Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, janúar 19, 2004
 
"Left a good job in the city. Working for the man every night and day" Þá er þessu fríi lokið og ég á leið til vinnu enn á ný. Nú er það nóttin sem ræður og mun Bulluvampýran flögra um í myrkum skotum netsins og ráðast á fáklæddar, saklausar meyjar hvar sem þær finnast. Úr þeim verður sogað allt bull svo eftir standa þurrar og leiðinlegar gellur, sem allar stefna að því að læra bókasafnsfræði og hvernig á að setja upp hár í hnút. (Með afsökun til allra skemmtilegra bókasafnsfræðinga)

Ég brá mér í vísiteringu nú um kvöldmatarleitið. Ferð minni var heitið að Kalastaðakoti en þar búa þau skötuhjú Siggi og Benný ásamt syni sínum Helga. Einn húskarl mun þar einnig hafa aðsetur, en hann er þurfalingur sem fátt er vitað um. Önundur mun hann þó heita og tréfótur vera kallaður eða Snati ef sá gállinn er á húsbóndanum. Við Sigurður bóndi ræddum margt, sem okkur er von og vísa, m.a. komu fram hugmyndir um blót eitt mikið er húsbóndi hyggst halda áður en langt um líður. Verður þar veitt gnótt matar og drukkið óhemja af sterkum miðið ættuðum frá Azteckum, ásamt flestu því öðru sem niður vill fara og inniheldur snefil áfengis. Um mig liðast hrollur, en upptök hans eru eigi ljós, sæla og tilhlökkun ellegar kvíði og óværð.

Vetur konungur hefur tekið upp á þeim óskunda að minna okkur íslendinga rækilega á það hvar á heimskúlunni við erum staðsett. Linnulítið síðan 29. desember hefur hann hrist skegg sitt og strá yfir okkur flösu þeirri er þar býr og við nefnum í daglegu tali snjó. Einhverjar uppstyttur hafa komið á þessu tímabili, en þær eru bæði fáar og aumar svo vart er orði á þær eyðandi. Ég tel að það sé ekki að ósekju að karlinn konungur vilji minna á sig reglulega, ef miðað er við undrun fólks í hvert sinn er jörð litast grá. Einhverjir kunna að hvá við og neita allri undrun yfir ís og snjó, en þeir hinir sömu hafa þá lítið séð til landans við akstur í vetrarfærð. Nær undantekningalaust þá kemur veturinn ökumönnum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, svo gjörsamlega í opna skjöldu að þeir stöðva bíla sína á miðjum götum og vafra í burt frá þeim, starandi á hið hvíta undur. Slík er okkur hinum sem ekki erum tekin eins í bólinu af vetri kóngsa, ákaflega bagalegt, því allir þessir bílar út um allt skapa leiðinlegar tregður og svo er hætt við skaflamyndun ef vind hreyfir og það fer að skafa. Svo ekki sé nú minnst á blessaða snjóruðningskarlanna (og konurnar nú á þessum jafnréttistímum). Allir þessir bíla hist og her valda, svo eigi sé fastar að orði kveðið, gífurlegum vandkvæðum við mokstur akbrauta. En það virðist vera ákaflega vandasamt verk og þrælskipulagt í alla staði. Ég varð var við það að gata sú er ég bý við og nefnist Tunguvegur var rudd nú á laugardag. Var sá ruðningur framkvæmdur venju samkvæmt, sneitt framhjá öllum illa lögðum bílum hér og hvar og rutt fyrir allar innkeyrslur. Nú slíkt skilst mér að sé alsiða hér í sveit, það sé nefnilega á ábyrgð hvers og eins að moka út sínar innkeyrslur. Ég man nú þá tíð, þegar ég bjó í Borgarnesinu að slíkt var gert fyrir menn ef snjór var mikill, en þar sem innkeyrslur eru dulítið fleiri hér en þar, þá er svo sem ekki margt við þetta kerfi að athuga.

Svo ég tek fram skófluna og hef mokstur. Á góðum hálftíma tekst mér að gera innkeyrsluna vel fólksbílafæra og stuttu síðar sanna ég það með því að aka á braut á bílnum mínum. Ekkert af þessu er í sjálfu sér í frásögur færandi, nema hvað að þegar ég sný aftur heim, þá hefur þar til gert ruðningstæki komið og skrapað af gangstéttinni og við þá iðju mokað vel og vendilega fyrir innkeyrsluna mína aftur. Mér þótti það ákaflega miður og varð frekar súr í bragði en gat þó fátt annað gert en að gera innkeyrsluna aftur ökufæra, sem ég og gerði. En eftir á að hyggja, þá finnst mér þetta ákaflega bjánalegt verklag hjá ruðningsmönnum. Og að þurfa að moka innkeyrsluna tvisvar sama daginn, eingöngu vegna sauðsháttár mokstursmanna er full mikið af því góða. Mér fyndist eðlilegt að þegar gangstéttargrafan fer hjá, og stjórnandi hennar sér að búið er að moka færa braut út úr innkeyrslunni að þá muni hann ekki mikið um það að skafa þessar tvær rendur sem hann setur fyrir, aftur á brott, það er í mesta lagi tveggja mínútna aukaverk fyrir hann. Réttilega má benda á að tvær mínútur á hverja innkeyrslu sé nú bara þónokkuð langur tími þegar allar innkeyrslur sé lagðar saman. Það er vissulega alveg hárrétt, en hér erum við ekki að tala um allar innkeyrslur, heldur bara þær sem þegar var búið að moka alveg frá. Það er nú reyndar borin von að hugsa sér að svona nokkuð komist á sem almenn regla, en það má alltaf vona.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.