Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
fimmtudagur, febrúar 05, 2004
 
"Táp og fjör og frískir menn, finnast hér á landi enn. Þéttir á velli og þéttir í lund, þrautgóðir á raunarstund." Ég fékk ábendingu frá dyggum lesanda ekki alls fyrir löngu þess efnis að ég talaði gjarnan um sömu hlutina sí og æ. Eftir nokkur mótmæli og dulítin þankagang, þá komst ég að því að honum var ekki alls varnað í gagnrýni sinni. Svo til þess að standa undir nafni, og vegna þess að ég veit að lesendur mínir eru gríðarlega vanafastir, þá er best að koma þessu situði mínu frá.

1. Ég er nokkuð svangur, en þó ekki svo að ég lifi það ekki af.
2. Ég var duglegur í gær og fór í ræktina, mun bæta um betur í dag og fara aftur í ræktina, bíst þar af leiðandi við þreytu í kvöld.
3. Er orðinn frekar framlár og er mjög feginn að ekki er nema einn "áreitisdagur" eftir af vikunni.

Svona þá er daglega tuðið komið fram og ég get því snúið mér að öðru.

Ummm... ehhh... þetta er ekki alveg nógu gott, ég hef ekki nokkra sniðuga hugmynd um hvað þessi pistill ætti að fjalla. Ég hef nefnilega, aldrei þessu vant, staðið í stöðugu spjalli í allan dag og þar sem yfirleitt er slökt á heilanum í vinnunni (sem er nauðsyn svo maður fái nú ekki heilablæðingu af leiðindum) þá er hann ekki vanur slíku áreiti og er orðinn þurr. En á meðan ég hefi párað þetta, þá hefur mér flogið í hug umræðuefni.

Eins og þeir vita sem fylgjast með fréttum, þá var ástkærum útibússtjóra Kaupfélagsbankans í Borgarnesi, sagt upp störfum í vikunni. Ég fékk nú hálfgert sjokk þegar ég fékk fregnirnar, og það hefur lítið skánað eftir því sem ég hef fengið fleiri fréttir af málinu. Ein útgáfan mun vera sú að Kristján bankastjóri (en sá er umræddur útibússtjóri) hafi einn manna innan KB-Banka, staðið á móti þeirri stefnu bankans að hirða vörumerki Kaupfélags Borgfirðinga, "KB", af félaginu án þess að taka nokkuð tillit til þess að félagið hefur notast við einkennið í 100 ár. Eitthvað mun þessi útgáfa vera fabúleruð og mun hið sanna vera að aðeins æðstu yfirmenn bankans viti hið sanna og hafi ekki einu sinni haft fyrir því að tilkynna Kristjáni það.

Yfir þessu öllu er ég mjög leiður. Ég hef átt í mjög góðum viðskiptum við útibúið í Borgarnesi, síðan ég sleit öll bönd við Sparisjóðinn fyrir nokkrum árum. Aðal ástæða ánægju minnar með KB Banka í Borgarnesi, er sú frábæra þjónusta sem þar er veitt. Ég vona að hún haldi áfram, því ef ekki, þá veit ég að fáir viðskiptavinir eru jafn heillandi fyrir aðra banka en þeir sem fara í fússi frá öðrum og ekki spillir fyrir að ég skulda svolítið en er jafnframt ákaflega skilvís. Spurning um að selja sig bara hæstbjóðanda. Allavega er ég ekki á eitt sáttur með þessa meðferð bankans á Kristjáni og ég vona að þeir sem á henni bera ábyrgð, skammist sín. Ekki svo að skilja að menn sem ætluðu að skammta sér triljarða í laun hafi einhverja samvisku, en maður má vona.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.