Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
sunnudagur, nóvember 30, 2003
 
"Can't walk away, no no no no, can't walk away, can't walk awwwway"

Ég hef ekki sagt frá því á þessum vetvangi áður, en ég á mér átrúnaðargoð. Það goð hefur í gegnum árin heillað landann með söng og farandbókasölu. Er samkvæmt mínum heimildum sá besti í þeim bransa, reyndar hef ég orðið vitni að söluhæfileikum hans í eigin persónu, og það oftar en einu sinni. Það var við eitt slíkt tækifæri sem (reyndar í fyrsta sinn sem ég sá hann) ég tók þennann mann formlega í guðatölu. Þá var ég ungur, saklaus drengur í sveit hjá ömmu minni vestur í Kolbeinsstaðahrepp. Ég hafði þá verið þar í nokkurn tíma (eins og barna var siður í mínu ungdæmi) við leik og störf. Einn morguninn tek ég eftir því að hún amma mín er að hamast við að þrífa eggin sem ég hafði sótt kvöldið áður. Ég spyr hvað valdi, því ég átti því ekki að venjast að sjá ömmu með uppþvottaburstan á lofti við eggjaþvott strax eftir mjaltir. Hún svarar því til að Herbert sé væntanlegur og skýrir það ei frekar. Síðar um daginn rennur bíll í hlað og út úr honum stígur glæsmenni mikið, ekki hár í loft en þeim mun stórfenglegri á velli. Mér verður starsýnt á manninn, ekki vanur því að menn séu sparibúnir í sveitum nema við ákaflega sérstök tækifæri. "Hæ kútur, er Ólöf heima?" spyr sá ókunni. Ég jánka því og þýt inn í bæ til að tilkynna um gestin. Kemur þá amma mín fram og tekur á móti gestinum með þessum orðum. "Komdu sæll og blessaður Herbert minn, hvernig hefurðu það góði?"

Herbert gestur tekur innilega undir kveðju ömmu og gengur í bæinn eins og hann eigi þar hvurn stein. Hann situr á kolli í miðju eldhúsinu, í svörtum frakka, með skalatösku í fanginu. Þau amma mín spjalla mikið saman og man ég nú lítið eftir því hvað þeim fór þar á milli, nema að með reglulegu millibili þá segir amma eitthvað á þessa leið. "Nei takk, það held ég ekki" og aðrar setningar í svipuðum dúr. Eftir að hafa drukkið eins og einn eða tvo kaffibolla þá stendur gesturinn upp og spyr hana ömmu mína hvort hún eigi nú ekki egg handa sér. Amma heldur það nú og dregur fram úr ísskápnum eggjabakka fullan af hvítum og fallegum eggjum. Ég horfi stóreigur á manninn taka við eggjunum og smella stórum kossi á kinnina á ömmu. Hann kveður hana svo með virtum og mig með klappi á kollinn, um leið og hann segir: "Sjáumst kútur." Svo stígur hann upp í bílinn og ekur á burt. Ég var ekki seinn að spyrja ömmu hvur þetta hefði nú verið. "Þetta var hann Herbert Guðmundsson Konráð minn. Hann kemur stundum við hérna hjá mér og fær egg."

Síðar hef ég orðið vitni að því hvernig Herbert sannfæri óviljuga kúnna (foreldra mína) um ágæti einhvurra bóka og í síðasta skiptið sem ég sá hann þá keypti ég sjálfur af honum tvo af geisladiskunum hans og fékk hann til þess að árita þá. Það eru fáir eins og Hebbi. Gríðarlegar þakkir til Batman.is fyrir að beina mér að heimasíðu goðsins.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.