Konni B.(ullari)


Konráð J. BrynjarssonThis page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, maí 07, 2007
 
"Hann sagði: Ú, Í, Ú, A, A, tíng, teng, valla valla bing bang"

Vika liðin af sveitarómans og þótt veðurguðirnir hafi ekki verið að sýna allar sínar bestu hliðar (sem hefur m.a. leitt af sér nýjan skammt af kvefi hjá undirrituðum) þá heldur lífið áfram að kvikna. Báru tvær á föstudaginn, önnur tvílembd og hin einlembd, og ein í gær, einlembd. Þegar þetta er ritað þá er ein mætt á fæðingardeildina og á hún von á sér hvað úr hverju. Á laugardaginn hygg ég á heimferð og ætlar familíjan á Bakka að skella sér í höfuðborgina á sama tíma og skutla mér heim. Þá geri ég ráð fyrir að vístera vin minn Kára og hans spúsu Gunni um kvöldið og fagna Eurovision og kostningum (já eða drekkja sorgum mínum, eftir því hvernig keppnirnar fara). Svo ætla ég náttúrulega að nota mikilvægasta rétt manna í líðræðisríki og kjósa.

Er búinn að komast að því að ég bý í Reykjavíkurkjördæmi Suður og er meira að segja búinn að finna út úr því hvar ég á að kjósa. Þá er einungis eftir að merkja við á seðilinn, sem er oft mjög erfið ákvörðun en ég er fyrir margt löngu búinn að gera upp hug minn. Ég er þannig þenkjandi (og hef alltaf verið) að mitt atkvæði ræðst einna helst af því hverjir skipa listana í mínu kjördæmi. Þar er um marga ágæta einstaklinga að ræða.

Hjá Framsókn er Jónína Bjartmarz í fararbroddi, kona sem ég hef hingað til borið töluverða virðingu fyrir og mér þykir hún hafa sýnt staðfestu í að fylgja sannfæringu sinni án þess þó að mála sig út í horn í sínum flokki. Góður diplómat þar á ferð. Fjaðrafokið um ríkisborgararétt tilvonandi tengdadóttur hennar hefur þó sett smá blett á. Aðra á listanum þekki ég lítið sem ekkert og ekki eru miklar líkur á því að þeir komist að svo þeirra vægi er lítið hjá mér.

Lista Sjálfstæðistmanna leiðir formaðurinn Geir Haarde. Þó mér hafi hugnast lítt margt af því sem þeir hafa gert og ýmsar þeirra skoðannir, þá get ég ekki mælt á móti því að Geir býður af sér gríðarlega góðan þokka. Hann hefur unnið að því hörðum höndum að má "Davíð slikjuna" af flokknum og hann virkar traustur, ákveðinn og fylginn sér. Næstu er Björn Bjarnason sem er maður lítt að mínu skapi. Sérstaklega þykir mér "hernaðarbrölt" hans lítið sniðugt en hann hefur það með sér að hann tók sér tíma í að svara mér, þegar ég sendi honum tölvupóst fyrir nokkrum árum þegar hann var menntamálaráðherra, eitthvað sem ekki allir hefðu gert. Illugi Gunnarsson er þriðji, hann þekki ég lítið en það litla sem ég þó hef séð til hans er alls ekki slæmt.

Efsti maður Frjálslyndra er Jón Magnússon. Málflutningur hans um innflytjendur dæmir sig sjálfur, þó vissulega sé það okkur mjög hollt að ræða málefni þeirra, bæði hvað betur má fara í móttöku þeirra og hversu marga við viljum fá til landsins. En hann hefur alið á hræðslu og margt sem hann hefur sagt dansar línudans á fordómalínunni. Aðrir á listanum skipta aungvu máli, komast aldrei að.

Samfylkinguna leiðir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður þess ágæta flokkst. Hún er kjarorkukvendi sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Ég heyrði umræður í útvarpinu þar sem allir formenn flokkanna voru saman komnir og fannst mér hún koma einna besta út þar. Fumlaus og föst á sínu, án þess þó að fara út í eitthvað skítkast eins og ýmsir gerðu. Það er samt eitthvað við hana sem gerir það að verkum að hún fellur mér ekki alveg nógu vel í geð. Hugsanlega ræður þar kratahatrið sem alið var á í mínu ungdæmi. Aðrir á listanum eru mér lítið þekktir, nema þá kannski helst Mörður Árnason, sem sér til frægðar hefur það helst unnið sér í mínum bókum, að hafa verið í ritstjórn íslenskrar orðabókar, sem er ein mín uppáhalds bók.

Lista Vinstri Grænna leiðir Kolbrún Halldórsdóttir. Nú verð ég að gæta mín, því ég hef svo illa bifur á þessari konu að hugsanlega gæti ég átt yfir höfði mér málshöfðun um meiðyrði ef ég sleppi fram af mér beislinu. Læt mér nægja að segja að ég muni fyrr dauður liggja en að veita henni atkvæði mitt. Sem er reyndar miður því að á þriðja sæti listans er gömul bekkjasystir mín úr grunnskóla, Auður Lilja Erlingsdóttir, sem ég myndi gjarnan vilja kjósa því ég hef mikið álit á henni og væri alveg til í að hjálpa til við að koma henni á þing.

Efsti maður Íslandshreyfingarinnar er Ómar Ragnarsson. Hér þarf ég líka að passa mig, því jákvæðar skoðannir mínar á honum eru jafnvel sterkari en neikvæðar skoðanir mínar á Kolbrúnu Halldórsdóttur. Ég hef verið mikill aðdáandi Ómars síðan ég man eftir mér. Ég hlustaði með andakt á plöturnar hans þegar ég var polli, þar sem ég lá á stofugólfinu hjá ömmu og dundaði mér við spilamennsku eða að byggja spilaborgir. Ég geri það enn og syng með hástöfum eins og minn góði vinur Hjálmar hefur oft minnt mig á. En hann hlaut þá blessun að vakna upp við fagran óm raddar minnar, þegar við bjuggum saman, þar sem pakkaði inn jólagjöfum og söng með Gáttaþef. Ekki síðri virðingu hefur hann öðlast hjá mér í störfum sínum sem fréttamaður og þó mér hefði þótt hann mega koma fyrr "út úr skápnum" með skoðanir sínar á Kárahnjúkavirkjun og þeim náttúruspjöllum öllum þá gat ég ekki annað en virt hann fyrir það og hveru vel honum tókst að halda hlutleysi sínu í fréttaflutningi fram "opinberuni". Ég er líka kominn með nóg af stóryðjubrölti, þó ég get vel viðurkennt að álverið á Reyðarfirði virðist hafa gert margt gott fyrir austurlandið og vonandi gerir það áfram. Ég hef líka lengi verið þeirrar skoðunnar að við eigum að hyggja hátækniiðnaði, höfum eitt hæsta menntastig á bygðu bóli og eigum að notfæra okkur það í iðnaði sem nýtir auðlindirnar okkar á hreinlegri og arðbærari hátt en stóriðjan gerir. Ég á ekki von á því að fleiri komist á þing af þessum lista en Ómar, því fjalla ég ekki um þá, enda flest það fólk mér alls ókunnungt.

S.s. þetta eru valkostirnir og ég held að flestir ættu að geta ráðið hvar Xið mitt lendir á laugardag og ég veit að ýmsir telja að þar með sé ég að henda atkvæði mínu á glæ og að það falli dautt. Slíkur málflutningur þykir mér í hæsta máta vafasamur, því þótt ég geri mér fulla grein fyrir því að líkurnar séu hugsanlega ekki miklar á því að það skili manni á þing, þá eru mun meiri líkur á því ef ég greiði atkvæði en ef ég geri það ekki. Svo finnst mér það heimskulegt að halda því fram að atkvæði geri einungis gagn ef það er greitt flokkum sem eru tiltölulega öruggir með að koma mönnum að. Ég er að tjá skoðun mína og geri það heyrinkunnugt að til þess að ná mínum atkvæði þurfi menn að huga að þeim málum sem þeir sem ég kýs eru að leggja áherslu á. Og hugsanlega að tefla fram því fólki sem ég kýs, fáist það til þess á annað borð.

Ég verð líka að minnast aðeins á eina af auglýsingum framsóknarmanna. Hún fjallar um rauða kallinn sem segir stopp. Mynd birtist líka af rauða kallinum og honum svipar sterklega til Steingríms Sigfússonar. Þessi auglýsing er farinn að gæla við persónlegu skítkasts auglýsingarnar sem tíðkast víða annarsstaðar, helst í Ameríku. Mér fellur þetta ekki. Önnur ástæða til að kjósa ekki framsókn.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.