Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, janúar 14, 2004
 
"You're simply the best, better than all the rest!" syngur rokkamman ógurlega Tina Turner mér til handa og get ég ekki sagt annað en: Sammála!

Nokkrar umræður hafa spunnist í kringum um pistil minn frá því á sunnudaginn sl., bæði online (ísl. álínu, hmm þarf að uppfinda betra orð yfir þetta) og þar sem fólk hefur verið saman komið í lifanda lífi. Einhverjir virðast hafa tekið orð mín full bókstaflega og jafnvel túlkað þau á einhvern þann máta sem mér sjálfum datt aldrei í hug. En hvað um það, ég þarf svo sem varla að taka það fram að um svokallaðar ýkjur var að ræða. Þótt að vissulega sé aldrei hægt (og ætti aldrei að gera) að alhæfa (eða fullyrða Maríus fer eftir skilgreyningu) um allt fólk út frá nokkrum, þá hefði það tekið allan brodd úr pistlinum og gert hann hjákátlegan (sem er náttúrulega það sem ég er að gera núna með þessum útskýringum, but what the hell!) að taka það fram. Þess í stað bjóst ég við að folk (allavega þeir sem mig þekkja) vissu að auðvitað var klásúla við mál mitt þar sem tekið var fram að vissulega væru til undantekningar á þessu öllu.

En vendum nú voru kvæði í kross. Við Viðarsson Kári höfum átt margar orðræður (nú síðast bara rétt áðan) um tungumálið okkar, hina ástkæru ylhýru íslensku, sem svo er oft nefnd. Við urðum þeirrar blessunar aðnjótandi í æsku, að vera aldir upp á heimilum þar sem töluð var góð og gegnin íslenska og þar sem hin aldagömlu gildi um þekkingu voru í heiðri höfð. Það þótti, til dæmis, alveg sjálfsagt á mínu heimili að ég vissi bæði um staðsetningu Borðeyrar og Hólmavíkur sem og að ég vissi hvað orð eins og feigð og ríflega þíða. Það virðist ekki vera lögð eins mikil áhersla á þetta í dag. Í það minnsta virðist mér sem að fáfróðum íslendingum sé alltaf að fjölga, þá hvort heldur sem er, tungumálalega séð eða um staðhætti á landi voru, sbr. pistil Risans frá því í gær.

Ég hef sjálfur þótt (og stært mig af að vera) æði kunnáttusamur á hinum ýmsustu sviðum. (Stafsetning er ekki meðal þeirra, enda eitt af fáum sviðum sem ég tel mig virkilega slæman á) Svo mikið, í raun, að ég hefi verið nefndur "Besservisser" upp á dönsku, og ber ég þann titil með reisn, þó ég segi sjálfur frá. En ég hef lent í því margoft að fólk hvái við og setji upp sauðasvipi þegar ég á við það samtöl þar sem ég hef dottið í "mælsku" stuð. Sjálfur hef ég líka lent í því að gjörsamlega missa andlitið af undrun þegar fólk ekki skilur einhver orð, eða veit ekki um einhvern stað, sem mér finnst sjálfsagt að vita um. Þá er ég ekki að meina að ég, vestlendingurinn, þekki alla bæi í Fljótsdalnum, eða Þingeyingurinn geti þulið upp bæina í Stafholtstungum (þó ég reyndar viti um einn sem færi létt með það), en mér finnst nú orðið fokið í æði mörg skjól þegar menn treysta sér ekki til þess að segja frá, eða hreinlega hafa ekki hugmynd um, hvar Egilsstaði, Raufarhöfn, Hvolsvöll eða Grundarfjörð á landinu er að finna. Nú eða að menn þekki ekki merkingar orða eins og ríflega, ýtarlegt, feigð og annarra slíkra.

Skelfilegast þó við þetta allt saman er sú staðreynd, að það sé að verða til annað mál innan íslenskunnar, sem í raun sé einföld og grályndisleg útgáfa frummyndarinnar. En í orðræðum okkar Kára þá gátum við sammælst um fjölmarga samverkandi þætti sem að þessu hafa, og munu áfram, stuðla. Menntaskortur foreldra kemur þar fyrir, gríðarlegt áreiti Ameriskrar dægurmenningar, metnaðar- og kæruleysi gagnvart íslenskri menningu, stéttarskipting og hreinlega sammfélagsfyrirlitning. Einhver kann að nema staðar og hvá yfir stéttarskiptingunni, en hún er staðreynd sem er alltaf að verða augljósari og augljósari í okkar samfélagi. Það er stéttaskipting sem kannski byggist ekki endilega á efnahag (þó hann hafi vissulega heilmikil áhrif) heldur frekar á menntun, að hin fámenntaða alþýða sé sú sem einna helst gangi "nýju" tungumáli á hönd. En við sáum ekki betur en að þarna hefðu mál snúist við frá fyrri öldum. Þá hefði það verið hin "ómenntaða" (eða sjálfmenntaða öllu heldur) alþýðustétt sem sá um að viðhalda íslenskunni, á meðan Köben-menntuð yfirstéttinn talaði einhverskonar hálfdönsku.

Það nokkuð ljóst að sú tálmynd sem ég hafi séð af stöðu íslenskunar í nútímasamfélagi, hefur liðast í sundur og það sem undir er veldur mér ákveðnum áhyggjum svo ekki sé talað um vonbrigði. Eitthvað þarf til bragðs að taka svo við endum ekki eins og lítið úthverfi frá Bandaríkjahreppi eður heldur Evrópusambandshreppi, og má vart á milli sjá hvorum er verra að tengjast.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.