Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, október 24, 2003
 
"Útvarpsmessan glymur meðan jólalambið stynur" sungu Þursarnir í laginu um Sirkusmeistaran smartklædda hann Geira. Ég var að stuðla að minkun kjetfjallsins í landinu. Var heima í garði foreldra og var að aðstoða nokkrar valinkunnar sveitafrukkur við Sperglagerð! Svo var ég náttúrulega einnig að vinna fyrir mat mínum með þessu. Þarna voru saman komnar fjórar fyrrverandi ungmeyjar (mis mikið fyrverandi samt). Fyrsta ber að nefna Frú Kötu í Munaðarnesi, en fyrir þá sem ekki vita þá er ýmislegt fleira varið í Munaðarnes en sumarbústaðasvæði BSRB (og eru það fyrst og fremst skötuhjúin Kata og Halli). Þá var frú ein ofan úr Norðuráldal, nánar tiltekið frá Hóli, Frú Rósa. Er rétt að taka fram að þetta er ekki sami Hóll og sá þar sem bjuggu þeir Jón, Dóni (hundur) og Skjóni (hestur) (en um þá söng Bessi Bjarnason á gamalli hljómplötu og er kvæðið eftir Kristján frá Djúpalæk, ef mig misminnir ekki). Næst ber að telja Húsmóðurina í Hlöðutúni (þar sem afurðunum var komið fyrir í reyk að verki loknu) hana Sæunni. Nú síðast en hreint ekki síst skal nefndur kvennskörungurinn að Borgum Frú Birna (sem er jú móðir undirritaðs ef e-r vissu eigi).

Að hlýða á þessar frukkur tjá sig um landsins gagn og nauðsynjar, ásamt léttum metingi (Norðurárdalsrolluskrattar, þverari en andsk... sjálfur og gera ekkert nema sitja fastar í hakkavélinni. Það er nú meiri rembingurinn í þessum Tungnarollum, það kemur ekkert nema loft í gegn með þessu) milli hreppa (þó bæði Norðurárdalshreppur og Stafholtstungnahreppur tilheyri nú Borgarbyggð) var upplifelsi sem ég hef helst ekki viljað missa af. Enda kom ég hingað suður með pokafylli af nýslátruðu kjetmeti og verður það kærkomin tilbreyting við brauð og mjólkurmat ýmiskonar sem ég hef lifað á í sumar.

Ég kom við í Loftorkunni á suðurleið. Þar stóð yfir reisugil í tilefni þess að nýbygging fyrirtækisins er kominn undir þak en þó vart tilbúinn undir tréverk (held reyndar að það verði lítið af því þarna inni). En fyrir ykkur sem ekki vitið þá er Loftorka minn fyrrum vinnustaður og fjölskyldufyrirtæki stofnsett fyrir 41 ári af afa mínum, Konráð Andréssyni og mági hans Sigurði heitnum Sigurðssyni. Þar var boðið upp á snittur og öl, bæði áfengt og ekki. Ég gerði skyldu mína og bragðaði á því sem boðið var uppá, ja nema áfenga ölinu því ég átti eftir að aka suður fyrir gat. En ég kipti þó einum með í nestið og ætla ég að njóta hans í kvöld þegar dæmingum er lokið.

Kommentakerfi mitt hefur vakið rífandi lukku meðal dyggra lesenda minna og hafa menn og konur farið hamförum í tjáskiptum þarna inni. Ég held svei mér þá að vakning hafi átt sér stað, í það minnsta brást Risinn fljótt og örugglega við, og var ekki seinn á sér að taka upp tjáskiptakerfi á sinni ágætu síðu. En mér þótti hann stíga heldur óvarlega til jarðar þegar hann tók að hvetja gesti mína til að hætta í heimsókn hjá mér og bregða sér yfir til sín, og það á minni eigin síðu!! En þar sem við Ragnar erum félagar góðir og fóstbræður þá erfi ég þetta nú ekki við pollann.

Mr. Jones er greinilega kominn með vefbókarveiruna á hátt stig. Í það minnsta hefur hann verið ótrúlega duglegur að tjá sig upp á síðkastið, þá sérstaklega í gær. Kíkið á meistarann. Ég hef ákveðið að leggja skotmennsku á hilluna. Minn frambærilegi framsóknarmaður hefur orðið heldur óvægilega fyrir barðinu á mér og má segja að ég hafi haft hann að skotspæni. Nú skal þeim leik hætt í bili og spjótum þess í stað snúið að hróinu honum Kára. En þar sem hann hefur ekki enn hafið upp raust sína á veraldarvefnum þá býst ég við að ég verði að hafa í frammi báðar hliðar ritdeilunar, allavega þar til mér tekst að sannfæra hann um að láta nú ærlega í sér heyra á vefbókarsíðum veraldarvefsins.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.