Konni B.(ullari)


Konráð J. BrynjarssonThis page is powered by Blogger. Isn't yours?
mánudagur, apríl 30, 2007
 
...draumana eigum við, það verður bið, smá bið, en einhverntíman...

Svo bregðast krosstré sem önnur og hingað læðist inn ein og ein færsla. Ég hef fengið ýmsar áskorannir og hef verið væskill kallaður af systur minni en við slíkt er ekki hægt að una. Þó er það nú ekki aðalástæðan fyrir skeiði mínu út á ritvöllin að nýju. Ég hygg á skólavist í haust í Háskóla Íslands. Þar ætla ég að nema Enska tungu og þarf því að æfa ritfimi mína. Að vísu ætla ég mér ekki að breyta hér um tungumál heldur kýs ég að halda mér í ritæfingu í bili á íslensku, hinu ástkæra, ylhýra máli voru. En að öðru.

Körfuboltavertíðinni er lokið, var reyndar styttri hjá mér en áður því ég þjáðist af hnéeymslum fram yfir áramót og dæmdi því ekki fyrri helming mótsins. Nú á laugardaginn var, héldum við körfuboltafólk landsins lokahóf, það tókst með miklum ágætum og menn og konur skemmtu sér hið besta, ég þar á meðal. Gríðarlega góður endir á góðu tímabili. En nú er komið að nýjum áskorunum.

Sú fyrsta er að næstu tvær vikur, á meðan ég er í sumarfríi, þá verð ég vinnumaður á Ferjubakka hjá systur minni og mági. Svo aðrar tvær í júní. Ég hef ekki verið í sveit síðan á síðustu öld, þá meina ég í vinnumennsku. Get ekki sagt annað en að ég hlakki til að takast á við verkefnið, þó fríið sé kannski ekki mikið í hefðbundum skilningi þá er tilbreytingin gífurleg og kannski mesta hvíldin í því fólgin.

Næsta er sú að koma mér í betra líkamlegt form í sumar. 10 kíló þyrftu að fjúka og þrek og þol að aukast. Ég þarf líka að halda áfram að koma mínu auma hné í betra ástand en þó hefur það verið í ágætu standi undanfarið en betur má ef duga skal.

Sú síðasta en ekki sísta er að standa mig í skólanum en það eru ca. 4 ár síðan ég reyndi síðast að nema eitthvað á hefðbundin hátt, svo viðbrigðin verða talsverð.

Þannig að það verður nóg um að hugsa í sumar hjá mér og undir nógu að standa.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.