Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, desember 10, 2003
 
"Ég er frjáls eins og fuglinn, flogið næstum ég gæti, ekkert er mér til ama, allt hjá mér vekur kæti, ég er frjáls" söng Jón Kr. Ólafsson frá Bíldudal eitt sinn fyrir margt löngu. Hann er nú einna helst þekktur fyrir ógurlegt plötusafn sitt sem hann hefur til sýnis heima hjá sér á Bíldudal.

Annars er ég nokkuð sammála textabrotinu, ég er frjáls. Ég er á leiðinni heim í föðurhús og ætla mér að dveljast þar eitthvað frameftir vikunni og næstu viku líka, við jóla hitt og jóla þetta. Enda mitt eina tækifæri til að upplifa jólin af einhverju viti, þar sem ég verð að vinna jólavikuna. Það eru ágætar líkur á því að ég verði því ekki mjög duglegur við vefbókarfærslur, þar sem tölvusamband móður minnar og föður, við umheiminn er slitrótt og leiðinlegt, en þó er aldrei að vita. Í ferð þessari hef ég ýmislegt í hyggju. Ég hyggst heimsækja mikið af merkismönnum, svo sem eins og Risann, Fjölskylduna á Ferjubakka 2 (neðri hæð), stórmeistarann Ólaf Ágúst og svo að sjálfsögðu Kaðlakotsbóndann Sigurð Heiðarr, frú hans og son. Vísiteringar verða því í hávegum hafðar.

Ég hef líka í hyggju að iðka smá masókisma. En fyrir þá sem ekki vita, þá er móðir mín Satisti af guðs náð. Hún hefur háskólagráðu í þukli (eins og pabbi orðar það) en að mínu mati ætti gráðan að vera í kvöl og pínu. En á íslensku útleggst starfsheit móður minnar sem Sjúkranuddari. Ég er farinn að þjást svo illilega af vöðvabólgu og öðrum slíkum kvillum svo að nauðsynlegt er að fá ráðna bót á. Slíkt ferli inniheldur, eins og áður var minnst á, töluvert magn sársauka, en ef hægt er að þola hann, þá eru bætur meinanna ríkulegar.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.