Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, október 22, 2003
 
"Kvennmannslaus í kulda og trekki, þetta er ekki ekki ekki ekki þolandi" segir í kvæði sem er æði vinsælt að syngja á þorrablótum, árshátíðum og öðrum slíkum mannfögnuðum. Mér kom þetta lag í hug þegar ég áðan hlýddi á Eirík frá Klambratúni (Eric Clapton) syngja lag sitt "You look wonderful tonight". Fyrir þá sem ekki vita, þá er það hugljúft ástarljóð manns sem greinilega elskar konuna sína ákaflega heitt. Nú ástæðan fyrir að ég er að blaðra þetta allt saman er auðvitað sú að ég er maður einsamall og kvennmannslaus í kulda og trekki og er alveg að verða hættur að þola það ástand. En eins og sönnum vælukjóa sæmir þá vil ég að sjálfsögðu finna annan til að kenna um öll mín bágindi. Svo ég hef ákveðið að skella skuldinni á hið fríðara kyn. Þá er ég ég ekki að meina einstaka meðlimi þess (og undanskildar eru að sjálfsögðu þær konur sem eru bundnar mér vina og/eða fjölskylduböndum) heldur kynið sem heild. Ég er nefnilega farinn að hallast að því að sem heild, séu konur ákaflega vitlausar. Þá er ég ekki að segja að þær séu heimskar, því margir af gáfuðustu einstaklingum sem ég þekki og veit um, eru konur, heldur finnst mér stundum sem þær beiti þessu viti sínu ákaflega rangt, þá sérstaklega hvað varðar karlmenn, sérstaklega mig.

Ég hef nú verið laus og liðugur í nokkurn tíma og hef ekki setið auðum höndum hvað kvennamál varðar, heldur verið "out and about" eins og það heitir, með öngulinn úti ef svo má að orði komast. Ég get ekki sagt að ekki hafi bitið á, því ýmislegt hefur nú gerst í veiðiferðum en hingað til hefur öll bráð gengið mér úr greipum og iðulega hefur bráðin horfið á vit annarar beitu sem einhverra hluta vegna er girnilegri.

Svo nú sit ég hér einn og yfirgefinn í mannþrönginni og velti því fyrir mér hvað það er sem ég þarf að setja á öngulinn til þess að einhver bíti á, þ.e.a.s. einhver sem ég hef hug á að halda, því ég hef ekki list á öllu því sem syndir um á veiðilendunum. Svo ég ætla nú að setja fram þá auðmjúku ósk að þær konur sem villast til að lesa þessar hugleiðingar (enn og aftur þá á ég ekki við vini eða vandamenn (sérstaklega vandamenn) sem yfir þetta lesa) hafi það hugfast þegar þær eru að leita að bitastæðum önglum, að renna nú ekki framhjá mínum, án þess í það minnsta að grandskoða beituna og jafnvel stinga höfði upp úr vatninu til að berja veiðimanninn augum. Hann er hreint ekki slæmur, myndi jafnvel ganga svo langt að segjast vera alveg ágætur (og munið ágætt er betra en gott).

Fleira ekki gjört, fundi slitið (í einsemd, eymd og volæði, með ýturvaxna þrá eftir heitu bóli þar sem fyrir er heitur líkami. Nei Guðni ekki þú!! Sniff, snökt, væl, skæl)