Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, desember 22, 2004
 
"Ég fer alltaf yfir um jólin..."

Jæja ætli sé ekki rétt að hefja sig til flugs á skeiðvelli hins ritaða máls. Ég hef verið ákaflega latur við slík flugtök upp á síðkastið. Sem undrar mig ekki mikið, því það má segja að ég hafi haft yfirdrifið nóg að gera, bæði í vinnu og utan hennar. En nóg um það, ég ætla allavega að rita hér smá hugleiðingu um stórmerkilegan smitsjúkdóm, sem virðist leggjast á geðheilsu fólks. Ég hef orðið var við það í mínu starfi undarfarnar vikur að ákveðin manía virðist hafa ágerst hjá landanum. Við Íslendingar erum jú alla jafna frekar manískt fólk, iðulega á hraðferð og höfum oft á tíðum lítin tíma til að gera nokkurn hlut (eins og ég minntist á í pistli ekki alls fyrir löngu). En þessi manía virðist hafa ágerst smá saman á undanförnum nokkrum vikum.

Ég hóf störf hjá ágætu fyrirtæki, Bræðrunum Ormsson, mánudaginn 22. nóvember sl. Ég er starfsmaður á lager fyrirtækisins og í mínum störfum er m.a. fólgið að taka á móti vörum (sem fyrirtækið kaupir inn til sölu) og keyra út heimilistæki (sem fyrirtækið selur í verslunum sínum) og innréttingar til fólks. Mér þótti starfið fara ansi vel af stað, nóg var að gera og verkefnin fjölbreytt. En viti menn, frá þessum degi þá hefur velta varnings (skv. mínum óvísindalegu mælingum) í gegnum hendurnar á okkur lagerköllunum aukist daglega. Fólk sem á von á okkur með eitthvað hefur orðið ákafara, óþolinmóðara og stressaðra í jöfnu hlutfalli við aukningu veltunar. Það virðist því sem hin Íslenska þjóð hafi fengið smitandi maníusjúkdóm sem lýsi sér í brjáluðu kaupæði, stressi og nettri vitfyrringu.

Ég heyrði nafnið á sjúkdómnum um daginn og þá rann það upp fyrir mér að ég kannast við kauða. Hann hefur komið áður og ég hef fengið hann í einhver skipti þó að ég hafi sloppið þetta árið. Hann kallast jól.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.