Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, maí 31, 2003
 
Rigningar og nostalgía

Það rignir í borg óttans. Þá er ekki gaman að tölta um götur hennar og stræti, vegi, heima, holt, hóla og hæði. Hvað þá geisla, kvíslar og brunna. Með öðrum orðum, það er best að vera inni og slappa svolítið af. En það er ekki hægt, ég er að vinna og það felur í sér að standa úti í rigningunni í samtals fjóra tíma af þeim tólf sem fylla eina vakt. Ekki sniðugt, allavega ekki sniðugt fyrir mig, ég er nefnilega harður andstæðingur rigningar, þegar henni er beint að mér. Ég kann nefnilega öngvan vegin við að vera blautur. (Nema þegar ég fer í sund, bað, sturtu eða álíka) Við Kári, minn ástkæri heimspekingur í hjáverkum, höfum háð marga hyldi yfir því hvort sé verra, rokið eða rigningin. Við höfum enn ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu, annarri en þeirri að við erum sammála um það að rok og rigning saman sé hreint ekki sniðugt veður til þess að stunda sólböð eða aðra útivist. Ég er reyndar farinn að hallast að því að Kári minn hafi rétt fyrir sér, að rokið sé bara verra, en ég er ekki alveg tilbúinn að láta í þann smágerða poka strax.

Það er alger snilld að getað hlaðið niður allskonar dótarýi af netinu. Því miður get ég ekki gert það í vinnunni, eins mikil snilld og það nú væri, en heima hef ég notað tækifærið og nælt mér ýmislegt sniðugt. Eitt af mörgu eru 12 þættir (að mig minnir) af Harrý og Heimi, svakamálaleikriti í fjölmörgum þáttum. Þetta voru þeir Karl Ágúst í hlutverki seinheppna einkaspæjarans Harrý, og Siggi Sigurjóns. sem klaufskur aðstoðarmaður hans, Heimir. Þetta voru útvarpsleikþættir sem voru fluttir á Bylgjunni fyrr allmörgum árum síðan. Ég man nú reyndar takmarkað eftir þeim félögum en ég er nokkuð viss um að Ragnar vinur minn risi þekkir á þeim betri skil. Ég er nú reyndar ekki búinn að hlusta á alla þættina en það verður gert bráðlega. Önnur snilld sem ég "niðurhlóð" (hmm það vantar betra orð yfir þetta) af netinu er platan (lögin af henni) Bessi Bjarnason syngur fyrir börnin. Ég er búinn að sofna með þvílíkum nostalgíu sæluhroll undanfarnar nætur, með Bessa syngjandi um Ari og Gutta, svo ekki sé minnst á Kidda á Ósi og Sigga (sem var úti með ærnar í haga, þið munið) og öll hin nostalgían, brrrr sæluhrollurinn hríslast um mig. Ég þarf að komast í það að koma vinylnum hennar ömmu á tölvutækt form. Ástæðan fyrir allri þessari nostalgíu er einmitt að þegar ég var yngri, þá lá ég gjarnan inn í stofu hjá ömmu, með Bessa eða Ómar (Ragnarsson) nú eða þá ævintýri Egners á plötuspilaranum á meðan ég las í bók, byggði spilaborgir eða dundaði mér eitthvað annað. Þetta voru sælutímar. (Fjarrænt sælubros líður um varir mínar og augun missa fókus í nútíðinni...)

Fleira ekki gert, fundi slitið.