Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, október 20, 2003
 
"Sigtryggur í svefni vær, sendir frá sér pústur, hjá honum liggur haukleg mær og hangir losta kústur" svo segir í söng Þursanna um glímukónginn Sigtrygg sem vann. En ég er ekki mjög sigurviss svona almennt séð, býst yfirleitt við því að bíða ósigur, ég vona samt alltaf að ég vinni, bý raunar iðulega til kraftmikla og kynngimagnaða dagdrauma um sigur minn. En staðreynd málsins er nú samt sú að ég vinn sjaldnast, sama í hverju keppt er.

Grámann varð fyrir meinlegri stríðni. Ég vildi að ég gæti sagt að mér hefði dottið þetta í hug, því ég hló mig mátlausan yfir frásögninni, en verð nú samt að lýsa yfir sakleysi mínu. Bætti inn nýjum tengli og viðkomustað á vefhring mínum, 1.C í kennó er bekkurinn hans meistara Guðna Grámanns og ég hef sjaldan séð jafn aktíva vefbók, enda ekki erfitt að halda góðum dampi á skrifunum þegar margir eru um hituna. Svo eru líka gríðarlegir húmoristar sem þarna tjá sig og oft er erfitt að hemja magakrampann þegar pistlar þessir eru lesnir.

Hef verið að hlýða með nýju eyra á Þursana í nótt. Textagerð þeirra er oft á tíðum alveg stórkostleg eins og tilvitnunin hér að ofan sýnir. "Ég hef stolið mör úr mókollóttum hrúti, svo er þessi skriftargangur úti" er hending úr laginu Skriftargangur og þessi setning á sérstaklega vel við (þó ég reyndar skilji ekki hvernig innviðir eru í höfði þess manns sem semur slíka ljóðlínu) því ég hyggst herja á heimaslóðir í vikunni og reyna að vera liðlegur við mörskurð og beinafjarlægingar en kjeti var slátrað að Borgum í gær og er nú komið að frumvinnslu sem eins og áður var minnst á, fellst í að fjarlægja óæskilegar hliðarafurðir eins og mör (fitu fyrir ykkur sem skiljið ekki gamalt mál) og bein. En það er grundvöllur þess að hægt sé að koma kjetinu í áthæft ástand. Ég get ekki beðið eftir því, enda fyrir margt löngu orðinn leiður á þurru brauði og súrrmeti ýmiskonar sem ég hef neyðst til að éta í kjötskorti sumarsins.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.