af því þá langar mig aðeins að koma inn á mál sem kemur upp reglulega í umræðunni. Aðskilnaður ríkis og kirkju?

Góðvinur minn Mr. Jules nefndi í einu kommenti sínu ýmisar hörmungar sem framkvæmdar hafa verið í nafni trúar. Krossferðirnar, ástandið á Norður-Írlandi eða milli Ísraela og Palestínuaraba. Það eru til fjölmörg fleiri dæmi, skoðið til dæmis fylkingarnar í Júgóslavíustríðinu eða ýmsa hriðjuverkahópa. Öll þessi dæmi eiga það sameiginlegt að þarna eru menn að blanda saman trúarbrögðum og stjórnmálum, eitthvað sem ég tel vera mestu heimsku sem nokkrum manni gat dottið í hug! Misskildar trúarkreddur, byggðar á fleirihundruð ára gömlum bókum, sem ekki nokkur leið er að vita hver var hugsunin á bakvið, hafa tröllriðið öllum hinum vestræna heimi (og ábyggilega hinum austræna líka, án þess að ég viti það svo gjörla) og gefið heimskum leiðtogum og stríðsherrum allar þær átyllur sem þeir hugsanlega þurfa til þess að æsa til ófriðs, sjálfum sér til hagnaðs. Ég veit ekki um nokkurt stríð þar sem hinn óbreytti hermaður, tala nú ekki um borgarana, hagnaðist á gjörningnum á nokkurn hátt. Ég hugsa að það yrði uppi fótur og fit ef við íslendingar færum nú að æsa okkur til stríðs við Breta eða Íra, vegna þess að í Íslendingasögunum stendur að þar hafi íslenskar hetjur riðið um héröð og gert þau að skattlöndum sínum og því skuldi Bretar okkur vangoldna skatta síðan fyrir 1000!¨

Trú er hverjum manni nauðsyn, ef það er ekki trú á einhvurt yfirnáttúrulegt afl (Guð, Allah, Óðinn, tilviljun lífsins, forlög) þá á nærtækari og veraldlegri hluti, eins og eigið sjálfstæði, Wall Street (samnefnari yfir leiðir til að græða peninga), Tölvur eða eitthvað því um líkt. Ekki svo að skilja að nokkur maður tali um að hann trúi á verðbréfamarkaðinn, en margir telja sig geta tryggt sér hamingju fyrir lífstíð og lengur jafnvel með góðu gengi hlutabréfa sinna. Hljómar ekki ósvipað og loforð ýmissa "viðurkendra" guða fyrir eylífri hamingju í guðasölum gegn því að menn hagi lífi sínu á ákveðinn hátt. En þetta var nú smá útúrdúr. Málið er að valdhafar hafa í gegnum tíðina misnotað sér þessa þörf mannsins fyrir æðra afl, og von, sérstaklega þá hinna efnaminni, um betri hag á næsta tilverustigi (sbr. loforð til sjálfsmorðssprengjumanna um 43 hreinar meyjar í paradís til handa hverjum píslavotti sem sprengir sig í loft upp) til eigin hagsmuna. Tilgangur þessarar misnotkunar hefur fyrst og fremst verið að tryggja sér völd og veraldlegan auð. Nærtækasta dæmið sem við höfum er saga vatikansins, en þó að menn þekki ekki nema brot þess þá er augljós sú hrikalega misnotkun sem það hefur staðið fyrir í aldafjöld. Og ef við lítum okkur enn nær, þá er hægt að skoða þá aðsöðu sem biskupsstólarnir hér á landi komu sér í og allar þær eignir sem þeir áttu fyrir ekki svo löngu.

Þau eru nú orðin, vel flest, þessi dæmi æði gömul og spurning hvort menn hafi nú ekki lært eitthvað af þessu öllu. Það virðist ekki vera, við getum litið til Norður-Írlands, þar sem aðstæður eru reyndar aðeins flóknari, en þar berast á samt á banaspjótum mótmælendur og kaþólikkar, menn sem trúa á sama guðinn og sama frelsarann, greynir bara dulítið á um leiðirnar sem fara á að þeim feðgum! Nú eða þá bara til ástands í Palestínu, sem auðvelt er að viðhafa fjölmörg ljót orð um. Öll þessi dæmi eru borðleggjandi og ættu að vera allri heimsbyggðinni hvatning til þess að losa öll tengsl milli stjórnunar lands og trúar.

Ég er á þeirri skoðun að trú manna sé að mestu leiti þeirra einkamál en sé þó alls ekkert að því að fólk sem trúir á sama guð með sömu formerkjum hópist saman til að njóta samvista hvort við annað. En mér finnst að fólk eigi ekki að blanda saman daglegu lífi og trú sinni, að öðru leiti en því að lifa eins og það getur í samræmi við trú sína. Og fólk má ekki gleyma því að reglur samfélagsins eru trúarreglum æðri! Öfgakennt dæmi er um einhvern sem notar mannfórnir við trúarathafnir, það sjá allir að slíkt gengur ekki í samfélagi. Eins fer ákaflega í pirrurnar á mér fólk sem ber trúnna utan á sér, þ.e.a.s. getur vart stunið upp orði án þess að setja eitt halelúja strax á eftir. Reyndar er ég þannig að öfgar fara nú yfirleitt í taugar mínar, sama hverjir þeir eru.

Það er skemmtilega staðreynd að flest trúarbrögð hafa ákveðnar grunnreglur (boðorð) sem flestar hverjar lúta að því að fólk geti lifað saman í samfélagi. Flestar þessara reglna eru undirstaða hina ýmissu lagaákvæða sem gilda í flestum löndum, sem dæmi má nefna að einhver útgáfa flestra boðorðanna tíu í kristni, eru föst í lagabókstöfum hérlendis. Og það er náttúrulega vegna þess að þessar reglur eru grundvöllur fyrir því að samfélag manna gangi upp, ekki vegna þess að Móses kleif Sínai fjall og meitlaði þau í stein, eða að Múhameð fékk einhverja vitrun og flutti til Mekka (eða frá, kann þá sögu ekki gjörla). Því er skiljanlegt að fléttist saman trú og dagleg stjórn, þar sem trúarlög voru oft fyrstu samfélagslögin. En nú eru lagabálkar samfélaga mun ítarlegri og fjölbreytilegri og engin þörf á aðkomu einhverrar trúar þar að, nóg er víst til af lögfræðingum. Ég hef nú nettan grun um að þessi texti minn sé orðinn alveg nægilega langur og ábyggilega æði ruglingslegur, svo ég held að ég láti hér staðar numið í bili.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.