sunnudagur, janúar 25, 2004

"Arí dúarí dúra dei, arí dúari dáa, sem kóngur ríkti hann með sóma og sann, eitt sumar á landinu bláa." Við félagarnir, Ármennið, Kiddi og ég höfum dundað okkur við það í kveld að kanna uppruna okkar. Ekki svo að skilja að við vitum ekki nokkurnvegin hverjir við séum, heldur höfum við verið í leit að undarlegum og spaugilegum nöfnum forferða okkar. Til þess arna brúkum við íslendingabók sem þeir félagar Kári Stef. og Friðrik Skúla. útbjuggu okkur öllum til handa.

Í þessari leit okkar þá hafa dúkkað upp æði skemtileg nöfn. Gestný, Frugit, Brunda-Bjálfi, Ljótun, Krákur, Rafarta svo einhver séu nefnd. Í þessari leit okkar þá komumst við að því að Ármennið ógurlega er af norskri konungaætt, en Hjaldur Vatnarrsson konungur í Noregi (um 700) er einn af ættfeðrum hans. Einnig komumst við að því að Kiddi er af Enskum konungum kominn, og þegar þeir fóru að metast, drengirnir, þá bennti ég þeim á það að Englandskonungar hefðu nú verið skattland norðurlanda í eina tíð. Gellur þá í Ármenninu, "Uss þú ert bara diet-kóngur".

Þeir bakkabræður hafa svo verið að rífast um það í allt kvöld hvor sé nú af betri og æðri ættstofni, en ég skemmti mér að þessu öllu saman, þar sem allt eru þetta forfeður mínir, kóngar jafnt sem húskarlar og írskir þrælar (sem þó voru flestir af konungakyni, en hún Rafarta var dóttir Kjarvals írakonungs).

Fleira ekki gjört, fundi slitið.