Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, apríl 11, 2003
 
Dagurinn er að kveldi kominn og ég kominn heim að Tunguvegi 18. Hér er margt góðra mann og kvenna. Gunnur heitir stúlka ein ofan af Akranesi og utan af mýrum ættuð. Hún er í vísiteringu hjá honum Kára sínum, en kunnugir segja að þeim sé eigi kallt um nætur og ef svo ólíklega vill til þá verði þeim ekki skotaskuld úr því að hlýja hvort öðru. Hér er einnig staddur Aðalsteinn nokkur ásamt sínu viðhengi og ektakvinnu henni Sollu. Þau sitja nú með fyrrnefndum Kára, Guðna og Valda, meðleigjendum mínum og spila Risk, herkænskuspilið ógurlega.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera að vinna í dag. Ég vinn í 101 Reykjavík og tek gjarnan strætó í vinnuna. Þetta væri nú ekki í frásögu færandi nema hvað að þegar ég stíg út úr sexunni minni heittelskuðu niðri á Lækjartorgi, þá mætir mér flóð af fílum (fíllinn hún Nellý skillst mér), býflugum, púkum og öðrum furðuverum. Ég þurfti nú ekki að velkjast lengi í vafa um hvað hér var á ferðinni, því ég sá að hvert og eitt einast kvekendi var með áfengi um hönd. Þá kom aðeins eitt til greina, framhaldsskóla útskriftarnemar að dimmitera. Þ.e. að gera sig að fífli, uppáklæddur sem furðuverk, peð ölvaður niðri í bæ. Það útskýrði líka hvers vegna Hlemmur var fullur af konum á upplut og peysufötum, og körlum í kjól og hvítt með pípuhatt. Þar voru víst nemendur Verzló (held ég alveg örugglega, gæti verið MR) á ferð. Svo þegar í vinnuna var komið þá heyri ég í fréttum að þrír nemendur MS væru í haldi lögreglu eftir að hafa "veist að", eins og það er kallað, búðareiganda á Laugarvegi. Ég get nú ekki orða bundist, geta menn nú ekki dimmiterað án þess að lenda í slagsmálum og höggva mann og annann, hvað þá saklausa verslunareigendur sem hafa það eitt til saka unnið að henda draugfullum furðudýrum á dyr. Ég reyndar get mér þess til að það hafi verið orsök málsins, ég veit það ekki fyrir víst. Eitthvað var minnst á að nemendur MH hefðu gert einhvern skandal líka, en ég heyrði það ekki endurtekið í síðari fréttatímum svo að varla getur það hafa verið alvarlegt. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þeir sem hafa lifað af daginn, komi til með að skemmta sér fram eftir nóttu í miðbænum og segja mér kunnugir að þar gæti orðið þónokkuð fjör. Ég dreg það ekki í efa, en þar sem ég þarf að dæma undanúrslitaleik í 10. flokki kvenna í köru í fyrramálið klukkan 9:00, þá held ég að ég verði bara heima stilltur og prúður.

Þokkalega gott fólk, ég læt þetta duga og kveð að sinni,

Konni B.(ullari)