Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, apríl 12, 2003
 
Tekið er nokkuð að halla að kveldi og ég er ekki frá því að tekið sé eylítið að rökkva utan við gluggan minn. Það stafar væntanlega af því að sólin sem skapað hefur rjómablíðu í allan liðlangan dag (og dágóða stund úr gærdeginum einnig), hefur bruggðið sér á bak við ský til að skipta um föt. Ja allavega eitthvað sem ekki þykir holt fyrir okkur jarðlinga að sjá. Dagurinn var tekinn snemma og vorum við félagarnir, Guðni og ég, komnir á Sukkbílnum ofan í Laugardal töluvert fyrir níu í morgunn. Þar flautuðum við sitthvorn leikin í fjegurra liða úrslitum 10. flokks kvenna, við ágæta afspurn, þó er ekki víst að allir hafi farið sáttir úr húsi. Það er skemmst frá því að segja að Haukar rótburstuðu Kormáksstúlkur frá Hvammstanga í fyrri leiknum og get ég ekki ímyndað mér að gaman hafi verið á að horfa. En í seinni leiknum þá áttust við Skallagrímsstúlkur úr Borgarnesi og ungsnótir frá Keflavík. Ekki var nú stigamergðinni fyrir að fara í þessum leik, þekkjast þess fjölmörg dæmi að handboltaleikir kvenna hafi endað með hærri tölum, en svo fór þó að lokum að Bítlastúlkurnar höfðu sigur og mæta þær því Haukum á morgun í úrslitaleik. Þegar þessum leikjum var lokið tók við leikur nágrannana Keflavíkur og Njarðvíkur í unglingaflokki karla. Var það hörð rimma og mikil sem endaði með eins stigs sigri Njarðvíkinga 101-100 í framlengingu og er óhætt að fullyrða að Keflvíkingar gengu lítt sáttir frá velli. Maður hittir ekki alltaf á það.

Eftir þessa dvöl í höllinni þá dreif ég mig heim og fékk mér bað. Vildi þá svo til að ekki var hræða í húsinu, sem er afar sjaldgæft að gerist á neðri hæðinni á Tunguveginum. Ég fékk mér vel útilátið og verðskuldað þrifabað, skóf höfuðleðrið og hélt í leiðangur. Mig vanhagaði nefnilega um svokallaða skrifanlega geisladiska. Og er ég nú að brúka þá í gríð og erg, er að útbúa mér eintök af stórmyndinni Army of Darkness og teiknimyndinni Wyrd sisters sem er gerð eftir samnefndri Diskheims bók eftir Terry Pratchett. Endalaust tuð um ekkert, ég læt hér staðar numið, ég þarf að skúra það er mín vika núna.

Þokkalega gott fólk, læt þetta duga og hveð að sinni,

Konni B.(ullari)