Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, janúar 16, 2004
 
"Manstu fyrir langa löngu, við sátum saman í skólastofu. Ég dáði þig en þú tókst ekki eftir mér, ekki frekar en ég væri krækiber." Ég vildi að ég gæti sagt að dagurinn hefði farið í eitthvað nytsamlegt og að ég hefði verið dugnaðurinn uppmálaður, en nei, ég svaf í allan dag. Get þó reyndar sagt mér það til málsbóta að ég var að vinna aukavakt í gærnótt. Hvað um það. En eftir að ég vaknaði, þá var nú tekið til óspilltra mála og haldið af stað í leiðangur sem fimm fílar væri og ég marseraði sjálfum mér alla leið niður í Kringlu þar sem ég gerðist svo djarfur að fjárfesta í tveim viðbótum (e. add on's) við snilldarleikinn Newervinter Nights og hef nær sleitulaust síðan verið að leika mér í honum. Fyrir þá sem ekki vita, þá er NWN svokallaður RPG leikur (Role Playing Game=hlutverkaleikur/spunaspilsleikur) sem byggir á RPG kerfinu D&D.

Þeir sem hafa löng og góð minni, muna kannski eftir því þegar ég lýsti yfir ást minni á on-line leiknum EVE: Seccond genesis. Sú ást er kulnuð og skilnaður okkar orðin alger, því ég hef gefið reikninginn minn og karakterinn til Maríusar frænda og eytt leiknum út af tölvunni minni. En mín nýja ást er NWN, sérstaklega í ljósi þess að öðlingurinn Ólafur Ágúst stórvinur minn með meiru, benti mér á það að starfræktur væri íslenskur server (ísl. netþjónn) fyrir leikinn og þar gæti maður spilað sér að kostnaðarlausu í on-line heimi með allskonar skemmtilegum fítusum og sniðugheitum. Ég get vart beðið með að prufa, en er þó samt að hugsa um að geyma það þar til ég hef spilað í gegn um viðbæturnar sem ég minntist á hér ofar.

Ég keypti mér nammi líka áðan, sem væri kannski ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég hafði heitið sjálfum mér því að hætta að borða nammi. En ég féll, og það sem verra er, þá hef ég ekki hreyft mig neitt alla þessa viku, utan þess að við Kári brugðum okkur í smá körfu á miðvikudaginn upp í háskóla. Fuss um svei, ég kemst ekki niður fyrir þriggjastafa töluna með þessu áframhaldi. Það er reyndar orðið ískyggilega stutt í það, vantar ekki að losna við nema 6 kílógrömm svo það markmið náist, en þá eru eftir í það minnsta 10 til viðbótar áður en ásættanlegur árangur hefur náðst. Ég er að hugsa um að gráta mig í svefni og bölva leti minni milli ekkasoganna.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.