Konni B.(ullari)


Konráð J. Brynjarsson



This page is powered by Blogger. Isn't yours?
föstudagur, apríl 08, 2005
 
"Hver trítlar þarna niður tröppurnar, með tuskurnar sínar um kroppinn, er kem ég inn úr kuldanum, kalinn á hjarta og loppinn."

Við Ragnar vorum í gærkveldi á einum stórkostlegustu tónleikum sem ég (við báðir) hef nokkurn tíman verið á. Þeir nefndust Megas LX. Tilefnið var sextugsafmæli Meistarans sjálfs. Þarna úði og grúði af frábærum tónlistarmönnum, sem allir fluttu lög og/eða texta Meistarans í nýjum og notuðum útsetningum. Funkstrasse fór fimlega með Paradísarfuglinn, en það sem vakti þó mun meiri athygli við þeirra flutning var múndering söngvarans. Við vorum nokkuð vissir á því að þar færi Óttar Proppé sem er betur þektur sem raddbandaþenjari í Ham og sem bóksölumaður í M&M á Laugarvegi. Hann var íklæddur að hætti melludólga í ameríku á sjöunda áratugnum. Skórnir voru með sebramunstri og góðir 30 cm á hæð (þ.e.a.s. sólinn), buxurnar voru bleikar af spandex gerð og hann prýddi sig með perlufesti þar sem hvur perla var ábyggilega hátt uppundir 10 cm í þvermál. Súkkat stigu einnig á svið og komu meira að segja tvisvar, í seinna skiptið með einn umdeildasta texta Meistarans upp á arminn. Sá er víst ætíð fluttur þar sem lög Megasar eru leikinn en var ekki á upprunalega lagalista hátíðarinnar. Svo þeir tóku sig til og tróðu sér inn aftur með lagið upp á arminn. "Litlir sætir strákar reynast alltaf best"

Fleiri áttu snildarlegar innkomur, Hjálmar, Trabant, KK, Ellen Kristjáns, Hera, Ragnheiður Gröndal, Magga Stína og Valgeir Guðjónsson. Pálmi Gunnars fór á kostum með fanta blús, Dr. Gunni með fallegasta kvæði sem ort hefur verið um athöfnina að pissa, eins og hann orðaði það. Svona mætti lengi telja. Hjálmar Sveinsson, sem ég þekki helst af því að fara fimlega með fréttir úr þýskum dag- og vikuritum í Speglinum á Rás 2, rammaði prógrammið inn með skemmtilegum kynningum og háðglósum á menn og málefni, mjög svo í anda Meistarans. Í einu orði sagt, snilld!

Ég saknaði margra laga og margra tónlistarmanna en þeirra var greinilega ekki þörf. Þegar samkoman var úti og menn við að rísa úr sætum, var mér hugsað til þess að gaman hefði verið að heyra í Meistaranum sjálfum. Í því hefst sýning á tjaldi af frægum sjónvarpsþætti sem sýndur var 30 árum eftir að hann var tekinn upp. Þar steig Meistarinn á svið, vopnaður ógurlegum augnlepp og kassagítar, hóf um sérkennilega rödd sína og söng lokalagið, um fróma ósk ungs manns um að amma fylgi honum í blómalandið. Viðeigandi endir á einstökum atburði.

Fleira ekki gert, fundi slitið.






mánudagur, apríl 04, 2005
 
"Ég átti afmæli í gær, ég átti afmæli í gær, ég átti afmæli sjálfur, ég átti afmæli í gær!"

Þakka ykkur kærlega fyrir allar kveðjurnar, það borgar sig greinilega að auglýsa daginn á netinu. En ég er samt bara búinn að fá einn pakka, en sá var líka extra góður. Tvær innihaldsríkar bækur og indislegar pönnsur (svo ekki sé nú talað um kleinurnar og kökuna) og allt var þetta í boði sömu stúlkunar. Psssst ef þú vissir það ekki Hrönn mín þá ertu æði! Það er að frétta af íbúððarmálum að ég er kominn með eina í festar og í þessum töluðu orðum þá sitja reiknimeistarar Landsbankans sveittir við útreikninga um hversu háa fjárhæð þeir ætla að lána mér til þess arna. Ég geng því um með krosslagða fingur og titrandi taugar en er þó, eins og ætíð, alveg viss um að ég fái hálfan heiminn að láni en þurfi bara að endurgreiða fjórðung. Reyndar eru vextir hér á landi með þeim ósköpum gerðir að væntanlega þá verður þetta á hinn veginn, en maður má alltaf vona.

Í öðrum fréttum þá er það helst að ég hef selt sjálfrennireið vora fyrir ótilgreinda upphæð, öðlingspiltnum Viðarssyni Kára og í stað hans fest fé í samlitu korti sem tryggir mér aðgang að gulri limmósínu með 42 bílstjórum. Það er jafnvel spurning hvort ég festi fé í hjólhesti, þeir fást þessa dagana því sem næst gefins, en enn sem komið er þá duga tveir jafnfljótir og gula hættan.

Fleira ekki gjört, fundi slitið.