Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, apríl 20, 2003
 
Páskadagur að kveldi kominn og eg mættur til vinnu enn og aftur. Ekki svo að segja að líf mitt snúist eingöngu um vinnuna, eg geri ýmislegt annað. Eg ferðast til vinnu, frá vinnu, útbý nesti fyrir vinnuna og sef á milli þess sem eg mæti til vinnu. Talandi um svefn. Eg svaf í góða níu tíma nú áðan, frá 07:30 í morgun til 16:30 nú seinnipartinn. Það er svo sem ekki í frásögu færandi, nema hvað að þessir níu tímar voru ákaflega verðskuldaðir og notadrjúgir, svo ekki sé nú minnst á nauðsin þeirra. Eg hafði nefnilega vakað í um það bil 21 og hálfan tíma fram til þess er eg lagðist til hvíldar í morgunn. En ástæða þessa vökukasts er náttúrulega mið margumrædda fermingarafmæli sem haldið var uppá á föstudaginn langa. Eg get með góðri samvisku sagt að allt hafi farið þokkalega vel fram, menn og konur áttu margar ágætar samræður og umræður um það sem á daga þess hefur drifið frá því það síðast hittist. Flestir hafa ákaflega lítið breyst, bæði í útliti sem og hegðun, en það verður ekki talið öllum til tekna. Vert er að taka það fram að meistarkokkurinn Jón, sem lengst af stýrði kjötborðinu í Nesbæ, meðan hann var og hét, töfraði fram indislega máltíð sem fór að öllu leiti ljúflega niður, allt frá humarsúpunni til núggatísins, með góðu stoppi hjá lambasteikinni og ekki spillt lágt verð ölsins. Þó að kveldið hafi farið vel fram í alla staði, þá er nú vart hægt að tala um það sem ákaflega eftirminnilegt, ef ekki væri fyrir hlut Kára hins fróða Viðarssonar og Jóhanns hins arma Sigurðssonar. En sá síðarnefndi varð æði argur og réðst á þann fyrrnefnda í æði miklu og greip um höfuð honum. Þóttust menn þar kenn tilburði til þess bragðs er heilaslettingur er kallaður og fellst í því að kreista höfuð andstæðingsins þar til heilinn slettist út um þau göt er leið er greiðust. En menn þurfa til að bera styrk á við vel rúman sveitamann til þess að ná þessu bragði og þó að Jóhann sé upp alinn í sveit, er eg hræddur um að löng og mögur ár á mölinni hafi burtu nomið mesta allan þann styrk er hann áður prýddi. Svo ber náttúrulega að nefna það til að halda réttlátu hlutleysi að Kári er maður höfuðharður með meiru enda eyddi hann mörgum stundum í að herða höfuð sitt í æsku, þá einna helst með því að berja því við stein. Svo má ekki gleyma hlut Snorra hins hrausta Þórðarsonar og Guðna hins gráa Guðmundssonar, en þeir eru fóstbræður Kára og þustu honum til aðstoðar eins og sönnum hetjum sæmir. Reyndist máttur þeirra þó einna best við það að forða Kára hinum óða ('fr' týndist í látunum) frá því að verða manns bani en segja menn að froða hafi ollið úr vitum hans og að augu hans hafi ranghvolfst af bræði einni saman. Vert er einnig frá því að greina að Kári greip heljartaki um háls hins arma og hélt honum þar frá sér. Komst Kári slysalaust frá átökum þessum nema að yrjóttur blettur byrtist á hægra kinnbeini hans, en reyndist hann vera tilkomin vegna hnés Guðna hins gráa sem hafði þar viðkomu í hamagangnum. Eigi fer frekari sögum af fangbrögðum þetta ágæta kveld.

En nú er sem sagt páskadagskveld og eg hef ekki enn fengið páskaegg. Mér reiknast til að þetta sé í fyrsta skipti eftir að eg komst til vits og ára, sem eg fæ ekki páskaegg og er það miður eg kem til með að gráta mig í svefn á morgun, en burt séð frá því þá er lífið ákaflega gott...

Konni B.(ullari)