Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
fimmtudagur, janúar 15, 2004
 
"Owner of a lonely hart." Það er ekki ofsögum sagt að í dag sé ríkjandi sterk fortíðarþrá, því hvert sem litið er má sjá bregða fyrir nostalgíukenndum hlutum og hugtökum sem aldrei fyrr. Besta dæmið um þetta er að sjálfsögðu sú staðreynda að tvær af vinsælustu hljómsveitum síðastliðins árs (skv. sölutölum og óopinberum vinsældalistum) voru Hljómar, unglingasveitin síkáta úr Keflavík, og ofurbandið Brimkló. Þessi ágætu bönd eru nú reyndar frá sitthvoru tímaskeiðinu, ef mig brestur ekki minni þeim mun meir, og þess má raunar sjá merki víðar, að fólk sé að þrá ýmislegt gamalt sama hversu gamalt það er. Gott dæmi þessu til viðbótar eru tískan sem tröllríður þar til gerðum búðum og því fólki sem leggur lag sitt við slíkt. Sú tíska er sótt að lang mestu leiti til áranna 1980-1989, hið svokallaða eitís tímabil, hinn alræmdi níundi áratugur. Mér er það persónulega hulin ráðgáta, hvers vegna í ósköpunum fólk er að sækjast í að endurvekja þetta skelfilega tímabil, því fjölmargir sem það lifðu hafa sagst í mín eyru skammast sín fyrir margt sem þá þótti flott, en nú eru börn þessa fólks, s.s. börn fædd á árunum '80-'87 að halda þessum ósóma á lofti og hafa ábyggilega mörg hver komist í gríðar feitt á háaloftum og í geymslum þar sem syndir foreldranna voru niðurgrafnar og áttu ekki að lýta aftur dagsins ljós. En allt er í heiminum hverfult og nú eru farnar að sjást aftur gríðarlega hreðabreiðar konur, sem þar að auki virðast hafa fest eyrnalokkanna í öxlunum, svo hátt eru þær farnar að teygja sig, og menn skartandi ljótustu, ég segi og skrifa og stend við það, ljótustu hárgreiðslu sem nokkurntíman hefur á nokkurn mann verið sett. SÍTT AÐ AFTAN!!! Þó að vissulega hafi margt verið slæmt og til þess að skammast sín fyrir á níunda áratugnum, þá var að mínu mati, ekki hægt að verra verri fulltrúa hans til að endurvekja, en þessa tvo. Frekar hefði ég kosið að sjá bleikar legghlífar og Kínaskó, svo ekki sé minnst á stredds buxur og leggings. Í raun, flest annað en herðapúða og sítt að aftan.

En fleiri fortíðarþrár eru farnar að skjóta upp kollinum. Þó að ekki séu nema rétt rúm 4 ár síðan tíunda áratug síðustu aldar lauk (þar miða ég við áramótin 1999-2000) þá eru greinilega sumir sem telja rétt að endurvekja ýmislegt af glæsilegustu "afrekum" hans. Las um það í DV um daginn að stúlkurnar sem á sínum tíma skipuðu stúlknasveitina Spice Girls ætli sér að koma saman aftur. Reyndar mátti nú lesa það líka að aðal ástæða þess arna væru "flopp" sólóferla þeirra kryddpía.

DV hefur verið mér uppspretta margs pistils og ein frétt var sú í því blaði (þriðjudagsblað) sem vakti gleði hjá mér og vakti með mér óvænt von í nostalgíubylgjunni. En þann 14. mars næstkomandi þá verða liðin 23 ár frá því að maður að nafni Tómas opnaði einn skemmtilegasta skyndibitastað íslandssögunnar. En þann herrans dag opnaði fyrsti Tommahamborgarastaðurinn. Og nú á því herrans ári 2004, þann 14. mars næstkomandi, ætlar fyrrnefndur Tómas að opna nýjan stað sem á að bera heitir Hamborgarabúlla Tomma. Ég get ekki sagt annað en að mér lýtist vel á það, og spurning um að heimsækja þann stað fljótlega eftir opnun.

Það mætti svo sem skilja á því sem á ofan er farið, að ég hafi sitthvað á móti fortíðarþrá. Slíkt er af og frá. Ég þrá fátt heitar en einfalda tíma æsku minnar og sæki ákaflega mikið í alskinns efni sem var mér hugleikið á yngri árum. Gott dæmi um það er dálæti mitt á leikritum Thorbjarnar Egners, sem ég get enn þann dag í dag hlustað á og notið jafn mikið, ef ekki meir, og þegar ég var smápatti og lá á stofugólfinu hjá ömmu að byggja spilaborgir á meðan plötuspilarinn snarkaði undir. Þar fékk Ómar Ragnarsson líka að snúast ófáa hringi sem og Bessi Bjarnason og gera þessir herramenn vinnufélaga mína óða, þegar ég í nostalgíuæðiskasti skelli einhverjum þeirra á "fóninn" sem reyndar er á tölvutæku formi hér. Mín nostalgía lýsir sér líka í ógurlegum áhuga á teiknimyndum. Það er áhugi sem hefur lítið sem ekkert dvínað með árunum. Þá skiptir ekki máli hvort um sé að ræða hreyfimyndir ellegar sögubækur. Eins og ég minntist á laugardag þá á ég mér margar hetjur í heimi myndasagna, en mínar hetjur eru líka til sem hreyfimyndir. Ég hef sankað að mér einstaka þáttum með gömlum vinum ein og He-Man, sem gengin er í endurnýjun lífdaga með nýrri seríu, Transformers, Tommi og Jenni, sem verða aldrei þreyttir, og svo síðast en ekki síst, tveir gamlir og mjög góðir kunningjar, Línan og Klaufabárðarnir. En með aðstoð eðalgripsins DC++ þá hefur mér tekist að endurnýja kynni mín af þessum snillingum.

Lýðum má því vera ljóst að ég hefi ei neitt á móti fortíðarþrá, en á henni, sem og mörgu öðru, hef ég ákveðnar skoðanir og heimskulegar uppvakningar (eins og fyrrnefndir axlapúðar og sítt að aftan hárgreiðslan) er eitthvað sem fólk ætti að forðast sem heitan eld. Ég bíð hér með fram þjónustu mína í að ráðleggja mönnum, hvað skuli upp taka af gömlu og gengnu og til viðmiðunar bendi ég á ofanverð skrif.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.