Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, september 29, 2003
 
"Jæja þá í þetta sinn, þér er heimil ólin" syngur Snati til Óla í samnefndu ljóði. Ég söng þetta lag títt á mínum sokkabandsárum og þótti þá bara nokkuð lipur til söngs. Síðan eru liðin mörg ár og þó að áhugi minn á sönglistinni hafi lítið minkað, þá fer fleiri sögum af því nú en þá, hversu nothæfur ég sé til slíkra verka. Sérstaklega þykir sumum heimilsmönnum á Tunguvegi 18 að ég ætti ekki að einbeita mér að söng, heldur halda áfram að stunda mína daglaunavinnu. En ég er stórhuga og veit að hvurgi fyrirfinnst betri söngmaður í gervallri veröld víðri en ég, og hana nú!

Ég sit við skriftir í vinnu minni, eins og jafnan áður. Það lýtur einna helst út fyrir að ég öðlist ekki innblástur til Vefbókarskrifa nema ég sitji hér í þessum ágæta stól og glápi á þennan ákveðna skjá. En það er þó bót í máli að ég fæ innblástur yfirleitt. Annars var ég ekki viss um að hafa tíma til skrifa í vinnunni í dag. Ég hefi nefnilega lagt mitt einhæfa næturbrölt á hilluna og tekið upp "eðlilegri" vinnutíma aðra hvora vinnuviku (sem þýðir fjórðu hvora viku, eða einu sinni í mánuði), nefnilega að vinna frá 7 að morgni til 7 að kveldi og líkar mér bara all vel, nú þegar líður að lokum fyrsta eginlega dagvinnudags míns síðan einhverntíman í febrúar eða mars, man ekki hvort.

Ég tek undir kveðjur Grámanns og óska heitkvinnu og tilvonandi barnsmóður Jóhanns "erkiskalla" Waage, henni Gyðu, góðs bata. En ég tek ekki undir nafngiftir Graða mansins á mér og þykir mér að heyðri mínum vegið með slíkum aðdróttunum.

Mér, eins og fleirum, stóðu tvö partý til boða nú um helgina. En ólíkt flestum, sem völdu að fara í annað hvort, þá fór ég í hvorugt. Já ég segi og skrifa, ég lét allt kæruleisi lönd og leið og laggði land undir hjól(barða) og keyrði heim á Herragarðinn til foreldra minna. Þar gekk ég á fjöll og leitaði sauðfjár að gömlum og gildum íslenskum sið og var það mál manna, þegar til byggða var komið, að vel hefði tekist til og heimtur væru góðar. Ég er ágætlega sáttur við minn hlut í máli þessu en þó kom ég eigi heill af fjalli. Ég þjáist nefnilega af töluverðum hreyfingarskorti, sem alla jafna háir mér ekki svo mjög, en þegar að heilmiklu magni af hreyfingu er slengt á vöðva mína, öllu í einu, þá hlýtur eitthvað undan að láta og í þetta sinn var það mjöðm með dyggum stuðningi nára sem laggði upp laupanna. Vil ég þar um kenna ógurlegu fjalli sem undirritaður kleif í flýti miklum til að ná að hefta undankomu sauða nokkurra sem villdu undan smölum komast og til fjalla halda á ný. En minn maður stóð sína plikt og aungvir sauðir sluppu undan, svo vitað sé.

Eftir þessa ógurlegu fjallgöngu og illt ástand við heimkomu, hef ég strengt þess heit að bæta um betur og hefja (ó?)reglubundna líkamsþjálfun í Heims-klassanum, og það ekki síðar en í kveld. En þó verður eitthvað numið staðar í Evu heimum, svona rétt til að uppfæra þjálfun á eðalmenninu Zorth.

Nóg er af fréttum í bili...

Fleira ekki gjört, fundi slitið.